Hjörleifur Guttormsson | 25. júlí 2019 |
Ríkisstjórn og meirihluti þingmanna á háskalegum villigötum Veðrinu hefur verið misskipt hér sem annars staðar á þessum sumarmánuðum. Hitamet falla nú eitt af öðru báðum megin Atlantshafsins og norður undir heimskautinu. Við erum þannig stöðugt minnt á þá staðreynd að mannkynið er á fullri ferð með að breyta hnattrænu umhverfi okkar og annarra lífvera með mengun lofthjúpsins. Viðbrögð við þeirri voveiflegu þróun er nú seint og um síðir orðið umræðuefni manna á meðal. Á stjórnmálasviðinu hægist venjulega um yfir hásumarið, en út af því hefur líka brugðið, bæði hér heima og í nágrannalöndum. Forystumál Evrópusambandsins og átök í Bretlandi sem er á útleið úr ESB hafa verið í brennipunkti. Hér á heimaslóð er upp komin logandi umræða um afstöðu til orkupakkanna frá Brussel, ekki milli stjórnar og stjórnarandstöðu, heldur í flokkunum sem standa að ríkisstjórninni, þá ekki síst innan Sjálfsstæðisflokksins. Betra er seint en aldrei því að enn á ríkisstjórn og Alþingi þann kost að sjá að sér í þessu afdrifaríka máli. Um EES og orkupakkann Það er skýlaus réttur Íslands samkvæmt 103. grein EES-samningsins að hafna upptöku fyrirliggjandi gerða um orkupakka 3. Komi í framhaldi af því til svonefndrar „sáttagerðar“ á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar skv. 102 grein samningsins getur Ísland krafist varanlegrar undanþágu frá öllu því sem varðar orkumál, sem ekki voru hluti af EES-samningnum í upphafi. Jafnframt ætti Alþingi að styrkja og festa í sessi lagaákvæði um orkulindir innan íslensku efnahagslögsögunnar sem þjóðareign. – Með staðfestingu Alþingis á 3. orkupakkanum og meðfylgjandi frumvarpi um breytingu á raforkulögum og lögum um Orkustofnun (mál 782) væri verið að breyta henni í yfirþjóðlegt batterí undir ACER sem er yfirþjóðleg stofnun Evrópusambandsins. ACER hefur heimildir til að taka bindandi ákvarðanir á ýmsum sviðum. Með samþykkt þessa máls væri því verið að framselja þýðingarmiklar ákvarðanir í orkumálum til ESB. Ekki verður séð að slík lagasetning samrýmist gildandi ákvæðum íslensku stjórnarskrárinnar. Orkupakki þvert á almannahag og náttúruvernd Endurnýjanlegar orkulindir hérlendis eins og vatnsaflið sem og jarðvarmi eru undirstaða fyrir lífsafkomu almennings og starfsemi innlendra fyrirtækja. Því eiga þær að haldast í þjóðareign engu síður en sjávarauðlindirnar og hafsbotninn innan íslenskrar auðlindalögsögu. Nýtingu þeirra og verndun, sem og verðlagningu framleiddrar orku, á nú og framvegis að miða að því að treysta atvinnulíf og jafna lífskjör um allt land. Með innleiðingu orkupakkans veikist sú stefna til mikilla muna og getur breyst í andhverfu sína ef illa tekst til um framhaldið. Tenging við orkumarkað ESB myndi hafa í för með sér stórhækkun á raforkuverði til fyrirtækja og heimila, þar með talið á verði til húshitunar, bæði beinnar rafhitunar sem og hitaveitna, en kostnaður við þær byggir að hluta til á raforku. – Auk heimila og smáfyrirtækja sem greiða myndu kostnaðinn af innleiðingu orkupakka 3 og meðfylgjandi tengingu við ESB-kerfið, yrði íslensk náttúra, ár, vötn og jarðhitasvæði þolendur af stóraukinni ásókn í virkjanir með útflutning á raforku fyrir augum. Vinstri græn og Framsókn slegin blindu Furðu sætir að VG, flokkur sem kennir sig við græna stefnu, skuli hafa gerst þátttakandi í þessum leiðangri með orkupakka 3, í stað þess að beita sér fyrir að styrkja almannaeign á orkuauðlindinni og stilla til um hóflega nýtingu hennar. Fyrir dreifbýlið er hér sérstaklega mikið í húfi og því óskiljanlegt að þeir sem telja sig talsmenn þeirra sem þar þrauka skuli gerast ábekingar á orkupakka 3, þar með talið þinglið Framsóknarflokksins. – Í stað þess að breyta Orkustofnun í verkfæri í höndum ESB ætti að tryggja að stofnunin lúti betur almannahagsmunum en nú gerist, þar á meðal um verndun og hlífð gagnvart náttúru landsins. Annað hefur því miður verið uppi á teningnum eins og gagnrýnislaus rannsóknaleyfi til virkjanaundirbúnings bera ljósan vott um. Löngu er tímabært að færa málefni Orkustofnunar undir Umhverfis- og auðlindaráðuneytið til að tryggja eðlilegt samræmi og mat á auðlindavernd og nýtingu. Þjóðaratkvæði um orkupakka 3 Áður en til endanlegrar afgreiðslu kemur af hálfu Alþingis í stórmáli sem þessu ætti að teljast sjálfsagt að gefa almenningi kost á að segja sitt álit í þjóðaratkvæðagreiðslu. Verði málið knúið í gegn með þeim hætti sem nú stefnir í, mun það óhjákvæmilega styrkja þær raddir sem nú þegar gera kröfu um löngu tímabæra endurskoðun á EES-samningnum, þar á meðal varðandi kaup á jarðnæði hérlendis.Hjörleifur Guttormsson |