Hjörleifur Guttormsson 20. júní 2019

Þýðingarmikið norrænt samstarf á nýjum og afdrifaríkum brautum

Þeir sem komnir eru á efri ár eins og undirritaður minnast þess tíma þegar farþegaskip báru menn yfir hafið til annarra Norðurlanda, með viðkomu í Færeyjum eða Skotlandi. Enn heldur Smyril Line uppi því merki en útgerð frá Austfjörðum laðar færri Íslendinga að en skyldi. Í minningunni eru þessar sjóferðir milli Reykjavíkur og Kaupmannahafnar hreint ævintýri, sem tengdi árdaga Íslandsbyggðar við eftirstríðárin. Þarna gafst í senn tími til að kynnast samferðafólki og hugsa eigin gang í næði. Ekki sakaði þegar með í för voru þekktir einstaklingar allt frá Halldóri Laxness til Jónasar frá Hriflu, en sá síðarnefndi hafði gaman af að safna um sig ungmennum og láta ljós sitt skína. Skáldið var á rólegri nótum, enda skip löngum kærkominn vinnustaður hans, að aflokinni Gerplu er hér var komið sögu. - En þá voru reyndar byrjaðar flugferðir og með þeim sú hröðun mannlegra umsvifa sem nú ætlar allt um koll að keyra.

Norræn samvinna í köldu stríði

Þróun norrænnar samvinnu endurspeglar með vissum hætti viðbrögð við togstreitu risaveldanna eftir tilkomu NAtO 1949. Ísland gerðist þar þátttakandi undir fyrirheitinu "aðdrei her á friðartímum". Það loforð var að engu haft 1951, m.a. fyrir þrýsting frá norskum stjórnvöldum, sem vísuðu á Ísland sem herstöð fyrir NATO í stað Noregs til að komast sjálfir undan þrýstingi Bandaríkjastjórnar. - Samstarf á vegum áhugamanna og verkalýðsfélaga á Norðurlöndum þróaðist þegar á millistríðsárunum og var endurvakið fljótlega eftir seinna stríð. Átti það sinn þátt í að komið var á formlegu samstarfi þingmanna með stofnun Norðurlandaráðs þegar árið 1952, en Finnar urðu fyrst þátttakendur 1955 nokkru eftir dauða Stalíns. Samstarfið var innsiglað og fest í sessi með Helsingforssamningnum 1963, og 1971 var Norræna ráðherraráðið sett á fót sem samstarfsvettvangur ríkisstjórna Norðurlanda. Þar með var kominn sá rammi, sem í stórum dráttum hefur haldist síðan um norrænt samstarf sem á heildina litið hefur reynst farsælt og gjöfult. Það á ekki síst við um Ísland sem endurnýjaði og styrkti með því tengslin við frændþjóðirnar handan Atlantsála eftir að þau höfðu veikst og slitnað á árum heimsstyrjaldarinnar síðari. Þátttakan á norrænum vettvangi opnaði útsýni fyrir íslenska stjórnmálamenn og því hafa fylgt ferskir straumar og samstarf flokka með svipaðar áherslur. Ekkert boðvald fylgir þessu samstarfi, ólíkt því sem gerist í ESB, heldur byggir það á gagnkvæmu samkomulagi og virðingu fyrir ólíkum sjónarmiðum. Að því leyti má það teljast einstakt í alþjóðlegu samhengi og er líklega helsta skýringin á hversu endingargott það hefur reynst í ólgu alþjóðlegra sviptivinda.

Samstarfið um Norðurskautssvæðið

Á samnorrænum vettvangi beindust sjónir fyrst svo nokkru næmi að Norðurskautssvæðinu um og upp úr 1990. Féll það að nokkru saman við minnkandi spennu milli risaveldanna og lok kalda stríðsins. Í fyrstu var umhverfisvernd samhliða áhyggjum af mengun frá kjarnavopnum helsta driffjöðurin. Á þessum árum átti ég sæti í Norðurlandaráði og flutti ásamt félögum í flokkahópi Vinstri sósíalista margar tillögur um þessi efni beinlínis tengdar norðrinu. Hlutu sumar þeirra samþykki ráðsins, m.a. tillaga um sjálfbæra þróun í Arktis (A 1061/m) og um græna hagvísa (A 932/s). -
Áþreifingar milli embættismanna ríkjanna átta sem eiga beina aðkomu að Norðurskautssvæðinu leiddu til þess árið 1991 að samþykkt var í Rovaniemi arktísk umhverfisverndarstefna (AEPS). Var það fyrsta skrefið að Arktíska ráðinu1996, sem einnig samtök frumbyggja eiga aðkomu að. Vestnorræna ráðið hefur þar nýlega fengið áheyrnaraðild. Arktíska ráðið er óskuldbindandi vettvangur aðildarríkjanna átta og beinast störf þess aðallega að umhverfismálum og vísindarannsóknum á norðurslóðum. Aðalskrifstofa ráðsins er síðan 2013 í Tromsö og á vegum þess starfar fjöldi vinnu- og sérfræðinefnda sem skilað hafa gildum skýrslum. Formennska fyrir ráðinu flyst milli landa og er nú í höndum Íslands undir forystu utanríkisráðuneytisins. Þessu tengjast fjölmennir funidir embættismanna sem haldnir verða víða um land. Nokkur óvissa er um framtíð þessarar mikilvægu samvinnu, fyrst og fremst vegna skammsýnnar stefnu núverandi Bandaríkjastjórnar.

Norræna ráðherraráðið og málefni Arktís.

Fyrir utan þátttöku í Arktíska ráðinu vinna Norðurlönd sameiginlega að málefnum Norðurskautssvæðisins undir forystu ráðherranefndar sem samgönguráðherrar landanna fara fyrir. Svo vill til að Ísland hefur þar nú formennsku líkt og í Arktíska ráðinu. Skipuleg samvinna Norðurlanda hófst einnig árið 1996 og birtist hún í formi áætlunar til þriggja ára í senn. Þannig er nú unnið samkvæmt áttundu áætluninni í röð. Verkefnasviðið hefur vaxið og stækkað frá því sem áður var, en sjálfbær þróun í norðri er áfram miðlægt hugtak. Það spannar hins vegar æ fleiri svið, ekki síst með hliðsjón af yfirstandandi og líklegum loftslagsbreytingum. Í því sambandi er horft fram til ársins 2030 og til 17 sjálfbærnimarkmiða Sameinuðu þjóðanna frá haustinu 2015. Vinna embættismanna að undirbúningi að framkvæmd á þessu sviði er í höndum aðalskrifstofu Norræna ráðherraráðsins í Kaupmannahöfn þar sem starfa margir sérfróðir, m.a. nokkrir Íslendingar. Á sama stað Ved Stranden 18 er jafnframt skrifstofa Norðurlandaráðs. - Ráðið lagði blessun sína haustð 2017 yfir núverandi áætlun ráðherranna um Norðurskautssvæðið og til hennar og þrónarverkefna er varið allnokkru fjármagni. Lykilorðin að baki eru samstarf og sjálfbær þróun.

Loftslagsbreytingarnar alltumlykjandi

Liðin eru 27 ár frá Ríó-ráðstefnunni 1992 sem lagði grunninn að loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna. Löngu áður lágu fyrir vísbendingar um í hvað stefndi vegna losunar CO2. Fyrst nú eru skilaboðin að ná eyrum almennings í okkar heimshluta og endurspeglast m.a. í kosningaúrslitum nýverið í Þýskalandi. Óvenjuleg staðviðri eins og þurrka- og hitabylgjan sumarið 2018 á meginlandi Evrópu höfðu þó líklega meiiri áhrif á almenning en vísindalegar forspár. Samkvæmt þeim veldur losun gróðurhúsalofttegunda langtum meiri hlýnun á Norðurskautssvæðinu en sunnar. Splunkunýjar þýskar veðurfarsrannsóknir benda til að einmitt sú þróun hafi áhrif á háloftastrauma og hægi á ferðum hæða og lægða og valdi þannig langvarandi staðviðri, þurrkum eða votviðri. Ætli menn að ná tökum á ört hækkandi meðalhita þarf annað og meira að koma til en felst í almennum fyrirheitum stjórnmálamanna, einnig varðandi Norðurskautið. Daninn Steen Hildebrandt sem hefur verið leiðandi á vegum danska þingsins um framtíðarmarkmið til 2030 orðar það svo að nauðsynleg umbreyting kalli á alveg nýtt og enn óþekkt samfélagsform þar sem loftslag og sjálfbærni séu burðarásarnir. (Politiken, 16. júní 2019).

Vakning unga fólksins kallar á fótfestu

Í hluta Evrópu, einnig hérlendis, höfum við orðið vitni að vakningu og næmum skilning fjölda ungmenna á hvað sé í húfi. Þennan byr er brýnt að nota til samfélagslegra athafna í þágu þess umhverfis sem mannkynið er hluti af. Til þess þarf í senn dirfsku og pólitíska forystu um róttækar breytingar á samfélagsgerðinni og daglegum athöfnum. Fótspor okkar allra á umhverfið verða að minnka svo um munar. Greta Thunberg sem nú er á allra vörum sá ekki þann kost vænlegan að fljúga til Íslands til þátttöku í stuttri ráðstefnu. Í upphafi greinar minntist ég á kosti þess að sigla yfir úthafið. Hvernig væri að koma sem fyrst á rafknúnum skipsferðum víðar enn til Vestmannaeyja, þá jafnt til Kaupmannahafnar og Kanaríeyja. Vilji er allt sem þarf.



Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim