Hjörleifur Guttormsson | 23. nóvember 2018 |
Þýskaland – enn ekki gróið um heilt eftir múr og sameiningu. Þýskaland hefur verið mikið í fréttum undanfarið og kemur þar margt til. Óvissa hefur verið um stjórnarsamstarf kristilegra og sósíaldemókrata á kjörtímabili sem nú er hálfnað. Tími Merkel sem kanslara frá árinu 2005 er senn að renna út og hún hefur þegar stigið úr formannsstóli CDU eftir 18 ára setu. Um nýkjörinn eftirmann hennar Annegret Kramp-Karrenbauer (AKK) er deilt innan flokksins og óvissa ríkir um framtíð hennar. Ekki er staðan betri hjá sósíaldemókrötum sem innan skamms velja á milli tveggja para til forystu og hefur hvorugt að því er virðist mikla útgeislun. Báðir hafa flokkarnir tapað miklu fylgi undanfarið, CDU/CSU mælist nú með 27% atkvæða, en SPD aðeins 14% í stað 20,7% í kosningunum 2017. Stóra sveiflan undanfarið er sókn Græningja sem mælast nú með 22% atkvæða, stórt stökk úr 8,9% þá síðast var kosið. Í þeim flokki ríkir eining um forystu eftir eindregið endurkjör Roberts Habecks og Annalena Baerbocks til formennsku um síðustu helgi. Vinstriflokkurinn Die Linke mælist á svipuðum slóðum og fyrr, nú með 10% en fékk 9,2% í þingkosningunum. Í nýlegum fylkiskosningum í Thüringen vann hins vegar frambjóðandi Die Linke og fyrrverandi fylkisstjóri stórsigur með 31% atkvæða. Meiri tíðindum sætti þó 23,4% fylgi við hægriflokkinn AfD (Valkostur fyrir Þýskaland) sem skákaði þannig kristilegum sem fengu aðeins 21,2%. Það er uppgangur AfD undanfarið, einkum í austurfylkjum landsins, sem mestum áhyggjum veldur meðal keppinauta og hjá nágrönnum Þjóðverja. Þrjátíu ár frá falli Berlínarmúrsins Þess hefur að vonum verið minnst síðustu vikur að 9. nóvember sl. voru 30 ár liðin frá því Berlínarmúrinn var úr sögunni sem hindrun í ferðum almennings innan Berlínar og milli Vestur- og Austur-Þýskalands. Þá hafði þessi rammgerða girðing um borgina þvera og umhverfis Vestur-Berlín staðið í 28 ár. Fáir atburðir eftir lok síðari heimsstyrjaldar komu mönnum jafn mikið á óvart, jafnt í austri og vestri, en opnunin varð jafnframt forboði meiri tíðinda með falli Sovétríkjanna tveimur árum síðar. Bygging múrsins 1961 var á sínum tíma skelfilegt neyðarúrræði austur-þýskra stjórnvalda til að stöðva sívaxandi blóðtöku vegna fólkssflótta, ekki síst menntamanna og faglærðra til Vestur-Þýskalands. Andóf austur-þýsks almennings bar ávöxt Nýleg afmælishátíð vegna falls múrsins var að vonum tilfinningarík og hverfðist að mestu um Berlín með Brandenborgarhliðið í forgrunni. Þess var minnst að þessi stórviðburður einn og sér kostaði hvorki mannslíf né limlestingar og mörg myndræn gleðitár féllu. Stór hluti núlifandi man að vonum ekki atburðinn sjálfan og þekkir hann aðeins af afspurn. Því er mikilvægt að forsögunni sé haldið til haga. Bakgrunnur friðsamlegrar opnunar landamæranna í Berlín var hetjulegt og kröftugt andóf fjölda Austur-Þjóðverja í borgum og bæjum mánuðina á undan gegn þrúgandi stefnu stjórnvalda, þar á meðal kröfur um frjálsar kosningar og ferðafrelsi. Starfsemi kirkjunnar var leyfð af stjórnvöldum eystra og því leituðu andófsmenn, karlar og konur, skjóls við kirkjur og í nágrenni þeirra til samstillingar á kröfum sínum. Nikulásarkirkjan í miðri Leipzig-borg varð slíkur staður og þaðan hófst fyrsta fréttnæma kröfugangan mánudaginn 4. sept.1989. Sama gerðist í fleiri borgum eins og Magdeburg, Dresden, Halle og Plauen. Á þjóðhátíðardegi þarlendis 9. október 1989 komu um 70 þúsund manns saman í kröfugöngu í Leipzig, yfir 100 þúsund 16. okt., um 300 þúsund viku síðar og loks allt að 500 þúsund á Alexanderplatz í Berlín 4. nóv. 1989. Það var þetta sem hreyfði við austur-þýskum stjórnvöldum sem lögðu ekki út í að beita lögreglu gegn friðsömum kröfugöngum. Þann 8. nóvember kom miðstjórn valdaflokksins SED saman og þar sagði flokksstjórnin öll af sér. Ný forysta setti saman tilkynningu um frjálslegar ferðaheimildir, sem talsmaður stjórnarinnar Günther Schabowski kynnti í útvarpi og sjónvarpi daginn eftir. Spurður hvenær, kom afdrifaríkt svar hans: „Sofort - unverzüglich“ – nú þegar! Ójöfnuðurinn milli austurs og vesturs Sameining þýsku ríkjanna árið 1990 var ekki ferskur gjörningur í þeim skilningi að byggt væri frá grunni á nýjum undirstöðum, heldur fólst í henni yfirtaka vesturhlutans á austurhlutanum innan óbreyttra landamæra og með Berlín sem nýjan höfuðstað. Þannig hélt Vestur-Þýskaland stöðu sinni í öllum alþjóðastofnunum, jafnt Evrópubandalaginu, í NATO og hjá Sameinuðu þjóðunum. (Wikipedia. German reunification) Vesturþýska markið tók yfir sem gjaldmiðill og sú ríkisstjórn hélst óbreytt sem fyrir var í Bonn. Aðdragandinn frá falli múrsins var innan við ár og allt gekk þetta yfir sem óvænt holskefla, ekki síst gagnvart almenningi í austurhlutanum sem stóð frammi fyrir gjörbreyttum aðstæðum. Yfirráð í atvinnulífi færðust í hendur fjarlægra eigenda og skipt var út í opinberum stöðum, m.a. í skólum, þar sem aðfluttir tóku við sem stjórnendur. Nýjar áskoranir fyrir Þýskaland Eins og víða blása nú sviptivindar um Þýskaland, jafnt stjórnmál og efnahagslíf. Vegna miðlægrar stöðu landsins í álfunni og innan Evrópusambandsins skiptir miklu hvernig til tekst um lausnir og framtíðarþróun. Sá fortíðarvandi sem hér hefur verið vikið að með misvægi innanlands leggst nú saman við gífurlegar áskoranir í atvinnulífi vegna loftslagsbreytinga. Þýski bílaiðnaðurinn stendur frammi fyrir kröfum um nýsköpun og umbyltingu og í landbúnaði og skógum landsins hrannast upp vandamál tengd mengun og ósjálfbærum búskap um langa hríð. Hagþróun á hefðbundinn mælikvarða hefur talist jákvæð síðasta áratug, en einnig á því sviði eru blikur á lofti. – Tengsl Íslands og Þýskalands standa á gömlum grunni, jafnt um menningu og viðskipti. Því hljótum við að vona að þessum volduga granna takist að leysa úr fortíðarvanda sínum sem og nýjum áskorunum. Hjörleifur Guttormsson |