Umsögn um Geitdalsárvirkjun

Til bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs                             31. mars 2019
c/o Steinar Ingi Þorsteinsson aðstoðarmaður skipulags- og byggingarfulltrúa

Varðar breytingu á aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs í þágu virkjunar í Geitdalsá í Skriðdal.

Undirritaður hefur kynnt sér auglýsingu og verkefnislýsingu vegna ráðgerðrar 9,9 MW virkjunar á vegum Arctic Hydro í Geitdalsá. Svæðið sem um ræðir tel ég mig þekkja vel af gönguferðum um það á liðnum mörgum áratugum svo og um nágrenni þess á Hraunum. Hér er um að ræða náttúrufarslega afar verðmætt svæði sem er ósnortið víðerni án teljandi mannvirkjagerðar en nýtt til sauðfjárbeitar um aldir. Sem slíkt er það hluti af Hraunum, fágætri víðáttu milli Suðurfjarða og Héraðs með tengsl suður að mörkum við friðland á Lónsöræfum. Heitið Hraun sem samheiti fyrir þessi víðfeðmu öræfi mun vera dregið af nafninu Sviðinhornahraun, sbr. einnig Njáls sögu um för Flosa um Öxarhraun og ofan Sviðinhornadal, þ.e. Hamarsdal. [Sjá Ísl. fornrit XII, s. 353, 1954). Að þessu svæði hefur þegar verið sótt Fljótsdalshreppsmegin með vatnsveitingum til Kárahnjúkavirkjunar frá Keldá/Keldár- og Ufsarlóni. Eftir stendur ósnortin vestan vatnaskila Fellsá með hliðarám og fögrum gljúfrum og fossum, m.a. Strútsfossi norðvestur af Hornbrynju. [Jónas Hallgrímsson segir í þáttum sínum til Íslandslýsingar: „Fellsá hefir upptök sín á Suðurhornahraunsöræfum ... Ritverk Jónasar III, s. 169, útg. 1989]. Austan Hornbrynju taka síðan við víðfeðm upptök Geitdalsár, m.a. í Leirudal norðan í Brattháls,i en syðst á honum rís Bótarhnjúkur (934 m), sá sami og fyrrum mun hafa heitið  Þingmannanúpur í máli Héraðsmanna [Sjá ritið Múlasýslur, lýsingu Þingmúlasóknar 1843, s. 322. Útg. Reykjavík 2000]. Til suðausturs taka við drög Fossár í Fossárdal og til suðurs  drög Hamarsár með Hamarsbótum [örnefnið Bótarhnjúkur líklega sótt í Hamarsbætur og hefur orðið ráðandi]. Austar hefur Ódáðavötnum á Öxarhrauni verið raskað með vatnsmiðlun í þágu Grímsárvirkjunar.

Hugmyndin um Geitdalsárvirkjun gengur þvert á það sem ætti að vera viðfangsefni Fljótsdalshéraðs, Fljótsdalshrepps og Djúpavogshrepps í heildstæðri skipulagsvinnu, þ.e. að vernda það sem óskert er af Hraunasvæðinu sem friðland að náttúruverndarlögum, einstætt sýnishorn af hálendi Austurlands til nota fyrir alda og óborna. Geitdalur með drög sín norðan undir Bratthálsi er hluti af þessari heild. Virkjun Geitdalsár með öllu því raski sem henni myndi fylgja gengur þvert gegn skynsamlegri landnýtingu á þessum hluta Fljótsdalshéraðs, áin og þverár hennar gullfalleg og fjölbreytt með vel grónu landi beggja vegna utan til. Friðlandinu ætti að tengjast Múlinn (Þingmúli) með Múlakolli, sem hugmyndir eru þegar komnar fram um að vernda, og að norðan Hraungarður upp á Geitdalsbungu (Hraungarðsbungu).

Fyrir utan sérstætt landslag og auðn er á Hraunum að finna vötn af ýmsum gerðum með sérstæðu lífi sem og gróðurlendi sem sýnishorn af fjallaflóru. Með minnkandi fjárbeit og hlýnandi loftslagi verða breytingar á náttúrufari þessa svæðis fróðleiksuppspretta.

Ég vil ekki trúa því að bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs og sérfróðir sem vinna í hennar þágu fari að greiða götu virkjana á þessu svæði, þegar um er að ræða aðra og langtum mikilvægari kosti til framtíðarnota.

Til frekari upplýsinga um Hraunin vísast m.a. til árbóka Ferðafélags Íslands „Austfirðir frá Álftafirði til Fáskrúðsfjarðar“ (2002) og „Upphérað og öræfin suður af“.

Með vinsemd og virðingu
Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim