Hjörleifur Guttormsson 15. september 2020

Álitamál fyrr og síðar um sveitarstjórnarstigið og kjördæmaskipanina

Í miðri veiruumræðunni er það nokkur tilbreyting hérlendis að efnt verður til óvenjulegra kosninga á Austurlandi 19. september nk. þar sem stofna á nýtt og stærra sveitarfélag úr fjórum sem fyrir voru. Reglubundnar kosningar til sveitarstjórna fara næst fram vorið 2022, og boðað hefur verið að alþingiskosningar fari fram að ári liðnu í september 2021. Á næstunni má því búast við vaxandi umræðu og átökum á stjórnmálasviðinu, þar sem aðstæður eru um margt gjörbreyttar. Að þessu sinni verður hér fyrst og fremst vikið að ytri formgerð kosninga hérlendis sem tekið hefur miklum breytingum á einum mannsaldri og engan veginn alltaf til bóta. Athyglisvert ákvæði er hins vegar í nýlegri samþykkt stjórnvalda (nr. 190 frá 19. febrúar 2020) um nýtt sveitarfélag eystra, þess efnis að stofna skuli þar sérstaka heimastjórn 3ja manna sem annast á tiltekin sérverkefni í sveitarfélögunum sem fyrir voru, m.a. tengd skipulagi, náttúruvernd , búfjárhaldi og menningarmálum í heimabyggð.

Sveitarstjórnarlögin 1986 afdrifarík

Gildandi sveitarstjórnarlög eru frá árinu 2011 og tóku við af lögum frá 1998 sem aftur byggðu á lagasetningu 1986, en með þeim lögum voru lagðar niður sýslur landsins og kaupstaðir sem lengi höfðu verið við lýði sem stjórnsýslueiningar og mynduðu fram til ársins 1959 grunninn að kjördæmum til Alþingis. Stóra álitaefnið þá í aðdraganda nýrra sveitarstjórnarlaga var hvort stjórnsýslustigin í landinu skyldu aðeins vera tvö, þ.e. Alþingi og sveitarfélög, eða hvort stofnað skyldi til þriðja stjórnsýslustigsins undir nafninu hérað eða fylki í líkingu við það sem verið hefur á öðrum Norðurlöndum um langa hríð. Þáverandi ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks lagðist gegn þeirri hugmynd sem naut hins vegar verulegs fylgis, m.a. innan Alþýðubandalagsins og sem fengið hafði eindreginn stuðning frá byggðanefnd þingflokkanna undir forystu Lárusar Jónssonar fv. alþingimanns Sjálfsstæðisflokksins. Sá sem þetta skrifar flutti þá heildstæða breytingartillögu (nr. 545/108. þing) við stjórnarfrumvarpið sem gerði ráð fyrir sjálfstæðu stjórnsýslustigi í formi héraða, í meginatriðum byggt á þáverandi kjördæmaskiptingu. Þessi tillaga mín var hins vegar felld. Ákvæði sem þá voru lögfest um héraðsnefndir eða annað form á samvinnu sveitarfélaga reyndust því miður gagnslítil.

Kjördæmaskipanin frá 1999 afleit

Með breyttri skipan á kosningum til Alþingis sem samþykkt var 1999 og kosið var eftir í fyrsta sinn vorið 2003 varð grundvallarbreyting á þeirri kjördæmaskipan sem gilt hafði frá árinu 1959 og sem byggði í meginatriðum á sögulegri skiptingu í landsfjórðunga. Til grundvallar  stærð og fjölda kjördæma kynnti meirihluti Alþingis það sjónarmið að svipuð tala þingmanna, 10-11 talsins, yrði í hverju þeirra og þáverandi þingflokkar myndu eiga þar kjörna fulltrúa í. Með breyttum kjördæmamörkum var þarna riðlað skipan sem lengi hafði gilt, einnig um samstarf sveitarfélaga. Ljóst dæmi um þetta er Norðausturkjördæmi með útmörkum frá Djúpavogi til Siglufjarðar. Með þessu var Austfirðingafjórðungur sem söguleg eining horfinn. Undirritaður var í hópi örfárra þingmanna sem mæltu gegn þessari skipan mála. Ég gerði svofellda grein fyrir atkvæði mínu (25. mars 1999): „Virðulegur forseti. Með þeirri stjórnarskrárbreytingu sem hér er verið að lögleiða og breyttri kjördæmaskipan í kjölfarið er verið að stíga afleitt og afdrifaríkt skref. Búin verða til þrjú risastór landsbyggðarkjördæmi þvert á hefðbundin samvinnuform fólks og byggðarlaga. Norðurland verður skorið í tvennt, Austurland svipt stöðu sem það hefur haft frá þjóðveldisöld og höfuðborgin bútuð sundur í tvö kjördæmi. Þessi breyting verður til að sundra en ekki sameina og mun veikja félagslega stöðu landsbyggðarinnar. Nær hefði verið að koma á fjórðungaskipan með lýðræðislegu heimavaldi og gera síðan landið að einu kjördæmi til Alþingis.“

Handahófsleg dreifing stjórnsýslunnar

Ein afleiðing þess ástands sem nú ríkir í stjórnsýslu landsins og varðar ekki síst samskipti ríkis og sveitarfélaga er handahóf í verkskiptingu og dreifingu stjórnsýslunnar. Skýr ákvæði vantar um hlutverk Reykjavíkur sem höfuðborgar og skipulega valddreifingu til annarra svæða. Grunnur fyrir slíkt hefði fengist með skýrri afmörkun héraða innan þriðja stjórnsýslustigsins þar sem miðstöðvar hefur þróast með eðlilegum hætti. Núverandi handahóf með tilfærslu einstakra ríkisstofnana hingað og þangað með ráðherraákvörðunum gerir aðeins illt verra.

Nafn á nýja sveitarfélagið eystra

Í aðdraganda ákvarðana um sameiningu sveitarfélaganna fjögurra eystra var gerð skoðanakönnun íbúa 16 ára og eldri á fylgi við 6 tilteknar hugmyndir samhliða forsetakosningum 27. júní sl. Valið stóð um Austurþing og Austurþinghá, Drekabyggð, Múlabyggð, Múlaþing og Múlaþinghá. Vinninginn hafði Múlaþing og í öðru sæti varð nafnið Drekabyggð. Nýlega hefur Sigurjón Bjarnason formaður Sögufélags Austurlands gert skýra athugasemd við nafngiftina Múlaþing, þar eð hugtakið nái frá fornu fari yfir Múlasýslur báðar og þar með svæði sem tekur einnig m.a. til sveitarfélaganna Vopnafjarðar og Fjarðabyggðar. Ég er sammála Sigurjóni og vona að  annað heiti finnist fyrir hið nýja sveitarfélag sem ég óska velfarnaðar í bráð og lengd.Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim