Hjörleifur Guttormsson 9. nóvember 2020

Um kosningar fjær og nær á tímum kórónuveirunnar

COVID19-veiran heldur áfram að setja mark sitt á daglegt líf í öllum heimshlutum. Ríkisstjórnir í flestum löndum Evrópu hafa á síðustu vikum séð sig tilknúðar að herða á aðgerðum til smitvarna til að draga úr álagi á heilbrigðiskerfi og vernda þá sem viðkvæmastir eru fyrir. Áhrifin á daglegt líf, atvinnu og viðskipti, eru ný reynsla fyrir alla núlifandi en mörgum verður hugsað til sögunnar, til faraldra (pesta) á liðnum öldum sem tóku gífurlegan toll án þess vörnum væri við komið. Nú er beðið mótefna til bólusetningar gegn veirunni, en óvissan er mikil hvenær þau koma í gagnið sem og um væntanlegan árangur. Rétt sýnist að gera ráð fyrir að núverandi ástand með sveiflum í smiti geti tekið eitt til tvö ár. Sem eyland hefur Ísland sérstöðu í baráttunni við veiruna með þeim ferðatakmörkunum sem hér hafa verið innleiddar og góð reynsla er fengin af. Þríeykið umtalaða sem áfram stendur vaktina með ráðgjöf til stjórnvalda og almennings hefur unnið afrek sem seint verður metið að verðleikum. Á meðan við þreyjum þorrann og góuna er um nóg að hugsa, m.a. þau stóru viðfangsefni sem bíða okkar eigi mannkyninu að auðnast að lifa í sæmilegri sátt við umhverfið.

Bandarísku kosningarnar

Á mörgu hefur gengið í forsetakosningum í Bandaríkjum Norður-Ameríku síðasta mannsaldurinn. Kjör Donalds Trump sem forseta fyrir fjórum árum í kappi við Hillary Clinton kom öllum á óvart. Líklegur ósigur hans nú í kappi við annan öldung, Joe Biden, mun einnig ganga inn í stjórnmálasöguna, fyrst og fremst vegna þess hversu knappur hann var í mótsögn við langflestar skoðanakannanir. Gjalda ætti varhug við þeim „iðnaði“ og setja slíkum könnunum takmörk í aðdraganda kosninga. Áframhaldandi meirihluti repúblikana í öldungadeild Bandaríkjaþings og aukinn afturhaldssamur meirihluti í hæstarétti landsins skilur við þetta efnahagslega risaveldi í einskonar pattstöðu, jafnt inn á við og út á við, ófært um að veita forystu sem það hafði  á alþjóðavettvangi eftirstríðsáranna. Það er táknrænt að á sjálfan kosningadaginn 3. nóvember féll formlega niður aðild Bandaríkjanna að Parísarsamkomulaginu í loftslagsmálum frá árinu 2015. Repúblikanar með meirihluta í öldungadeild þingsins eru áfram líklegir til að leggjast gegn róttækum aðgerðum til að draga úr losun CO2. Inn á við skilur Trump við Bandaríkin sundraðri en nokkru sinni fyrr, efnahagslega og pólitískt. Auður og eignir hafa í hans tíð haldið áfram að færast á hendur æ fámennari yfirstéttar, banka og fjölþjóðafyrirtækja, og andstæðurnar milli dreifbýlis og þéttbýlis hafa magnast sem aldrei fyrr. Margir stjórnmálamenn og fréttaskýrendur innan og utan Bandaríkjanna líta svo á að þrátt fyrir formlegan ósigur Trumps í kosningunum hafi hann náð að setja mark sitt á stjórnarhætti landsins til langframa. Hafa ber líka í huga að hann víkur ekki formlega úr Hvíta húsinu fyrr en að tveimur mánuðum liðnum. Öll er þessi staða áhyggjuefni fyrir heimsbyggðina.

Þýskaland – hvað tekur við?

Í Þýskalandi verða kosningar til Sambandsþingsins í Berlín að ári, þ.e. haustið 2021. Þeim tengist mikil óvissa um stöðu flokka og einstaklinga sem sumir hverjir hafa sett svip sinn á þarlend stjórnmál um áratugi. Fyrsta er þar að nefna Angelu Merkel (f. 1954) sem verið hefur kanslari Þýskalands síðan árið 2005, eftir að hafa verið þátttakandi í þýskum stjórnmálum frá falli Austur-Þýskalands 1989; þar ólst hún upp og við háskólann í Leipzig náði hún sinni diplómgráðu í eðlisfræði 1978 og varð síðar doktor í eðlisefnafræði 1986. Hún var kosin þingmaður Kristilegra demókrata þegar árið 1990 og varð þá brátt ráðherra í stjórn Helmut Kohl. Merkel hefur reynst mikilhæfur stjórnmálamaður, sem m.a. verður lengi minnst fyrir djarfa ákvörðun hennar 2011 um að Þýskaland hætti við kjarnorkuver í áföngum fram til 2022. Annar þekktur framámaður úr röðum Kristilegra, Wolfgang Schäuble (f.1942), nú þingforseti, mun sennilega einnig draga sig í hlé að ári. Merkel hætti sem formaður CDU 2018 og Annegret Kramp-Karrenbauer (AKK, f. 1962) varð eftirmaður hennar í formannsstólnum. Hún hefur hinsvegar þegar ákveðið að draga sig í hlé og nú bítast um formennskuna þrír karlar úr röðum CDU og sigurvegari yrði væntanlega kanslaraefni flokksins. Flokksþing er ákveðið að halda 16. janúar 2021 þar sem úrslit ráðast. Margir sjá hins vegar vænlegt kanslaraefni í Markus Söder (f. 1967) formanni CSU, systurflokks Kristilegra, og síðan í fyrra forsætisráðherra Bæjaralands. Bæði Merkel og Söder hafa nýverið beitt sér eindregið fyrir hörðum aðgerðum gegn kórónuveirunni og gerðu furðufuglar á Alþingi rétt í að kynna sér málflutning þeirra. – Nú eru Sósíaldemókratar í ríkisstjórn með Merkel, en á ýmsu hefur gengið um forustu þeirra og fylgi undanfarið. Græningjar hafa hins vegar sótt mjög í sig veðrið síðustu árin og vaxandi líkur eru á að þeir komi við sögu í næstu ríkisstjórn, hvort sem verður til hægri eða vinstri. Það er því tíðinda að vænta í þýskum stjórnmálum næsta árið, sem haft geta víðtæk áhrif vegna miðlægrar stöðu Þýskalands innan Evrópusambandsins.

Norðurlöndin og Arktís

Þing Norðurlandaráðs 2020 var haldið fyrir nokkrum dögum, að nafninu til í Reykjavík, en þinghaldið endurspeglaði  yfirstandandi pest með fjarfundum og lítilli fjölmiðlaumfjöllun. Það er miður því að samnorrænn vettvangur er öllum aðildarrríkjunum mikilvægur, ekki síst nú á tímum hraðfara samfélagsbreytinga og áskorana. Aðild þriggja Norðurlanda að Evrópusambandinu veikir óhjákvæmilega möguleika á þróun og öflugra samstarfi þeirra sem heild og er hindrun í vegi sjálfstæðrar samnorrænnar stefnu. Norrænu ESB-ríkin lúta dómsvaldi Evrópudómstólsins sem Ísland og Noregur standa utan við, en eru þó á gráu svæði vegna EES-samningsins. Á þau efni kann að reyna meira en áður á næstunni vegna Kórónaveirunnar. Dæmi um það er  nýleg samþykkt meirihluta norska Stórþingsins að vísa svonefndum fjórða járnbrautarpakka ESB til hæstaréttar Noregs með tilliti til stjórnarskrárákvæða. Minnir það á deiluna hérlendis í fyrra um orkupakka 3, sem meirihluti Alþingis skautaði léttilega yfir. Á aðra þætti í alþjóðasamstarfi okkar mun reyna á næstunni, þar á meðal ákvæði Schengen-samningsins um eftirlit á landamærum. – Norðurlönd tengjast Norður-Íshafinu gegnum Arktíska ráðið sem er samstarfsvettvangur átta aðildarríkja, þar á meðal Bandaríkjanna, Kanada og Rússlands. Ísland hefur þar formennsku 2019–2021. Í fyrra höfnuðu Bandaríki stefnutillögu annarra Arktisríkja fyrir þetta tímabil. Endurspeglar það aukin hernaðarumsvif af þeirra hálfu í norðri, þvert á áherslur norrænna ríkja um að halda Arktís hernaðarlega sem lágspennusvæði. – Á þessa stefnu Washington vorum við minnt með frétt Morgunblaðsins 31. okt. sl. undir fyrirsögninni „Bandaríkjaher áhugasamur um aðstöðu á Austurlandi“. Er einhver sem vill sjá aukin hernaðarumsvif Bandaríkjanna hérlendis á nýjan leik?

Kosningar afstaðnar að ári

Tíminn líður þrátt fyrir einsemd margra nú á dögum veirunnar. Einnig hér styttist í kosningar og pólitískar áhvarðanir sem þeim tengjast. Líklegur kjördagur er 25. september að ári. Þá hefði 3ja flokka stjórn Katrínar Jakobsdóttur setið í heilt kjörtímabil. Fram að þessu hefur stjórnin glímt við stór og örðug vandamál og tekist vel við lausn þeirra að mínu mati. Því miður eru horfur á að glíman við veirupestina fylgi stjórninni til loka. Sá vandi er hins vegar alþjóðlegur og hverfur ekki í skyndingu, þótt bóluefni komi vonandi á markað á fyrrihluta árs 2021. Þegar pestin loks fjarar út bíða önnur stórmál þess að á þeim sé tekið af festu og raunsæi í ljósi dýrkeyptrar reynslu.Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim