Hjörleifur Guttormsson 4. ágúst 2020

Eldgosahætta, jarðskjálftar og skipuleg viðbrögð gegn náttúruvá

Ísland er um margt einstakt í náttúrufarslegu tilliti. Eyjan okkar er stærsta land ofansjávar á hryggjakerfi úthafanna, baðað af hlýjum hafstraumum þrátt fyrir norðlæga legu. Landið hefur orðið til fyrir eldvirkni og því er viðhaldið af eldgosum og gliðnun sem vegur upp á móti því sem hafið nagar af ströndum þess. Þjóðin sem hér hefur þraukað í nær 1150 ár hefur lagað sig að þessum veruleika náttúruaflanna, lengi ómeðvitað en á síðustu mannsöldrum með vaxandi þekkingu á þeim kröftum sem skapa henni örlög. Jarðskjálftar og eldgos hafa gengið sem rauður þráður gegnum Íslandssöguna og borið fréttir víða af þessu sérkennilega eylandi. Öðrum þræði erum við stolt af þessari sérstöðu, en hefur þó enn ekki lærst sem skyldi að búa við hana af forsjálni og taka tillit til hennar í skipulagi.

Segir fátt af jarðsögulegum stórviðburðum

Á öldum áður varð þjóðin að taka því sem að höndum bar vegna náttúruhamfara á borð við landskjálfta og eldgos og afleiðingarnar voru margþættar og óumflýjanlegar. Um það vitna m.a. eyðing Héraðs milli sanda á 14. öld, þar sem eftir stóð Öræfasveit. Síðar komu Skaftáreldar seint á 18. öld sem snertu landsmenn alla vegna móðuharðindanna í kjölfarið. Þeir atburðir eru ekki fjarlægari en svo að móðir mín skaftfellsk heyrði af þeim frásögur nær milliliðalaust frá sínum formæðrum. Meiri þoka hvílir yfir öðrum stórgosum, sem hulunni hefur þó að nokkru verið svipt af með rannsóknum jarðfræðinga undanfarið. Þar ber hæst Eldgjárgosið mikla á 10. öld, sem nú er talið stærsta eldgos Íslandssögunnar og rakið til ársins 939. Það er fyrst með ítarlegum rannsóknum Guðrúnar Larsen sem hulunni hefur verið svipt af þessum stórviðburði (Náttúrufræðingurinn 1 -2, 2018) sem þó er getið í Landnámu (s. 331/1968), þar sem segir um Álftaver, að það var fjölbyggt „áðr jarðeldur rann þar ofan. Þá flæðu allir vestur til Höfðabrekku ...“. Gossprungan um 75 km löng er talin hafa náð sem næst jökla á milli frá Kötluöskju norður undir Síðujökul. Annar stórviðburður sem Íslandssagan er fáorð um er Veiðivatnagosið 1477, en þeim mun fyrirferðarmeira er það í jarðlögum um landið norðaustanvert.  

Heppnin með okkur í seinni tíð

Sá viðburður sem kom eldgosum rækilega inn í vitund elstu núlifandi Íslendinga var Heklugosið 1947. Ógleymanleg er mér bein lýsing Sigurðar Þórarinssonar úr flugvél í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins 27. mars á fyrsta degi gossins eftir um aldarlangt hlé hjá þessari drottningu íslenskra eldfjalla. Þá blés vindur af norðaustri sem færði risavaxinn gosstrókinn suður til hafs líkt og gerðist aftur í gosinu í Eyjafjallajökli 2010. Þannig má segja að aðstæður í tíð núlifandi kynslóða hafi oft verið hliðhollar þegar náttúruhamfarir eins og eldgos voru annars vegar. Með vissum hætti má segja þetta um Vestmannaeyjagosið 1973, þótt þar yrði stórtjón á mannvirkjum, einnig um Kröfluelda nokkru síðar, Gjálpargosið 1996 með eftirfarandi Skeiðarárhlaupi  og eldgosið mikla í Holuhrauni 2014 með upptök í Bárðarbungu. Ég minnist ekki mannfalls af þessum miklu náttúruhamförum, eldgosum og jarðskjálftum, utan fráfalls Steinþórs Sigurðssonar náttúrufræðings í Heklugosinu 1947, en hann vann þar að kvikmyndatöku og varð fyrir hraunrennsli. Stóraukin þekking á jarðeldum ásamt góðri vöktun hefur átt þátt í þessu sem og aðvaranir og bætt aðgengi fyrir almenning. Við þurfum þó að vera meðvituð um að vel heppnuð sambúð við þessi náttúruöfl er ekki sjálfgefin og miklu skiptir að taka tillit til náttúrufarslegrar áhættu við skipulag og aðgengi ferðamanna.

Eldgosatíðni gæti farið vaxandi

Jarðsögulegar heimildir frá ísaldarlokum benda til að búast megi við tíðari eldgosum í kjölfar þess að jöklar eru nú að rýrna hér sem annars staðar og landris á sér stað af þeim sökum. Þetta varðar megineldstöðvar eins og Kötlu og Öræfajökul sem nú eru undir jökulfargi sem og Bárðarbungu og Grímsvötn. Í sömu átt bendir landris á Reykjanesskaga og að innan ekki langs tíma megi þar búast við eldsumbrotum eftir goshlé sem varað hefur frá árinu 1240. Atburðir síðustu mánaða í grennd við Grindavík og Svartsengi benda í þessa átt og sömuleiðis er talið að hlé á gosvirkni á skaganum öllum frá Brennisteinsfjöllum og vestur úr sé orðið óvenju langt í sögulegu samhengi.    

Skammsýnar skipulagsákvarðanir

Góð þekking á jarðsögu, jarðskjálftum og eldgosum, er forsenda góðs skipulags til lengri tíma þar sem taka þarf tillit til líklegrar þróunar og áhættu við hönnun og staðsetningu mannvirkja. Taka þarf mið af jarðskjálftahættu, m.a. Suðurlandsskjálftum sem lögðu Skálholtsstað ítrekað í rúst á liðnum öldum og ollu miklu tjóni á Selfossi og víðar um síðustu aldamót. Nýleg bygging kísilmálmverksmiðju á Tjörnesbrotabeltinu við Húsavík hefur eðlilega verið gagnrýnd af jarðfræðingum.  Álverið í Straumsvík stendur á Kapelluhrauni sem talið er hafa runnið frá Undirhlíðum  um miðja 12. öld. Hugmyndir hafa verið um að byggja nýjan alþjóðaflugvöll á Hvassahrauni sunnan Hafnarfjarðar, en ekkert heildarmat liggur fyrir á eldvirkni honum tengd. Eitt ljósasta dæmi um fádæma skammsýni í skipulagsmálum birtist okkur svo  í þeirri kröfu borgaryfirvalda Reykjavíkur að Reykjavíkurflugvöllur víki og öllu alþjóðflugi verði beint suður á Reykjanes þar sem fyrirsjáanleg eru eldsumbrot innan ekki langs tíma.
...
Vinnubrögð eins og hér hafa verið nefnd dæmi um varðandi skipulag og staðsetningu mannvirkja eru í hrópandi ósamræmi við vaxandi þekkingu á jarðfræði lands okkar. Brýnt er að finna leiðir til úrbóta, m.a. með skýrri leiðsögn í landsskipulagi.



Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim