Undirritaður hefur kynnt sér framkomna þingsályktunartillögu (777. mál) ásamt með fylgifrumvarpi (782. mál) og kemur hér með á framfæri eftirfarandi umsögn þar að lútandi.
- Alþingi hafni orkupakka 3. Ég tel einboðið að Alþingi eigi að hafna þeim lagagerðum Evrópusambandsins sem innleiða á með tillögunni um svonefndan þriðja orkupakka. Fyrir því eru margar og samþættar ástæður sem fjallað er um hér á eftir. Til vara geri ég kröfu um að áður en til afgreiðslu málsins komi af hálfu þingsins fari fram um það þjóðaratkvæðagreiðsla.
- Varanleg undanþága á orkusviði. Það er skýlaus réttur Íslands samkvæmt 103. gr. EES-samningnsins að hafna upptöku þeirra gerða sem hér um ræðir. Komi í framhaldi af því til svonefndrar „sáttagerðar“ á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar skv. 102. gr. samningsins, á Ísland að krefjast varanlegrar undanþágu frá öllu er varðar orkumál, enda voru þau ekki hluti af samningnum á undirbúningsstigi.
- Augljós brot á stjórnarskrá. Heimili Alþingi ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd upptöku þriðja orkupakkans í EES-samninginn væri það skýlaust brot á stjórnarskrá lýðveldis okkar og varða þá engu meintir fyrirvarar um að „engin grunnvirki eru nú fyrir hendi á Íslandi sem gera mögulegt að flytja raforku á milli Íslands og orkumarkaðar ESB“, sbr. greinargerð utanríkisráðherra. Málatilbúnaður ráðherra um þetta efni í fréttatilkynningu 22. mars. sl. var dæmalaust hneyksli. Þar sagði: „Um er að ræða orkupakka á íslenskum forsendum. Hann er tekinn upp í íslenskan rétt á þeirri forsendu að Ísland er ekki tengt við raforkumarkað ESB.“ Þá höfðu ráðherrarnir þegar undir höndum álitsgerð lögfræðinganna Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst og Stefáns Más Stefánssonar, dags. 19. mars 2019, þar sem margítrekað er varað við stjórnarskrárbroti í tengslum við fyrirhugaða staðfestingu orkupakka 3. Þegar lesin er álitsgerð lögmannanna og borin saman við staðhæfingar í greinargerð með máli 777 stendur ekki steinn yfir steini. Svipað á við um haldleysi „sameiginlegrar fréttatilkynningar utanríkisráðherra og orkumálastjóra ESB.“
- Samstarfsnefnd eftirlitsaðila á orkumarkaði – ACER. Með staðfestingu Alþingis á 3. orkupakkanum, þ.e. með samþykkt á máli 777, sem og með fyrirliggjandi frumvarpi iðnaðarráðherra um breytingu á raforkulögum og lögum um Orkustofnun (EES-reglur, viðurlagaákvæði), mál 782, er grímulaust verið að breyta Orkustofnun í yfirþjóðlegt batterí undir ACER sem er stofnun Evrópusambandsins. Æskilegt væri að þingheimur gengi undir próf um þekkingu á þeim ákvæðum sem þarna er verið að innleiða, margslungin og flókin sem þau eru og óskýr í ýmsum greinum. Gert er ráð fyrir að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) fjalli um valdheimildir sem ACER eru veittar . Áðurnefndir lögmenn (Friðrik og Stefán) segja hins vegar: „Eftir sem áður er gert ráð fyrir því að ACER hafi mikil áhrif á efni slíkra ákvarðana ESA og skulu ákvarðanir ESA m.a. teknar „á grundvelli draga“ sem ACER semur fyrir ESA.“! ACER hefur þannig heimildir til að taka lagalega bindandi ákvarðanir á ákveðnum sviðum og blasir hér við enn eitt dæmið um brot á stjórnarskrá okkar, falið í reglugerðafrumskógi orkupakka 3. Í greinargerð 777. máls stendur: „Tilskipun 2009/72/EB gerir aftur á móti kröfur um að eftirlitsaðilinn [Orkustofnun] sé ekki einungis sjálfstæður gagnvart raforkufyrirtækjunum heldur einnig gagnvart stjórnvöldum ...“ Hvergi er valdsviði ACER um forgang varðandi málsmeðferð snúið við í þágu ESA . Þannig blasir það við að með innleiðslu á orkupakka 3 hérlendis er verið að framselja þýðingarmiklar ákvarðanir í orkumálum til ESB og yfirþjóðlegra stofnana á þess vegum. Athygli vekur og að í greinargerð með máli 782 segir um samráð: „Við undirbúning frumvarpsins var haft samráð við Orkustofnun.“ Aðrir komu ekki að þeim undirbúningi! Allt þetta mál varðar ekki síst náttúru- og umhverfisvernd, eins og nánar verður vikið að hér á eftir, en um aðkomu umhverfisyfirvalda er hvergi fjallað í framlögðum skjölum..
- Feluleikurinn með sæstrenginn. Til að ná samstöðu um þennan fráleita málatilbúnað var sett inn í greinargerð svohljóðandi ákvæði: „Verði þessi tillaga samþykkt verður reglugerð (EB) nr. 713/2009 innleidd í íslenskan rétt með hefðbundnum hætti en með lagalegum fyrirvara um að grunnvirki sem gera mögulegt að flytja raforku milli Íslands og orkumarkaðar ESB verði ekki reist eða áætluð nema að undangenginni endurskoðun á lagagrundvelli reglugerðarinnar og komi ákvæði hennar sem varða tengingar yfir landamæri ekki til framkvæmda fyrr en að þeirri endurskoðun lokinni. Þá verði jafnframt tekið enn frekar og sérstaklega til skoðunar á vettvangi Alþingis hvort innleiðing hennar við þær aðstæður samræmist íslenskri stjórnarskrá.“ Hér er á ferðinni sérstæður kisuþvottur, sem gæti verið fróðlegt viðfangsefni sálfræðinga að rýna í, en á hér rætur í stjórnmálarefskák, sem m.a. birtist í afsökunarbeiðnum einstakra þingmanna Sjálfstæðisflokksins í dagblöðum á síðustu vikum (Sjá m.a. grein Páls Magússonar, Mbl. 20. apríl 2019) sem segjast hafa séð sig um hönd og lýsa nú stuðningi við málið. – Fyrir liggur að unnið hefur verið um árabil að undirbúningi að sæstrengstenginu Íslands við orkumarkað ESB. Talsmenn Landsvirkjunar o.fl. hafa undanfarið talið sterkar líkur vera á slíkri tengingu innan tíðar og vitað er að einkafyrirtæki eins og HS Orka, sem nú er í meirihlutaeign útlendinga, hefur unnið að málinu með öðrum erlendum aðilum. Það gerist samtímis því sem orkufyrirtæki hérlendis eru að kemba íslenskar ár með undirbúningi að fjölda virkjana, fyrst í stað undir 10 MW að afli til að komast hjá ákvæðum Rammaáætlunar. Orkustofnun hefur afgreitt slík leyfi á færibandi. Ekki er vafi á því að áhugi verður á því innan Evrópusambandsins að ná í sem mest af vistvænni orku frá Íslandi og því aðeins spurning um örfá ár hvenær kastað verður út önglum til hérlendra fjárfesta og stjórnmálamanna. Umræðan um væntanlega tengingu raforkukerfisins við Evrópumarkað ýtir jafnframt undir einkavæðingu á orkusviðinu og leiðir til spákaupmennsku, sem nú birtist m.a. í ásókn einkafyrirtækja í virkjanir víða um land.
- Íslenskir grundvallarhagsmunir sniðgengnir. Endurnýjanlegar orkulindir, vatnsafl og jarðvarmi, eru undirstaða fyrir lífsafkomu almennings og starfsemi innlendra fyrirtækja. Orkulindirnar ættu því að haldast í þjóðareign engu síður en sjávarauðlindirnar og hafsbotninn. Nýting þeirra og verndun, sem og verðlagning framleiddrar orku, á að miða að því að treysta atvinnulíf og jafna lífskjör um allt land. – Sú stefna veikist til mikilla muna með innleiðingu orkupakka 3 og getur breyst í andhverfu sína ef illa tekst til um framhaldið. Ríki Evrópusambandsins búa við allt aðrar og ólíkar aðstæður á orkusviðinu en við Íslendingar. Hér eru enn um 90% af virkjunum í opinberri eigu og stöðugleiki ríkjandi í framleiðslu. Tenging við orkumarkað ESB myndi hafa í för með sér stórhækkun á raforkuverði til fyrirtækja og heimila, þar með talið á verði til húshitunar, bæði beinnar rafhitunar og hitaveitna, en kostnaður við þær byggir að hluta til á raforku.
- Náttúra landsins og almenningur þolendurnir. Augljóst er að auk heimila og smáfyrirtækja sem greiða kostnaðinn af innleiðingu orkupakka 3 og meðfylgjandi tengingu við ESB-kerfið verður íslensk náttúra, ár, vötn og jarðhitasvæði, þolendur af aukinni ásókn í virkjanir með væntanlegan útflutning raforku fyrir augum. Þessa gætir nú þegar í neikvæðum viðhorfum landeigenda og sumra sveitarfélaga til verndunar dýrmætra náttúrusvæða, þar á meðal hugmynda um miðhálendið allt sem þjóðgarð. Furðu sætir að flokkur sem kennir sig við græna stefnu skuli gerast þátttakandi í slíkum leiðangri í stað þess að beita sér fyrir að styrkja almannaeign á orkuauðlindinni og stilla til um hóflega nýtingu hennar. Fyrir dreifbýlið er hér líka sérstaklega mikið í húfi og því óskiljanlegt að þeir sem telja sig talsmenn þeirra sem þar þrauka skuli gerast ábekingar á orkupakka 3.
- Orkustofnun undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Andstætt því sem er að gerast með orkupakka 3, þar sem breyta á Orkustofnun í yfirþjóðlegt skrímsli, ætti að tryggja að stofnunin lúti almannahagsmunum, þar á meðal um verndun og hlífð gagnvart náttúru landsins. Annað hefur verið uppi á teningnum um langa hríð eins og gagnrýnislaus rannsóknaleyfi stofnunarinnar til virkjanaundirbúnings bera ljósa vott um. Til að tryggja nauðsynlegt samræmi og mat á auðlindavernd og nýtingu er löngu tímabært að færa málefni Orkustofnunar undir Umhverfis- og auðlindaráðuneytið og það sama ætti sem fyrst að gerast með Hafrannsóknastofnun, sem nú heyrir undir ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðar.
- Treysta þarf almannaeign á orkuauðlindunum. Í stað þess að ýta undir séreignarsjónarmið og brask með einn helsta grundvöll mannlífs hérlendis ætti Alþingi að beita sér fyrir öðrum og skýrari ákvæðum um almannaeign á orku fallvatna og jarðhita en nú er kveðið á um. Um fátt flutti sá er þetta ritar fleiri þingmál á síðasta fimmtungi 20. aldar en einmitt þessa málaflokka. Þar sagði m.a. um fallvötnin í frumvarpi á 123. þingi 1998: „Orka fallvatna landsins er eign íslenska ríkisins sem eitt hefur heimild til nýtingar hennar.“ (181. mál). Og um jarðhitaréttindi á 122. þingi sagði: „Íslenska ríkið á allan rétt til jarðhita sem liggur dýpra en 100 m undir yfirborði landareigna ... Íslenska ríkið á allan rétt til jarðhita sem liggur utan landareigna.“ (56. mál). Því miður bar Alþingi þá ekki gæfu til að lögfesta slík viðhorf, en hvað skyldi meirihluti þjóðarinnar hugsa nú um stundir?
- Þörf er á þjóðaratkvæði um orkupakka 3. Í undirstöðumáli sem þessu er eðlilegt að leitað sé viðhorfa almennings áður en til endanlegrar afgreiðslu kemur af hálfu Alþingis. Ótrúlegt er að sjá þá fylkingu þingmanna frá stjórn og stjórnarandstöðu sem virðist reiðubúin að kasta orkuauðlindunum í fang Evrópusambandsins. Þeim mun lofsverðari er sá hópur sem stendur í fæturna ef marka má umræður á liðnum einmánuði, að ekki sé talað um vökulan hóp fólks óháðan stjórnmálatengslum undir merkjum Orkunnar okkar. Um fyrri fylkinguna koma mér helst í hug orð Bólu-Hjálmars þegar hann kveður:
Aumt er að sjá í einni lest - áhaldsgögnin slitin flest ...
Í sumarbyrjun 2019 Hjörleifur Guttormsson
Hjörleifur Guttormsson |