Hjörleifur Guttormsson | 11. maí 2020 |
Maðurinn þarf að laga sig að náttúrunni sem við öll erum hluti af Vorið er komið og mannlíf byrjað að vakna af þeim dvala sem veirufaraldurinn hefur valdið. Enginn veit hversu lengi hann á eftir að setja svip á samskipti manna hér innanlands, að ekki sé talað um opnun á ferðir til og frá útlöndum. Hingað til hafa íslensk stjórnvöld og trúnaðarmenn haldið svo vel á málum að aðdáun vekur og staðið af sér þann mikla þrýsting sem farið er að gæta víða í samfélaginu. Enn er pestin á uppleið í Bretlandi og langt frá því að hafa dvínað eins og hér á öðrum Norðurlöndum. Ástandið í Bandaríkjunum er ógnvænlegt og segir dapurlega sögu um þarlend stjórnvöld með Trump og hans nánustu samstarfsmenn í forsvari. Á meðan þannig háttar erlendis má helst enga áhættu taka sem valdið gæti nýrri smitbylgju hérlendis. Eins og horfir má telja útilokað að ferðalög hefjist í einhverjum mæli til og frá landinu fyrr en í fyrsta lagi næsta vetur og móttaka stórra farþegaskipa erlendis frá hlýtur af bíða um sinn. Aðlögun að gerbreyttum aðstæðum Veiran sem nú herjar ætti að gefa mönnum tilefni til að staldra við og endurmeta fyrir alvöru stöðu okkar á heimilinu jörð. Sú áskorun blasti raunar við vegna loftslagsháskans og hafði að minnsta kosti að nafninu til hlotið viðurkenningu þeirra þjóða sem skrifuðu upp á Parísarsamkomulagið 2015. Segja má að mannkynssagan eins og við þekkjum hana sé vörðuð árekstrum manna við umhverfi sitt, saga þjóða og samfélaga sem lentu í sjálfheldu eða börðust á banaspjótum í kapphlaupi um stærri sneið af gæðum jarðar. Sú greining sem dregin var upp fyrir hálfri öld í bókinni Endimörk vaxtarins (The limits to Growth, 1972) að frumkvæði Rómarklúbbsins svonefnda hefur því miður í meginatriðum reynst rétt. Að henni stóð hópur vísindamanna frá Tækniháskólanum í Massachusetts í Bandaríkjunum. Þar segir í inngangi:
Ástæða er til að rifja upp, að niðurstöður ritsins byggðu á vistfræðilegum og sögulegum forsendum, en ekki pólitískri forskrift. Þótt skýrsla þessi og síðari rit Rómarklúbbsins vektu athygli, gekk þróun efnahagslífs iðnríkjanna í þveröfuga átt og hefur í meginatriðum þrætt þá feigðarbraut síðan. Sjálfbær þróun hefur ekki gengið eftir Sama ár og skýrsla Rómarklúbbsins kom út, 1972, var haldin Stokkhólmsráðstefna Sameinuðu þjóðanna undir kjörorðinu Umhverfi mannsins. Frumkvöðlar hennar á vettvangi SÞ voru Svíar og megintilgangur með henni að beina athygli stjórnvalda og almennings að umhverfismálum og hvetja til alþjóðasamstarfs um þau. Margt gagnlegt fylgdi í kjölfarið, ekki síst barátta gegn mengun ásamt með aukinni umhverfisvitund. Samtímis var hins vegar hert á iðnvæðingu og auðlindasóun undir merkjum nýfrjálhyggju og fjölþjóðafyrirtækja, m.a. á kostnað fátækra þróunarlanda. Vegna áframhaldandi vaxandi umhverfisvanda settu Sameinuðu þjóðirnar á fót árið 1983 sérstaka nefnd, World Commission on environment and development, undir formennsku Gro-Harlem Brundtland forsætisráðherra Noregs. Skilaði nefndin af sér 1987 með skýrslunni Sameiginleg framtíð okkar (Our common Future. Oxford 1987), oftast kennd við hugtakið sjálfbær þróun. Skilgreining þess hugtaks var: „Mannleg starfsemi sem fullnægir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum framtíðarkynslóða til að fullnægja sínum þörfum.“ Með sjálfbærri þróun skyldi leitast við að ná jafnvægi milli efnahagslegra, félagslegra og umhverfislegra þátta í samfélagsþróuninni horft til langs tíma og samþætta aðgerðir að því markmiði. Nefndin fór ekki út í nákvæmar skilgreiningar á einstökum þáttum, en sagði m.a. í áliti sínu, að þörf geti verið á að nýta til fulls efnahagslega vaxtarmöguleika, sérstaklega til að fullnægja þörfum á vanþróuðum svæðum. (s. 44). – Í framhaldi af þessu hófst undirbúningur Ríó-ráðstefnunnar 1992, sem m.a. afgreiddi alþjóðasáttmálana gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum og um verndun líffræðilegrar fjölbreytni sem síðan hefur verið reynt að þoka fram, en með þeim takmarkaða árangri sem nú blasir við eftir þrjá áratugi. Fátt er svo með öllu illt ... Árið 2020 var markmið alþjóðasamfélagsins með fáum undantekningum að ganga frá bindandi áætlun ríkja heims um niðurskurð í losun gróðurhúsalofttegunda. Veirufaraldurinn skyggir um sinn á þau áform en verkefnið minnir á sig og verður á dagskrá á ný fyrr en varir. Efnahagskerfi heimsins er lamað og hagvaxtartölur í mínus. Viðfangsefnið er ekki að keyra þær upp á óbreyttum grunni heldur að finna leiðir til mannsæmandi lífs fyrir sem flesta án þess að spilla umhverfi jarðar. Til þess þarf fjölmargt að breytast, ekki síst að gerðar verði minni kröfur til efnislegrar neyslu ásamt með jöfnuði í lífskjörum. Núverandi lífsmynstur samræmist engan veginn burðarþoli móður jarðar og þar er breyting á ríkjandi efnahagskerfi og viðskiptaháttum lykilatriði. Fótspor okkar Íslendinga í umhverfislegu samhengi er talið a.m.k. 5-falt stærra en góðu hófi gegnir og losun gróðurhúsalofts hérlendis hefur verið með því hæsta í Evrópu eða 14 tonn á mann. Um leið og staldrað er við vegna veirunnar þarf að leggja grunn að lífsháttum sem raunverulega skila afkomendum okkar sjálfbæru umhverfi. Hjörleifur Guttormsson |