Hjörleifur Guttormsson 11. febrúar 2020

Gífurleg ólga í þýskum stjórnmálum

Í fyrstu viku þessa mánaðar gerðust mikil tíðindi í þýskum stjórnmálum sem örugglega eiga eftir að draga dilk á eftir sér. Þau fóru hins vegar að mestu fram hjá íslenslum fjölmiðlum, Ríkisútvarpi og dagblöðum sem einblíndu á Coronaveiru og forkosningar Demókrata í Iowa-fylki. Viðburðurinn sem hér er vísað til gerðist í Thüringen, einu af fylkjum („löndum“) Sambandsríkisins Þýskalands. Hér er þetta fylki stundum kallað Þýringaland á íslensku, nafn dregið af þjóðflokknum Thuringi.  Thüringen er gamalgróið svæði, þekkt frá því á  6. öld, nú um 16 þúsund ferkílómetra að stærð og með 2,1 milljónir íbúa, stærsta borgin Erfurt þar sem fylkisþingið situr.  Á eftirstríðsárunum var Thüringen suðvestasti hluti Austur-Þýskalands.
Á síðasta kjörtímabili 2014–2019 var vinstrisinnuð fylkisstjórn við völd í Thüringen með aðild vinstriflokksins (Die Linke), krata (SPD) og græningja (Die Grünen). Fyrstnefndi flokkurinn hafði þá á bak við sig 28,2% fylgi með Bodo Ramelow, vinsælan formann sem forsætisráðherra. Reglubundnar kosningar voru haldnar í fylkinu 27. október sl. og bætti Die Linke þá við sig, fékk 31% atkvæða. Næstur kom hægri þjóðernisflokkurinn (Alternativ für Deutschland – Valkostur Þýskalands) með 23,4%, á meðan kristilegir (CDU) töpuðu þriðjungi fyrra fylgis, fengu aðeins 21,7%. Fylkisstjórnin missti hins vegar meirihluta sinn vegna slakrar útkomu krata (8,2%) og græningja (5,2%). Frjálsir demókratar (FDP) skriðu naumlega inn á fylkisþingið með slétt 5% atkvæða. Síðan hefur ríkt stjórnarkreppa í fylkinu. þar eð hvorugur borgaralegu flokkanna, kristilegir eða frjálslyndir, hafa viljað styðja stjórn með þáttöku vinstriflokksins og jafnframt sagst útiloka að þiggja stuðning frá AfD.

Merkel: „óafsakanlegt“

Fimmtudaginn 5. febrúar sl. fór fram atkvæðagreiðsla í fylkisþinginu um nýja stjórnrforystu þar sem forystumaður frjálslyndra bauð sig fram og fékk 45 atkvæði gegn 44 sem forsætisráðherra. Ljóst var að allir fulltrúar AfD höfðu greitt honum atkvæði ásamt með kristilegum. Áður höfðu þó frjálslyndir og kristilegir í Thüringen og á landsvísu svarið og sárt við lagt að þeir vildu engin samskipti hafa við þennan flokk þjóðernissinna. Samt tók nýkjörinn forsætisráðherra opinberlega við stöðunni og hélt henni í sólarhring þegar hann vegna víðtækra mótmæla var neyddur til að segja sig frá þessum óvænta heiðri. Formaður frjálslyndra, Christian Lindner, lagðist á þá sömu sveif eftir að hafa orðið tvísaga í fjölmiðlum og forysta kristilegra, formaðurinn Annegret Kramp-Karrenbauer (AKK) og Merkel kanslari, fordæmdu báðar þennan gjörning. Merkel sem var í opinberri heimsokn í Suður-Afríku sagði athæfið óafsakanlegt og gerðu báðar kröfu um nýjar kosningar í fylkinu. Því voru kristilegir í Thüringen hins vegar ósammála og dugðu fortölur og heimsókn AKK til Erfurt á eins konar neyðarfund ekki til. Það gerir þessa stöðu enn dramatískari að forystumaður AfD í Thüringen og um leið talsmaður þingflokksins í þýska þinginu (Bundestag) heitir Björn Höcke, sem margir andstæðingar telja dæmigerðan nasista og líkja jafnvel við Göbbels. Hann er talinn arkitektinn að þessari síðustu gildru sem frjálslyndir og kristilegri gengu í og sem haft getur víðtækar afleiðingar fyrir flokkana báða og þróun þýskra stjórnmála. Kristilegir hafa undanfarið verið að tapa fylgi yfir til AfD, ekki aðeins í Thüringen heldur víða um land og opinber afstaða CDU um að hafa við þá engin samskipti er áfram umdeild innan flokksins.

Stjórnarsamstarf á brauðfótum

Samstarf kristilegu flokkanna (CDU/CSU) og krata (SPD) í ríkisstjórn Þýskalands hefur enn veikst við þessa síðustu atburði og var þó tæpast á bætandi. Á jólaföstunni lá fyrir kjör nýrrar forystu hjá þýskum krötum, þeirrar þriðju sem kosin er á jafn mörgum árum. Þar er nú tvíhöfða forysta, karl og kona, eins og hjá græningjum og vinstriflokknum. Um er að ræða Saskia Esken (f. 1961) þingmann síðan 2013 og Norbert Walter-Borjans (f. 1951) utanþings, bæði lítið þekkt utan flokksins. Þau báru naumt sigurorð í beinni kosningu meðal flokksmanna sl. haust af fjármálaráðherranum Olaf Scholz sem einnig hafði konu sem frambjóðanda sér við hlið. Vart hefur þessi niðurstaða orðið til að styrkja stjórnarsamstarfið, sem núverandi formenn gagnrýna í mörgum atriðum. – Kristilegra megin í ríkisstjórninni hafa líka nýlega orðið breytingar með því að áðurnefnd AKK tók við formennsku af Merkel sem heldur áfram sem kanslari á útleið. Formaðurinn nýi situr þó ekki á neinum friðarstóli því að sótt er að henní úr ýmsum áttum og varnarmálaráðuneytið sem hún leiðir sem ráðherra er ekki sérlega til vinsælda fallið. Mat þýskra fréttaskýrenda eftir atburði síðustu daga í Thüringen virðist  einróma í þá átt að staða AKK hafi veikst til muna og þá jafnframt styrkur þýsku ríkisstjórnarinnar sem er að glíma við mörg vandasöm og umdeild mál, m.a. á sviði loftslagsbreytinga. Sú opinbera stefna kristilegra að hafna samstarfi við vinstriflokkinn Die Linke og leggja hann að jöfnu við AfD sætir nú gagnrýni úr mörgum áttum, m.a. frá ráðherrum CDU í Schleswig-Holstein.

Grunnstoðir Evrópusambandsins veikjast

Um leið og vaxandi óvissa ríkir um hvert stefnir í þýskum stjórnmálum er ljóst að styrkustu stoðir Evrópusambandsins eru að veikjast frá því sem verið hefur. Merkel kom því að vísu til leiðar að samstarfskona hennar í CDU og ráðherra um langt skeið, Ursula van der Leyen, tók nýlega við formennsku í framkvæmdastjórn ESB í Brussel. Mátti þó minnstu muna að hún fengi tilskilinn stuðning á Evrópuþinginu við útnefningu sinni. Á sama tíma hefur staða Macrons Frakklandsforseta beðið hnekki við átök innanlands á mörgum sviðum sem birst hafa í götuóeirðum gulvesta og fleiri í meira en ár. Nú reynir hann að knýja á um aukna miðstýringu innan ESB og gylla hlut Frakka á hernaðarsviði sem eina kjarnorkuveldis innan ESB eftir útgöngu Breta. Framundan þarf ESB í kjölfar Brexit að fást við flókna samninga við bresk stjórnvöld á sama tíma og mikil spenna ríkir áfram í hópi aðildarríkja. Lönd eins og Ísland og Noregur sem tengst hafa ESB gegnum Evrópsk efnahagssvæði í aldarfjórðung gerðu rétt í að hugsa nú sinn gang í ljósi breyttra og óvissra aðstæðna og stefna að tvíhliða samningi við ESB í stað óvirkrar yfirtöku á regluverkinu frá Brussel..

Hjörleifur Guttormssson

PS: Grein þessa skrifaði ég á sunnudegi. Morguninn eftir, 10 febrúar, varð opinbert að Annegret Kramp-Karrenbauer hafi ákveðið að segja sig frá formennsku í CDU og gefi þar með heldur ekki kost á sér sem kanslaraefni. Sem viðbrögð við þessum tíðindum hefur Der Spiegel eftir Peter Altmeier efnahagsráðherra Þýskalands, að nú blasi við „óvenjulega alvarleg staða fyrir CDU, fyrir alla í flokknum“. Það er þannig ekkert ofsagt í fyrirsögn greinarinnar. - HGHjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim