Hjörleifur Guttormsson 22. janúar 2019

Stórefla þarf skipulagsvinnu í þágu umhverfis- og náttúruverndar

Hálf öld er senn liðin frá því að stofnuð voru fyrstu umhverfis- og náttruverndarsamtökin hérlendis. Landvernd sem í upphafi byggði á aðild félagasamtaka reið á vaðið haustið 1969 og setti landgræðslu og gróðurvernd á oddinn. Í kjölfarið kom bylgja náttúruverndarsamtaka með einstaklingsaðild áhugafólks í öllum landshlutum. Fyrst á þeim vettvangi 1970 voru SUNN á Norðurlandi og NAUST eystra uns hringnum var lokað og myndað var Samband íslenskra náttúruverndarfélaga um miðjan áttunda áratuginn. Flest eða öll þessi náttúruverndarfélög gerðust jafnframt aðilar að Landvernd.  Þessi umhverfisbylgja átti sér alþjóðleg upptök sem andsvar við blindum hagvexti eftirstríðsáranna með Bandaríkin í fararbroddi. Bækur eins og Raddir vorsins þagna (ísl. útgáfa Almenna bókafélagið  1965) eftir Rakel Carson og rit Rómarklúbbsins  Endimörk vaxtarins (ísl. útg. Menningarsjóðs 1974) eru dæmi um viðbrögð við fordæmalausri ágengni  gagnvart umhverfi jarðar. Sjálfur reyndi ég að tengja þessa stöðu mála við innlend átakaefni í ritinu Vistkreppa eða náttúruvernd (Mál og menning 1974). 

Vitundarvakningin upp úr 1970

Viðbrögðin við vaxandi mengun og röskun náttúrufars birtust á alþjóðavettvangi með Náttúruverndarári Evrópu 1970 og á vettvangi Sameinuðu þjóðanna þar sem fyrsta stóra umhverfisráðstefnan var haldin í Stokkhólmi 1972. Ný náttúruverndarlöggjöf hérlendis (lög 47/1971) var stórt framfaraskref með Náttúruverndarráð að miklu leyti skipuðu fulltrúum áhugasamtaka um náttúruvernd og þá undir formennsku Eysteins Jónssonar alþingismanns til ársins 1978. Þetta reyndist sóknaráratugur í umhverfismálum með fjölda tilnefninga svæða á náttúruminjaskrá og uppbyggingu tveggja nýrra þjóðgarða, í Skaftafelli og í Jökulsárgljúfrum. Það sem á vantaði var einkum að fallist væri á tillögur um sérstakt umhverfisráðuneyti, sem fyrst kom til sögunnar ári 1990, og að sameinast væri um breytta og nútímalega skipulagslöggjöf. Það endurspeglaði stöðuna á því sviði að fyrst árið 1979 var allt landið gert skipulagsskylt og lengi vel var það ákvæði lítið meira en orð á blaði.

Ófullkomin skipulagslöggjöf dragbítur

Litið til baka var vinna að skipulagsmálum í allt öðrum og lakari farvegi hérlendis á síðasta fjórðungi 20. aldar en gerðist annars staðar á Norðurlöndum. Því tengdust m.a. átök um stjórnsýslueiningar, þar sem sýslu- og kaupstaðaformið var lagt niður 1986 og við tóku yfir 200 sveitarfélög að heita máttu einráð í skipulagsmálum en fæst með forsendur til að sinna þeim sæmilega. Tillaga  mín á Alþingi um millistig í stjórnsýslunni í formi héraða var þá felld, en hefði gerbreytt forsendum á mörgum sviðum, ekki síst um skipulag og stofnanauppbyggingu í stjórnsýslunni. Sést það best af því að nú eru á kreiki hugmyndir um sameiningu sveitarfélaga sem taki til heilla fjórðunga, m.a. á Austurlandi. Augljóst er hverjar takmarkanir slíkt hefði á lýðræðisleg samskipti íbúa stórra landsvæða við kjörna fulltrúa. Loks þegar ný skipulagslöggjöf var samþykkt árið 1997 fengust ekki tekin inn í hana skýr ákvæði um landsskipulag og sat við þann keip í hálfan annan áratug í viðbót. Ári síðar, 1998, tóku við ný lög um sveitarfélög sem fólu m.a. í sér að óbyggðasvæðum var skipt upp á milli þeirra. Jafnframt hófst þjóðlenduferli Óbyggðanefndar til greiningar á eignarrétti sem enn er ekki að fullu lokið. Svæðisskipulag miðhálendisins sem staðfest var 1999 og gilti í hálfan annan áratug innan ákveðinnar markalínu var athyglisverð nýlunda sem gerði m.a. kleift að þoka fram vinnu við stórmál eins og stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs, en nú hefur landsskipulagsstefna leyst það af hólmi.

Skipulagsferli enn alltof fjarlæg almenningi

Þótt löggjöf og vinna að skipulagsmálum hafi verið endurnýjuð og bætt hin síðustu ár, m.a. í kjölfar löggjafar frá árinu 2010, vantar enn mikið á að störf að skipulagsmálum og þær stóru ákvarðanir sem þeim oft tengjast hafi náð þeirri athygli almennings sem æskilegt væri. Hefur þó Skipulagsstofnun gert sitt til að kynna lagaákvæði og réttarstöðu almennings. Þessi lagaákvæði eiga m.a. að stuðla að skynsamlegri nýtingu lands og landgæða, að tryggja verndun landslags, náttúru og menningarverðmæta og koma í veg fyrir umhverfisspjöll og ofnýtingu með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.  Afar ólík staða sveitarfélaga, bæði hvað stærð og íbúafjölda snertir og vöntun á þjálfuðum starfskröftum eiga sinn þátt í þessu og alltof lítil fræðsla til almennings um réttarstöðu sína. Við það bætist að grunnupplýsingar er varða náttúrufar og aðrar forsendur hefur vantað þótt smám saman sé að rætast úr, m.a. með kortum sem sýna mismunandi vistgerðir á landi. Í ljósi þeirra stóru vandamála sem nú steðja að, t.d. vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum, er afar brýnt að almenningur sé meðvitaður og vel upplýstur um áhrif þessa á umhverfið og framtíðarskipulag.

Náttúrustofurnar fái aukið hlutverk

Augljós þörf er á að í grunnskólum og framhaldsskólum verði fræðsla um skipulag og samspil þess og umhverfisþátta aukin og bætt, sem og starfsmenntun þessu tengd á háskólastigi. Skipulagsvaldið er áfram hjá sveitarfélögunum og þau þurfa að hafa aðgang að hæfu starfsfólki og ráðgjöf sem byggist á bestu fáanlegum upplýsingum. Kjörið sýnist mér að gera náttúrustofum landshlutanna kleift að eiga hér aukinn hlut að máli og að ríkið leggi þeim til fjármagn í þessu skyni. Með því vinnst í senn að komið verði upp þekkingarneti víða um land með nærtækri ráðgjöf fyrir sveitarfélög sem búa við ólíkar aðstæður.

Fátt er brýnna en aukin meðvitund fólks hvar sem er á landinu um gildi vandaðra skipulagsákvarðana  og þátttaka almennings í aðdraganda þeirra. Á því sviði hafa samtök áhugafólks um umhverfis- og náttúruvernd verk að vinna. Tíföldun á fjölda einstaklinga í Landvernd síðustu sjö árin ber vott um góðan byr sem nú þarf að nýta.



Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim