Hjörleifur Guttormsson 14. apríl 2020

Eftirleikur veirunnar þarf að taka mið af  sjálfbærri framtíð

Forsætisráðherra orðaði það réttilega nú í byrjun dymbilviku að við stæðum frammi fyrir dýpstu kreppu í eina öld. Hann var að búa menn undir endurmat ríkisstjórnarinnar á viðbrögðum við kórónaveirunni. Aðeins mánuður var þá liðinn frá fyrstu viðbrögðum stjórnvalda. Víst er að horfurnar fyrir Ísland og umheiminn eiga eftir að breytast hratt á næstunni eftir því sem afleiðingar veirufaraldursins koma betur í ljós. Miklu skiptir að horft verði til allra átta um lausnir og ekki bara til skamms tíma. Í ársbyrjun lá fyrir að brýnasta verkefni alþjóðasamfélagsins og hvers þjóðríkis væri að taka ákvarðanir um bindandi stefnumörkun gegn hlýnun jarðar af mannavöldum.  Veirupestin hefur að sjálfsögðu kallað á skjót viðbrögð en framhaldið þarf jafnframt að taka mið af aðgerðum gegn loftslagsvánni.

Þjóðríkið í endurnýjuðu hlutverki

Á síðustu vikum hefur reynt á stjórnvöld og stofnanir í hverju þjóðríki að taka ákvarðanir til að verjast veirunni og draga úr mannfalli af hennar völdum. Ríkisstjórnir og þjóðþing hafa þurft að bregðast skjótt við og ekki síður fyrirtæki stór og smá sem dregið hafa úr og breytt starfsemi sinni. Fjárhagsvanda fyrirtækja og einstaklinga hefur verið varpað á sameiginlega sjóði og þjóðríkjanna bíður að kveða á um úrlausnir varðandi framhaldið. Viðteknar leikreglur hnattvædds efnahagslífs hafa vikið fyrir þörf skjótra viðbragða og ströngu landamæraeftirliti verið komið á nánast hvarvetna. Atburðir síðustu vikna hafa leitt í ljós brotalamir og  hagsmunaárekstra í stórum samsteypum eins og Evrópusambandinu og innan Bandaríkjanna blasa við miklir veikleikar í grunnstoðum samfélagsins, ekki síst á heilbrigðissviði. Það eru ekki aðeins vinstrisinnar í stjórnmálum sem nú minna á gömul gildi um hlutverk ríkisins, einnig hægrisinnuð málgögn eins og Financial Times taka þar undir eins og sjá mátti í leiðara blaðsins 3. apríl sl.:

„Við höfum þörf fyrir róttækar breytingar – sem slegið geti striki yfir ráðandi pólitísk viðhorf síðustu fjögurra áratuga. Ríkisstjórnir verða nú neyddar til að taka virkari þátt í efnahagsstarfseminni. ... Tekjukipting  verður á nýjan leik á dagskrá og umræða um forréttindi hinna eldri og velstæðu. Pólitískar hugmyndir um borgaralaun og eignarskatta, sem þar til nýlega voru taldar fjarlægar, verða nú óhjákvæmilega hluti af aðgerðum.“

Frjálhyggja og hnattvæðing fá ágjöf

Við upphaf bankakreppunnar haustið 2008 vék ég að þætti nýfrjálshyggjunnar með þessum orðum: „Helstu siglingaljós nýfrjálshyggjunnar hafa verið að láta markaðinn ráða för í smáu sem stóru, hafna ríkisafskiptum og einkavæða allt sem höndum væri komið yfir, jafnt almannaþjónustu, atvinnulíf og fjármálastofnanir. Hvað eina sem staðið hefur gegn þessari hugmyndafræði hefur verið fordæmt, eftirlit og takmarkanir af hálfu hins opinbera, starfsemi frjálsra verkalýðsfélaga, að ekki sé talað um stjórnmálamenn sem staðið hafa fyrir önnur gildi.“ Ekki dugði  fjármálakreppan þá til þess að gripið væri til róttækra aðgerða gegn hnattvæðingu viðskiptalífsins sem leitt hefur af sér samþjöppun auðæfa og auðlinda á æ færri hendur. Spurningin er hvort kreppan sem nú er skollin á fær menn til að staldra við og taka upp önnur og vænlegri siglingaljós. Í nýjasta hefti The Economist (28. mars – 3. apríl) segir m.a undir fyrirsögninni „Að byggja upp ríkisstoðir“ (Building up the pillars of state,  s. 20–22):

„Ríkisstjórnir á Vesturlöndum beina nú gífurlegum fjárupphæðum til fyrirtækja, afhenda þeim gjafafé og ódýr lán í tilraun til að halda störfum og forða þeim frá gjaldþroti. ... Mikill meirihluti hagfræðinga styður þessar aðgerðir sem að nafninu til eru sagðar tímabundnar til að halda efnahagslífinu í öndunarvél þangað til farsóttin er liðin hjá og heiminum er ætlað að hverfa til fyrri hátta. Sagan segir okkur hins vegar að afturhvarf til aðstæðna „fyrir-covid“ er ósennilegt ... Líkur eru á að „tímabundin“ ríkisafskipti verði varanleg.“

Ísland getur ráðið við vandann

Þjóð okkar á mikið verkefni fyrir höndum að vinna sig út úr erfiðleikum í kjölfar veiruáhlaupsins. Góð staða ríkissjóðs nú í byrjun skiptir miklu  og sú samstaða sem ríkt hefur og varðveita þarf eftir föngum. Augljóst er að reyna mun á allar meginstoðir samfélagsins, ríki, sveitarfélög, samtök atvinnulífs og launafólks. Mestu máli skipta til framtíðar litið ríkulegar endurnýjanlegar náttúruauðlindir til lands og sjávar, gott menntunarstig, söfn og  og vísindastofnanir. Á þessum kostum þarf að byggja endurreisnina með sjálfbærni í huga á öllum sviðum og metnaðarfull markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofts.



Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim