Hjörleifur Guttormsson | 2. mars 2020 |
Loftslagsmálin í aðdraganda COP-26 í Glasgow Aðeins átta mánuðir eru þar til næsti ársfundur loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna, COP-26, hefst í Glasgow í Skotlandi þann 9. nóvember. Eftir vonbrigði með COP-25 í Madrid þar sem ekki tókst að ná saman um lokasamþykkt á nú að gera úrslitatilraun til að fylkja ríkjum heims um ákvæði Parísarsamkomulagsins frá 2015 til að ná tökum á loftslagsógninni sem við blasir að óbreyttu. Eins og fundarstaðurinn ber með sér eru það bresk stjórnvöld sem bera ábyrgð á undirbúningi og framkvæmd fundarins. Nú nýlega var Alok Shama tilnefndur í þetta vandasama verkefni. Hann er 53ja ára, sonur indverskra innflytjenda, þingmaður frá árinu 2010 og fyrrum ráðherra á þróunarsviði. Áður en hann tók við starfinu höfðu þekkt nöfn eins og David Cameron og William Hague beðist undan ósk núverandi forsætisráðherra um að axla þessa ábyrgð. Verkefnið er að fá sem flestar þjóðir heims til að setja sér róttæk markmið um samdrátt í losun gróðurhúslofttegunda á næstu 10 árum til að stöðva hlýnun andrúmsloftsins við 1,5 til 2°C. Sérstaklega beinast sjónir að ríkjum sem hingað til hafa hafnað þátttöku eins og Bandaríkjunum, Brasilíu, Ástralíu og Sádi Arabíu. Svo vill til að úrslit í forsetakosningunum vestra 3. nóvember nk. munu liggja fyrir við upphaf ráðstefnunnar í Glasgow. Fjöldi loftslagstengdra viðburða Á vegum Sameinuðu þjóðanna eru framundan ráðstefnur og viðburðir um ýmsa þætti loftslagsmálanna. Í maí nk. verður ráðstefna um sjálfbæra flutninga og ferðamáta, en sá þáttur er nú sagður losa mest af gróðurhúsalofti á heimsvísu. Í júní verður ráðstefna um úthöfin og sjávarauðlindir, áhrif loftslagsbreytinga á þau svo og mengun, ekki síst af plasti. Í haust verður síðan haldinn 15. fundur alþjóðasamningsins um líffræðilega fjölbreytni, en hlýnun jarðar er sívaxandi ógn við náttúruleg vistkerfi, plöntu- og dýralíf. Gífurlegur engisprettufaraldur í Pakistan og austanverðri Afríku er m.a. rakinn til loftslagsbreytinga, svo ekki sé talað um ógnina af sívaxandi skógareldum víða um heim. Guterres aðalritari SÞ vekur athygli á að þau 70 ríki sem lýst hafa því yfir að þau stefni að CO2-hlutleysi um miðja öldina séu völd að innan við fjórðungi losunar á heimsvísu, á meðan meirihluti ríkja heims byggi enn áætlanir sínar í orkumálum á kolum og olíu, sumpart með niðurgreiðslum. Þess utan er skortur á ferskvatni eitt stærsta umhverfisvandamálið í sunnan- og austanverðri Asíu sem stafar m.a. af hlýnun og bráðnun jökla í Himalayafjöllum. Uppfæra ber markmið hvers lands Í samþykktum Parísarfundarins 2015 var hverju ríki gert að setja hið fyrsta fram markmið um niðurskurð CO2-losunar til 2030 og endurskoða þau skuldbindandi til lækkunar fimmta hvert ár. Að þessum tímamörkum var komið 9. febrúar sl., en aðeins 3 ríki stóðu við þau, þ.e. Noregur, Surinam og Marshalleyjar. Von er hins vegar á viðbrögðum annarra landa á næstunni, þar á meðal Íslands, sem á fyrra stigi gerði ráð fyrir amk. 29% niðurskurði í losun árið 2030 reiknað frá árinu 2005. Útspil Norðmanna þykir tíðindum sæta því að í stað 40% lögfests niðurskurðar setti norska ríkisstjórnin nú mörkin um minni losun árið 2030 við allt að 55% lækkun miðað við árið 1990. Meðal þess sem á að auðvelda að þessu marki verði náð er minni kjötneysla í Noregi. Allt að 55% lækkun eru raunar sömu mörk og Ursula von der Leyen, formaður framkvæmdastjórnar ESB vill að bandalagið setji sér, en allsendis er óvíst að sú verði niðurstaðan þar á bæ. Líklega hefur það ýtt undir norsku stjórnina að sjá metnaðarfull markmið danskra stjórnvalda sem einsettu sér sl. vor samkvæmt stjórnarsáttmála nýrrar vinstristjórnar að ná fram allt að 70% minni losun árið 2030. Ræður kapítalisminn við áskorunina? Hörð andstaða Trumps Bandaríkjaforseta sem og forseta Brasilíu og fleiri hægrimanna gegn markmiðum Parísarsáttmálans geta sett alvarlegt strik í viðleitnina gegn loftslagsháskanum. Á það mun reyna síðar á árinu. Hins vegar er slík varðstaða um skammsýn gróðasjónarmið á kostnað umhverfis ekki allsstaðar að finna til hægri, eins og Noregur undir forystu Ernu Solberg formanns Hægriflokksins er skýrt dæmi um. Sama má segja um viðleitni Ursula van der Leyen sem fyrir skemmstu var ráðherra í flokki Merkel kanslara. Einnig Peter Altmeier efnahagsmálaráðherra Þýskalands lét nýlega undan kröfu Græningja og fleiri um að uppfæra losunarmörk CO2 þarlendis. Hann veðjar nú á „blátt“ vetni til að knýja stáliðjuver og flutningatæki í stað kola, en tæknin er umdeild. Einnig hér á landi virðist Sjálfstæðisflokkurinn átta sig á hvað í húfi er í loftslagsmálum. á meðan Miðflokkurinn leggst á andstæða sveif. Hins vegar á eftir að koma í ljós á heimsvísu hvert pólitískir straumar stefna, ef sterk markaðsöfl bregðast öndverð við skertum hagnaði og vísitölur kauphallanna taka að falla. Launamenn og millistéttir víða um heim mega einnig búast við efnalegri ágjöf, enda núverandi ósjálfbært neyslumynstur dauðadæmt. Aðvörunarorð þetta varðandi koma úr mörgum áttum, þó einkum úr röðum græningja, vinstrimanna og frá ungu fólki. „Ég bið ykkur um að vakna og opna á nauðsynlegar breytingar. Að gera það besta er hins vegar ekki lengur nógu gott. Við öll verðum að gera það sem virðist ómögulegt.“ Hjörleifur Guttormsson |