Hjörleifur Guttormsson 12. október 2020

Gróðurríki Íslands í mikilli hættu vegna ágengra plöntutegunda

Gróðurríki lands okkar hefur lengst af mátt þola gífurlegt álag vegna rányrkju í formi beitar og skógarhöggs sem bættist við náttúrulegar sveiflur vegna eldgosa og kólnandi loftslags. Sú vakning sem hófst nálægt aldamótunum 1900 um endurreisn jarðvegs og gróðurs og birtist í setningu „laga um skógrækt og varnir gegn uppblæstri lands"  árið 1907 (lög nr. 54, 22. nóv. 1907) var mörgum fagnaðarefni og margt hefur áunnist á þeirri öld sem síðan er að baki. Deilur um landnýtingu eru þó ekki úr sögunni og enn viðgengst tilfinnanleg ofbeit á vissum landsvæðum. Nýleg og löngu tímabær endurskoðun laga  um landgræðslu og skógrækt var framfaraspor, þótt réttast hefði verið að sameina þá málaflokka í einni heildarlöggjöf um gróður og jarðvegsvernd líkt og gert var í árdaga.

Vandamálin af  ágengum tegundum

Mikið hefur verið um innflutning plöntutegunda til landsins allt frá því um 1900 með það að markmiði að auka fjölbreytni í skógrækt og garðyrkju. Voru Íslendingar þar samferða flestum öðrum sem uggðu ekki að sér um skaðvænlegar afleiðingar sem fylgt gætu í kjölfarið. Nú blasa hins vegar við stórfelld vandamál hér sem annars staðar af völdum innfluttra tegunda sem gerast ágengar í nýju umhverfi. Alþjóðlega hefur verið reynt að bregðast við þessu m.a. undir merkjum Samningsins um verndun líffjölbreytni (Convention of biological diversity) sem Ísland staðfesti 1994 en sinnti lítið sem ekkert um langt skeið. Inn í lögin um náttúruvernd var þó 1999 tekið inn ákvæði um ágengar tegundir og síðan hafa m.a. alaskalúpína og skógarkerfill verið felldar undir þá skilgreiningu. Á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands segir um innfluttar tegundir m.a.: „Flestar þessara framandi tegunda hafa lítil sem engin áhrif í nýjum heimkynnum. Lítill hluti þeirra hefur orðið ágengur í nýjum heimkynnum og í þeim tilfellum valda tegundirnar breytingum á vistkerfum og ógna líffræðilegum fjölbreytileika. Einnig geta þær valdið verulegu umhverfislegu, efnahagslegu eða heilsufarslegu tjóni. Þær ágengu tegundir sem hafa náð fótfestu hérlendis eru jafnt og þétt að leggja undir sig ný landsvæði og valda bæði almenningi og stjórnvöldum sífellt auknum áhyggjum.– Einnig er óheimilt að rækta útlendar tegundir á friðlýstum svæðum, á landslagsgerðum er njóta sérstakrar verndar og alls staðar ofan 400 metra hæðar yfir sjó.“

Hraðfara breytingar í ásýnd landsins

Ég hef fylgst með þróun gróðurfars við alfaraleiðir í meira en hálfa öld. Um 1970 mátti sjá lúpínu vaxa á smáblettum á stöku stað við þjóðvegi landsins. Þeir fóru hægt stækkandi en síðan um aldamót hefur orðið sprenging í útbreiðslu þessarar öflugu plöntu, sem nú er að kaffæra umhverfi flestra þéttbýlisstaða, að ekki sé talað um hraðfara stækkun svæða þar sem henni hefur verið sáð til uppgræðslu. Lengi vel var það trú margra að lúpínan bærist ekki yfir á gróin svæði, en nú blasir við að hún dreifir sér um mólendi og kjarr auk þess að berast fram með ám og lækjum allt til ósa. Lyngbrekkur og berjalönd hverfa undir þykkan feld hennar og um leið lokast landið kyrfilega gestum og gangandi. Það er átakanlegt að sjá umhverfi þéttbýlisstaða lokast af og hyljast í hávöxnum og ógengum lúpínubreiðum og fjölbreyttar jarðmyndanir hverfa jafnframt sjónum manna. Skógarkerfillinn ágengi kemur svo stundum í kjölfarið eins og sjá má m.a. í Esjuhlíðum. Spurningin sem ráðamenn og náttúruunnendur um land allt standa frammi fyrir hljóðar: Hvað er til ráða?

Stykkishólmur vísar veginn

Höfuðborgin og nágrenni var lengi sofandi gagnvart þeim ófarnaði sem hlýst af ágengum tegundum eins og lúpínu. Hinsvegar tóku íbúar í Stykkishólmi einna fyrstir við sér vegna útbreiðslu vágestsins þar um slóðir og leituðu árið 2007 til bæjarstjórnar sinnar. Sneri hún sér til Náttúrustofu Vesturlands  sem gerði úttekt á útbreiðslunni. Sýndi sig að lúpína óx þá á 148 stöðum þar um slóðir. Lagði náttúrustofan til að sveitarfélagið reyndi að uppræta lúpínu og aðrar ágengar tegundir á svæðinu. Fylgdi Stykkishólmsbær þessum ráðum og síðan hefur verið unnið markvisst að því að halda lúpínu og öðrum slíkum tegundum í skefjum. Ákveðið var að kanna og bera saman árangur tveggja mismunandi aðferða til að eyða lúpínunni, þ.e. með árlegum slætti og eitrun. Var hópur sérfróðra undir forystu Kristínar Svavarsdóttur fenginn í verkið (Náttúrufræðingurinn árg. 86, 1-2, 2016). Í niðurstöðum hópsins um aðgerðir gegn alaskalúpínu segir m.a., að því fyrr sem ráðist er í aðgerðir þeim mun ódýrari séu þær og líklegri til að skila árangri. Sláttur sé æskilegri en eitrun og slá ætti plönturnar árlega í hámarki blómgunartíma, að jafnaði í júlímánuði. Nauðsynlegt sé að endurtaka aðgerðirnar þar til lúpína hættir að vaxa á viðkomandi svæði. – Að sögn forstöðumanns Náttúrustofu Vesturlands hafa þessar aðgerðir skilað jákvæðum árangri á heildina litið, en þó misjöfnum eftir árferði. Lúpínan er horfin sums staðar og þéttleiki og útbreiðsla hennar hefur minnkað. Ljóst er að hér skiptir eftirfylgni og úthald mestu máli.

Brýnt að marka stefnu til frambúðar

Staðan varðandi lúpínu, kerfil og aðrar ágengar tegundir kallar á skýra stefnu um aðgerðir  samhliða rannsóknum á árangri. Ljóst er jafnframt að loftslagsbreytingar geta haft veruleg áhrif  á útbreiðslu ágengra tegunda sem og annarra, þar á meðal á hálendi Íslands. Hafa ber í huga að fleiri tegundir plantna en nú eru taldar ágengar geta bæst við í þann hóp, þar á meðal innfluttar trjátegundir og runnar. Hér er ekki fjallað um vágesti úr dýraríkinu eða áhrif ágengra plantna á fuglalíf og fleiri umhverfisþætti, sem auðvitað eru samtengdir. Að undanförnu hefur fjölgað þeim sveitarstjórnum sem ræða af alvöru vá af ágengum tegundum og hyggjast grípa til aðgerða, m.a. við Eyjafjörð. Á vegum umhverfisráðuneytisins hefur undanfarið verið að störfum verkefnisstjórn um landsáætlun í skógrækt undir forystu skógræktarstjóra, þar sem m.a. er lögð áhersla á náttúruskóga og líffræðilega fjölbreytni og að tryggt verði að ekki verði notaðar ágengar framandi tegundir. Jafnhliða er unnið að landgræðsluáætlun með svipuðum áherslum og tryggja á samráð og samræmingu í störfum og stefnu þessara aðila. Er mikið undir því komið að vel takist til í þeim efnum.

Lífríkið og aukin kennsla

Nýlega hefur komið fram að menntamálaráðherra hyggst auka kennslu í náttúrufræði á grunnskólastigi úr tveim tímum á viku í fjóra. Sem kennari í náttúrufræði forðum tíð tel ég þetta skynsamlega hugmynd. Þýðing góðs skilning og þekkingar á náttúrufræði er mikilvægari nú en nokkru sinni, auk þeirrar lífsfyllingar sem góð þekking á umhverfinu gefur hverjum og einum. Samhliða þarf að tryggja góða kennsluhætti á þessu sviði og rúm til fræðslu við breytilegar aðstæður úti í náttúrunni.Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim