Hjörleifur Guttormsson 19. október 2019

Heimsbyggðin að falla á tíma

Þrjátíu ár eru liðin frá því Fukuyama skrifaði sín þekktu rit um Endalok sögunnar (End of history) um það leyti sem Sovétríkin hrundu og hann sá fyrir sér lýðræði og þingræði blómstra og leysa vanda mannkyns. Þetta var á hápunkti nýfrjálshyggjunnar með Reagan og Thatcher í fararbroddi. Um sama leyti var á vegum Sameinuðu þjóðanna verið að leggja drög að alþjóðasáttmálanum um loftslagsbreytingar, sem innsiglaður var á Ríó-ráðstefnunni 1992. Þær vísbendingar sem þar voru dregnar saman um áhrif iðnvæðingar á lofthjúp jarðar byggðu á  áratuga rannsóknum sem síðan hafa orðið að vissu og fengið viðurkenningu alþjóðasamfélagsins með Parísarsamþykktinni í árslok 2015. Enn finnast þó stjórnvöld og sterk hagsmunaöfl sem berja höfðinu við steininn og hafna augljósum staðreyndum, fremst í flokki Bandaríkin undir forystu Trumps. Á þetta vorum við rækilega minnt við Hringborð norðurslóða (Arctic Circle) í Hörpu um síðustu helgi þar sem öðrum bandarískum stjórnmálamanni, John Kerry, utanríkisráðherra 1913- 1917, voru veitt verðlaun af aðstandendum samkomunnar. Með því var undirstrikað hvað er í húfi í loftslagsmálum í forsetaskosningunum vestra eftir tvö ár,  þótt í raun gangi einnig flestar aðrar ríkisstjórnir undir próf fram að þeim tíma.

Afrek Ólafs Ragnars og aðstoðarfólks

Hringborð norðursins hefur frá árinu 2013 verið árviss haustviðburður í Hörpu og nú er búið að dagsetja slíkar samkomur næstu þrjú árin. Ég er sannfærður um að engir fundir hérlendis hafa á þessu skeiði vakið aðra eins athygli á Íslandi vítt um veröld og Arctic circle. Sú blanda af fyrirlesurum og þátttakendum sem fyllt hafa húsakynnin í Hörpu er í senn óvenjuleg og einstök þar sem saman eru leiddir áberandi stjórnmálamenn, vísindamenn og fólk úr viðskiptalífi allt frá Peking vestur um til Washington til að ræða málefni norðurslóða í víðu samhengi og einnig sértækt að eigin vali. Skipulagið hefur þróast og heflast frá ári til árs og aðsóknin vaxið, ekki síst með ungu fólki sem nú dregur vagninn gegn loftslagsvánni. Auk tilkvaddra þátttakenda gefst áhugafólki, samtökum og fyrirtækjum hér kostur á að kynna sín áhugasvið. Eðlilega fá málefni norðurslóða mesta áherslu og þannig var dagskráin í ár mikilvæg lyftistöng fyrir Grænlendinga og samstök frumbyggja. Sem heild er samkoma sem þessi geysilegur fróðleiksbrunnur, bæði það sem sækja má í einstök erindi og tilvísanir í frekari heimildir, en einnig þau tengsl sem myndast manna á milli. Ég hef ekki yfirlit um þátttöku Íslendinga í þessum viðburðum, en sýnist þó að áhugi alþingismanna okkar á samkomu sem þessari mætti vera meiri. Hingað leggja leið sína allmargir af landsbyggðinni og m.a. sýndist mér Akureyringar nú eiga hér góðan hlut að máli. Stofnun Vilhjálms Stefánssonará Akureyri stendur hér líka árlega fyrir dagskrá með völdum fyrirlesurum, og að þessu sinni flutti Michael Bravo frá Cambridge frábært erindi um Norðurpólinn í sögulegu ljósi.

Ört versnandi horfur

Ekki þarf langt að leita til að fá staðfestingu á vaxandi áhrifum hlýnunar af mannavöldum síðustu árin. Daglegar fréttir tengjast stigmögnun veðurfarsþátta á umhverfi okkar, auknum eyðileggingarmætti fellibylja, skógareldum sem eru orðnir æ tíðari um allt tempraða beltið, rýrnun skóga og annars lífríkis í Mið-Evrópu, að ógleymdri bráðnun og hörfun jökla hér og annars staðar. Því síðasttalda er vel til skila haldið með skriðjöklamyndum Ólafs Elíassonar í blaðauka Morgunblaðins um norðurslóðir („Björgum heiminum“) nú í aðdraganda Arctic circle. Ekki vantar mælingar til að staðfesta það sem hér er að gerast. Frá því um 1980 hefur meðalhiti á jörðinni hækkað um sem svarar +0.18°C á hverjum áratug og upp á síðkastið skotist yfir 1°C yfir meðaltalið frá tímabilinu 1850-1900 (Berkeley Earth-stofnunin). Hlýnunin er hins vegar langtum örari en þessu nemur á norðurslóðum. Markmið Parísarsamkomulagsins er að stöðva þessa háskalegu þróun við 1.5 – 2°C meðalhita, en því marki yrði ekki náð með núverandi hraða hlýnunar fyrr en á árunum 2040-2065. Það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að gera sér í hugarlund þau áhrif sem þessu myndu fylgja um veröld víða. Hér skiptir því öllu máli, ekki aðeins að ná að stöðva hlýnun við ofangreind mörk, heldur að koma á því jafnvægi sem til þarf í orkubúskap fyrr en seinna. Losun CO2  frá orkuframleiðslu jókst hins vegar um 1,7% á síðasta ári og hefur aldrei verið meiri. Milliríkjanefnd SÞ um loftslagsbreytingar segir líka í skýrslu um síðasta ár, að miðað við áætlanir ríkja heims í loftslagsmálum stefni í hlýnun upp á 3-4°C um aldamótin 2100.

Vendipunktar í loftslagsþróun

Í Hringborði norðurslóða eins og annars staðar þar sem loftslagsþróunin er til umræðu velta menn því fyrir sér, hvort og hvenær unnt sé að stöðva hlýnun við þau mörk sem Sameinuðu þjóðirnar hafa sett sér og hvaða breytingar geti leitt af sér allsherjarháska (tipping points). Í því sambandi horfa vísindamenn ekki síst til bráðnunar Grænlandsjökuls og jökla Suðurskautsins, sem gjörbreyta myndi sjávarstöðu. Um þetta var rætt á sérfundum og á aðalfundi Arctic circle. Meðal þeirra sem þar töluðu og sátu fyrir svörum var Stefan Rahmstorf frá þýsku Loftslagsstofnuninni í Potsdam, sem veitir þýskum stjórnvöldum ráðgjöf. Fyrir liggur að forysta hennar er afar ósátt við nýssamþykkta stefnu þýskra stjórnvalda í loftslagsmálum, sem hún telur ganga alltof skammt. Rahmstorf var spurður í Hörpu hvernig hann mæti horfurnar fyrir hönd sinna afkomenda. Svarið var einfalt: Ég er óttasleginn (I‘m scared). Ég hygg að það sé einmitt tilfinnig flestra sem gera sér ljósan þann vanda sem mannkynið hefur komið sér í, ekki síst í ljósi allsófullnægjandi viðbragða ráðamanna ríkja heims gagnvart því sem við blasir.

Baráttan heldur áfram

Uppreisn ungs fólks víða um lönd gegn þeim horfum sem við blasa, vekur vissulega vonir um viðnám gagnvart þessari sjálfheldu. Nýlegt frumkvæði forstjóra Sameinuðu þjóðanna gegn loftslagsvánni var gott innlegg, sem vonandi kallar fram aðgerðir. En brekkan fram undan er gífurlega brött, og þar er m.a. við ríkjandi efnahagskerfi að fást með sívaxandi misskiptingu og hagvaxtarkröfu sem vinnur gegn brýnustu breytingum í loftslagsmálum. Um þau efni og álag á auðlindir jarðar vegna sívaxandi misskiptingar og stjórnlausrar fólksfjölgunar var lítið rætt að þessu sinni við hringborðið í Hörpu. En Arctic circle kemur saman á ný að ári og hver dagur þangað til kallar á viðnám gegn vaxandi háska.



Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim