Hjörleifur Guttormsson 11. janúar 2020

Örlagaglíma mannkyns á nýbyrjuðum áratug

Það væri öfugmæli að segja að bjart sé yfir heimsbyggðinni við upphaf þessa árs sem innleiðir nýjan áratug. Óvænt hafa ófriðarblikur vaxið til mikilla muna yfir Mið-Austurlöndum með mannvígum að boði Bandaríkjaforseta þvert á alþjóðalög og hefðir. Margir fréttamenn og sérfróðir eru á einu máli um að allt frá innrásinni í Írak 2003 sé hér um þáttaskil að ræða sem leitt geti til ófriðarbáls af áður óþekktri gráðu í heimshluta sem margt hefur mátt reyna í hálfa öld. – Ljóst er að Bandaríkin hafa ekki látið svo lítið að upplýsa forystumenn Evrópuríkja um morðáform sín og kvarta nú eftir á undan litlum stuðningi úr þeirri átt. Sama er uppi á teningnum um NATÓ sem birtist hér sem áhrifalaus áhorfandi eftir á. – Samhliða þessum ógnum á hernaðarsviðinu eru valdhafar í Bandaríkjunum í forystu fyrir fámennri sveit hægrisinnaðra ríkisstjórna sem vinnur gegn alþjóðasamstöðu gegn loftslagsvánni. Þar er með í för ríkisstjórn Ástralíu, ótrúlegir svefngenglar á sama tíma og eldstungur svíða aðalþéttbýli þessarar heimsálfu og sumarhitinn slær upp undir 50°C.

Bandaríkin sem hrörnandi risaveldi

Þeir sem til skamms tíma bundu vonir við  að Bandaríkin héldu áfram sessi sínum sem forysturíki Vesturlanda hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum. Framganga Trumps sem forseta á sér æ færri formælendur evrópumegin hafsins og það áður en dró til síðustu tíðinda gagnvart Íran. Margt leggst hér á sömu sveif: Viðskiptastríð og hótanir í allar áttir út frá þröngum hagsmunum Bandaríkjanna, einhliða uppsögn á kjarnorkusamningi risaveldanna og gegndarlaus hergagnaframleiðsla þar sem Bandaríkin bera uppi um 60% af vopnasölu á heimsvísu. Andstaðan gegn Parísarsamkomulaginu í loftslagsmálum bætir síðan ekki úr skák. Spurninguna um horfur og  úrslit forsetakosninganna vestra 3. nóv. næstkomandi mun  eðlilega bera hátt í umræðu næstu mánaða, ekki síður fyrir þá sök að Demókratar hafa enn ekki gengið frá mótframbjóðanda sín megin. Þar er valið enn opið milli þingmannanna Elizabeth Warren sem stendur á sjötugu, Bernie Sanders 78 ára og og Joe Bidens 77 ára og fyrrum varaforseta í tvö kjörtímabil 2009-2017.  Keppinauturinn Trump verður 74 ára á komandi sumri og því er það mikið öldungalið sem hér mun leiða saman hesta sína. – Mat fréttaritara Der Spiegel vestra, Roland Nelles (Videoanalyse 6. jan. 2020), er að með vanhugsaðri fljótfærnisaðgerð sinni hafi Trump náð að sameina Írani að baki klerkastjórninni í Teheran og birtist hann nú sem stríðshaukur á sama tíma og kjósendur vestra sýni styrjaldarrekstri engan áhuga.

Loftslagsglíman á tímamótum

Skorturinnn á vilja til samstöðu ríkja á COP-25 í Madrid í desember sl reyndist afdrifaríkur. Samstaða um leikreglur ríkja heims er úrslitaatriði ætli menn að fylgja leiðsögn Parísarsamkomulagsins frá 2015. Sú glíma flyst nú yfir á COP-26, þ.e. næsta ársfund aðildarríkja loftslagssamningsins í Glasgow undir lok 2020. Enn eru það sömu ríkin og þau sem síst skyldi sem rjúfa samstöðuna með Bandaríkin í fararbroddi, studd m.a. af stjórnvöldum í Ástralíu og Brasilíu. Ríki heims eiga samkvæmt samningsdrögum að skila inn fyrir COP-26 fundinn bindandi markmiðum um samdrátt í losun. Hvert ár sem skilar ónógum samdrætti í losun veldur afar dýrkeyptri töf. Þannig áætlar Umhverfisstofnun SÞ að til að stöðva sig af við 1,5°C hlýnun þurfi árlega að draga sem svarar 7,6% úr losun gróðurhúsalofts. Hvert ár án uppfylltra slíkra markmiða hækkar þröskuldinn sem framundan er og vísar á allsherjar óförnuð mannkyns. Ástandið í Ástralíu þessa dagana er aðeins vísbending um það sem gerast mun á heimsvísu í tíð núlifandi kynslóða verði ekki við brugðist nú þegar.

Innlendar raddir í ársbyrjun

Það er góð regla að ætla forystumönnum stjórnmálaflokka að gera grein fyrir sér og stefnu flokka sinna við hver áramót. Talsmenn ríkisstjórnarflokkanna halda því eðlilega til haga sem áunnist hefur, nú þegar kjörtímabil er vel hálfnað. Í aðalatriðum hefur stjórninni tekist að fylgja eftir fyrirheitum í stjórnarsáttmála sínum og stuðla að samningum á vinnumarkaði þótt ekki sé þar allt í höfn. Einbeitt forysta og lagni  Katrínar Jakobsdóttur sem forsætisráðherra hefur skipt miklu jafnt inn á við og út á við og þrátt fyrir tímabundna ágjöf hefur flokkur Vinstri grænna styrkst með Guðmund Inga Guðbrandsson sem umhverfisráðherra og nú varaformann. Eindregnar áherslur formanns Framsóknarflokksins um loftslagsmálin sem stærsta verkefni samtímans eru jafnframt á réttum stað og að stjórnmálin þurfi að varða leiðina að settu marki. Við allt annan tón kveður hjá formanni Miðflokksins í áramótagrein (Mbl. 31. des. 2019, s. 25) þar sem hann hafnar í senn niðurstöðum alþjóða vísindasamfélagsins og Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál og  brýna þörf aðgerða, og veitist jafnframt með grófum hætti að Grétu Thunberg fyrir þá vakningaröldu meðal ungs fólks sem hún hefur átt þátt í að leysa úr læðingi. Ólíklegt er að málflutningur af þessu tagi eigi hljóngrunn hérlendis.

Maður og náttúra órofa heild

Sú grafalvarlega staða sem mannkynið hefur komið sér í verður ekki leyst nema með gerbreyttri nálgun gagnvart móður náttúru. Forsendan er að viðurkenna augljós takmörk okkar sem hluta af heild og breyta búskaparháttum til samræmis við það. Þessi staða hefur blasað við sjáendum í heilan mannsaldur án þess við væri brugðist. Tækniþróun ein og sér breytir ekki þessari stöðu. Því þarf umhverfisvernd ásamt baráttu fyrir jöfnuði og  heimsfriði nú og á næstu árum að verða mál mála  hérlendis sem og á heimsvísu. 



Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim