Hjörleifur Guttormsson | 14. júlí 2020 |
Leggjumst á sveif með náttúru landsins okkar Margir sem komnir eru á efri ár velta fyrir sér framtíðinni engu síður en ungviðið sem nú er að stíga inn á sviðið. Æ fleiri gera sér ljóst að lífveran Homo sapiens, þ.e. tegundin maður, ógnar nú eigin lífsskilyrðum og tilveru með margvíslegu móti. Hættan af styrjaldarátökum með gereyðingarvopnum er enn sem fyrr til staðar, en við hefur bæst ný og aukin vitneskja um háskalegar breytingar sem tegund okkar hefur á almenn lífsskilyrði á jörðinni. Þar eru loftslagsbreytingar af mannavöldum og ógnin sem af þeim stafar orðnar á flestra vitorði, stjórnvalda sem og almennings. Erfiðlegar hefur gengið að fá menn til að horfast í augu við víðtæka röskun vistkerfa vegna atvinnuhátta og landnotkunar, enda samhengið flóknara og á sér oft langan aðdraganda og rætur í búskaparháttum fyrri tíðar. Um báða þessa þætti, loftslagsbreytingarnar og röskun lífkerfa, var fjallað að frumkvæði Sameinuðu þjóðanna í aðdraganda Ríó-ráðstefnunnar 1992 og þar var lagður grundvöllurinn að alþjóðasamningum um hvoru tveggja sem Ísland gerðist formlegur aðili að þegar árið 1994. Ógnvænleg eyðing lífvera af mannavöldum Fjölbreytni lífvera á tilteknu svæði birtist í genamengi, fjölda tegunda og vistkerfum. Samhliða auknum rannsóknum og skráningu lífvera undanfarna áratugi hefur þekking á fjölda þeirra og útbreiðslu vaxið hröðum skrefum á heimsvísu. Þó vantar mikið á að skýrt heildaryfirlit liggi fyrir. Jafnframt hefur komið í ljós að rýrnun og eyðing vistkerfa fyrir tilverknað manna fer vaxandi hröðum skrefum og með því deyr út fjöldi tegunda og afbrigða þeirra ár hvert. Fyrir ári síðan kom út skýrsla Sameinuðu þjóðanna um þetta efni (Nature’s Dangerous Decline ‘Unprecedented’; Species Extinction Rates ‘Accelerating’). Samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar eru leiddar líkur að því að fram á miðja þessa öld eða að 30 árum liðnum muni um ein milljón dýra- og plöntutegunda hafa dáið út fyrir tilverknað manna. Íslendingar seinir að vakna Áratugir liðu hérlendis án þess nokkuð marktækt gerðist til að fylgja eftir samningnum um líffræðilega fjölbreytni. Ákvæði voru að vísu sett í lög um náttúruvernd 1999 um að sporna bæri við útbreiðslu og dreifingu ágengra framandi lífvera en eftirfylgnin varð lítil eins og best sést af langvarandi dreifingu lúpínu á vegum opinberra aðila allt frá því um miðja síðusru öld. Á Náttúrufræðistofnun Íslands og á náttúrustofum hefur þó verið unnið gott starf við að fylgjast með afkomu dýrastofna og halda utan um válista á samræmi við kerfi Alþjóða náttúruverndarsamtakanna IUCN. Einnig við að greina slæðinga og vara við útbreiðslu skaðvalda. Hömlulaus innflutningur og dreifing plantna inn í sérstætt gróðurríki landsins ásamt með brotakenndri fræðslu í skólum er hins vegar áhyggjuefni. Fjárbændur og Landgræðslan taka höndum saman Hnignun og eyðing jarðvegs og gróðurs er dapurlegur arfur úr fortíðinni , sem reynt hefur verið að bregðast við hérlendis í meira en öld. Þótt margt hafi þar áunnist eigum við enn langt í land með að endurheimta og reisa við náttúruleg vistkerfi á stórum hlutum Íslands. Það sem einkum hefur skort á er góð þekking á ástandi beitarlanda og skipuleg landnotkun af hálfu bænda. Þann 18. júní sl. var kynnt til sögunnar afrakstur af samstarfi sauðfjárbænda og Landgræðslunnar undir heitinu GróLind til að safna upplýsingum um ástand beitilanda um land allt og fá sem skýrasta mynd af einstökum þáttum, þar á meðal um fjölda fjár á viðkomandi svæðum. Styðjast á við nýleg lög um landgræðslu og sjálfbæra landnýtinu, en reglugerð þar að lútandi er í vinnslu. Kortasjá GróLindar sem nú hefur verið opnuð á að gera vinnu Landgræðslunnar marktækari í samvinnu við bændur og almenning. Gróft mat sýnir að um 45% landsins er nú gróðurfarslega í bágu ástandi og aðeins um fjórðungur telst vera í besta flokki. Lágmarksfjármagn til verkefnisins á að vera tryggt samkvæmt Búvörusamningi og hér verður að bæta við eftir þörfum. – Hrossabeit á úthaga og gróðurvinjar er ekki síður áhyggjuefni, þótt dregið hafi úr upprekstri hrossa á afréttir. Hrossaeign landsmanna er nú nálægt 70 þúsund. Athygli vekur afar takmörkuð þátttaka hrossaeigenda í verkefninu Hagagæði með Landgræðslunni, þar sem aðeins 50 voru skráðir á síðasta ári. Hér þarf greinilega vitundarvakningu og aðhald. Fjöldi þéttbýlisbúa á hér hlut að máli og sýn þeirra margra hverra til landnotkunar er ábótavant. Endurreisn náttúrulegs gróðurríkis Vistvæn endurreisn gróðurrikis lands okkar er stórmál ekki síður en umgengni við auðlindir ferskvatns og sjávar. Mikið er undir því komið að nýrri og löngu tímabærri löggjöf um landgræðslu og skógrækt verði fylgt eftir á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytis og undirstofnana. Það voru að mínu mati mistök hjá Alþingi að fella lög um gróðurríki landsins ekki í eina heild með viðkomandi undirþáttum. Aðalatriðið er þó að tryggja vistvæna nýtingu og ábyrga landnotkun samkvæmt gagnsæju skipulagi. Friðun gróðurríkisins fyrir ofnýtingu er árangursríkasta leiðin til endurreisnar þess. Lausaganga búfjár ætti fyrr en seinna að heyra sögunni til og fella þarf skógrækt að verndun birkis og annarra innlendra tegunda í langtum meira mæli en nú tíðkast. Hvarvetna þar sem gróðurríkið fær frið til að dafna lagar það sig að staðháttum og fellur að ásýnd landsins. – Um þetta má sjá dæmi í öllum landshlutum þar sem beit hefur verið takmörkuð. Eitt slíkt sýnishorn blasir nú við á ferð um Skeiðarársand. (Sjá meðfylgjandi mynd) Þar er náttúrulegur birkinýgræðingur og lággróður í örum vexti á sandi sem jökulhlaup fór yfir fyrir aldarfjórðungi. Leggjumst þannig á sveif með náttúru lands okkar og hún mun spjara sig fyrr en nokkurn varir. Hjörleifur Guttormsson |