Hjörleifur Guttormsson 24. nóvember 2020

Hleypum ekki veirunni lausri áður en varnir eru örugglega til staðar

COVID19-veiran heldur áfram að breiðast út á heimsvísu og þegar þetta er skrifað 17. nóvember teljast yfir 55 milljónir hafa tekið veikina og tala látinna vera yfir 1,3 milljónir. Veiran er víða í háum hæðum og útbreiðsla hennar fer vaxandi m.a. í Bandaríkjunum og Indlandi, sem leggja hvað mest til í tölu látinna. Nokkur Evrópulönd skera sig úr með hlutfallslega lága útbreiðslu veirunnar. Tölur hér í svigum tákna 14 daga nýgengi á 100 þúsund íbúa og eru lægst í þeim hópi Finnland (55) og Ísland (77) og nokkur fleiri hafa sloppið tiltölulega vel eins og Írland (114), Noregur (156), Eistland (212) og Lettland (228).  Danmörk stendur lakar á þessum skala (260) en þó betur en Þýskaland (308) þar sem áhyggjur manna hafa farið ört vaxandi upp á síðkastið. Í flestum öðrum löndum Mið- og Suður-Evrópu eru tölurnar langtum hærri með Austurríki (1056) og Tékkland (1076) í einna lakastri stöðu um þessar mundir. (Heimild: European Centre for Disease Prevention and Control)

Svíar setja í bakkgírinn

Mikla athygli vakti þegar Stefan Löven forsætisráðherra Svía tilkynnti sl. mánudag um stefnubreytingu af hálfu stjórnar sinnar í smitvörnum. Fram að þessu hafði Svíþjóð skorið sig úr öðrum Norðurlöndum með litlum opinberum hömlum á almenning. Vísuðu margir andstæðingar harðra opinberra fyrirmæla til varnar veirusmiti til fordæmis Svía. En nú var smitstuðullinn þar kominn yfir 500 á hvert 100 þúsund og skýrir það stefnubreytinguna. Sænsk stjórnvöld óttast að heilbrigðiskerfið sé að nálgast þolmörkin eins og víðar í álfunni. Í nýju reglunum sem gilda eiga í Svíþjóð fram að jólum felst m.a. að takmarka ber fjölda á samkomum og opinberum viðburðum við átta manns, þar á meðal á útifundum, í kirkjum, á tónleikum og í leikhúsum. Grunnhugsunin er að fólk aðhafist ekkert annað en það allra nauðsynlegasta. Hins vegar er eftir sem áður gengið skemur en víða annarsstaðar um takmarkanir gagnvart veitingahúsum, næturstöðum og íþróttaæfingum, m.a. þar eð lagaheimildir skorti til að herða tökin í þessum efnum.

Austurríki herðir tökin en Þjóðverjar hika

Vart getur nokkur láð Kurz Austurríkiskanslara að grípa nú til enn róttækari ráðstafana gegn útbreiðslu veirunnar en áður voru í gildi. Segja má að lokað hafi verið á allt það sem stjórnvöld geta komið höndum yfir til að koma í veg fyrir hrun heilbrigðisþjónustu landsins. Ekki reynist nú unnt að rekja 77% allra nýsmita, um 4000 Covid-sjúlingar lágu inni á sjúkrahúsum og hátt í 600 á gjörgæslu . „Eindregin tilmæli mín fyrir næstu vikur“ sagði Kurz, „eru að þið hittið engan! Sérhver félagstengsl eru einu um of. Því ákveðnar sem við fylgjum þeirri reglu, þeim mun betri árangurs er að vænta.“ (Der Spiegel, 14. nóv. sl.) Samkvæmt þessum fyrirmælum eiga menn að halda sig heima nótt sem nýtan dag nema brýna nauðsyn beri til, svo sem til að sækja vinnu eða kaupa nauðsynjar. Einnig grunnskólar og flestir leikskólar eru lokaðir nema fyrir fjarkennslu. Framlengingu á þessum stífu reglum þarf þó að bera undir aðalnefnd austurríska þingsins. – Þjóðverjar ræða um þessar mundir einnig hertar reglur, en nokkuð deildar meiningar eru milli fylkja landsins þar sem smit og ýmsar aðstæður eru ólíkar, og þess utan er öfgaflokkurinn AfD andvígur öllum takmörkunum.

Eyríkin ná að verjast betur

Það kemur ekki á óvart að mörg eyríki hafa náð að verjast veirusmiti betur en ríki inni á meginlöndum. Nýja-Sjáland vakti þegar í fyrstu bylgju faraldursins athygli fyrir lágar smittölur, fór hæst í 17 smit á 100 þús. íbúa í byrjun mars sl, enda stjórnvöld með markvissa stefnu um varnir á landamærum.  Nú er er stuðull Nýsjálendinga aðeins 1 smit. Ísland hefur líka birst jákvætt í þessu ljósi, síðast með 77 smit, tala sem síðan hefur væntanlega farið lækkandi. Kýpur hefur líka tekist að halda lágum smitstuðli lengst af, nú þó með stuðulinn 288,. – Japan er eyríki af stærri kvarða, en hefur þó einnig lengst af legið lágt í smiti, nú með stuðulinn 13, enda haldið uppi vissum vörnum á landamærum. Það kemur því mörgum á óvart að pólitísk forusta þar skuli fyrir skemmstu hafa látið undan þrýstingi Alþjóða ólympíunefndarinnar um að stefna á sumarleika í Tókíó í júlí 2021. Nýtur sú hugmynd takmarkaðs fylgis meðal almennings þar í landi, og má líka telja ósennilegt að aðstæður opni á slíkan atburð á næsta sumri. Það á raunar við um fleiri alþjóðleg íþróttamót, sem reynt er að halda til streitu.

Teflum ekki á tvær hættur

Jólafastan er nú skammt undan og jólin eru þegar til umræðu með skírskotun til hefðbundinnar jólahátíðar, kaupsýslu og fjölskyldusamkvæma. Í þessu efni er allur varinn góður og ástæða til að hafa í huga smitberann og varnir gegn honum hérlendis sem annars staðar. Hvernig væri að njóta skammdegis og sólhvarfa með hógværari hætti en tíðkast hefur, hver í sínum ranni, með góða bók og miðla við hendina til að tengjast vinum og ættingjum? Við höfum vanist því upp á síðkastið að kveðja látna úr fjarlægð og sama getur átt við um trúariðkanir og rækt við skyldmenni. Aðalatriðið er að byrja nýtt ár í sem bestri stöðu til að ná viðspyrnu á nýju ári. Bóluefni af mismunandi gerðum eru í burðarliðnum og við væntum þess að þau sanni sig þegar kemur fram á árið og sem flestir geti og vilji nýta sér þau. Allt tekur það ferli tíma og varlegt að ætla að þessari prófraun ljúki fyrr en kemur fram á árið 2022. Það á við um atvinnulíf eins og ferðaiðnað svo og dægrastyttingu.
 Festina lente – flýtum okkur hægt – er gamalt heilræði  sem á vel við í þeirri vandrötuðu framtíð sem bíður okkar.



Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim