Hjörleifur Guttormsson 25. júní 2020

Um öflun þekkingar og vörslu íslenskrar náttúru

Við erum stödd við upphaf sólmánaðar. Oft hefur verið þörf á framsýni en sjaldan eins og nú í miðjum faraldri sem herjar á flest byggð ból á heimilinu jörð.  Aðstæðurnar minna á  nauðsyn þess að hvert þjóðríki bregðist við af ábyrgð og raunsæi, en einnig að samvinna takist um lausnir á alþjóðavettvangi.  Aukin þekking á aðstæðum er sú uppskera sem mestu skiptir og miðlun hennar milli kynslóða, samhliða skipulegum viðbrögðum stjórnvalda og almennings. Á okkar ábyrgð sem þjóðar hvíla öðru fremur verndun landsins og  viðhald þjóðtungunnar. Markviss náttúruvernd er liður í því fyrrnefnda og því hljótum við að gleðjast yfir fréttum nú nýverið um friðlýsingu Goðafoss og Geysissvæðisins.  Slík einstök náttúrufyrirbæri eru hverjum manni augljós og auðskilin, en það sama verður ekki sagt um flókin og margþætt vistkerfi eins og ár og stöðuvötn og samspil þeirra við umhverfi sitt.

Aldarafmæli brautryðjanda

Fyrir fáum dögum, 18. júní, átti aldarafmæli Pétur M Jónasson, þekktastur íslenskra vatnalíffræðinga. Hann aflaði sér menntunar í Kaupmannahöfn um miðja síðustu öld og hefur verið búsettur þar síðan. Fáir hafa þó haldið eins virkum tengslum og hann við ættlandið og enginn miðlað jafn miklu um vistfræði íslenskra stöðuvatna í hálfa öld. Lærisveinar hans og samstarfsfólk, karlar jafnt sem konur, sem byggja á arfleifð hans skipta tugum ef ekki hudruðum. Á Pétri hefur sannast málshátturinn Hvað ungur nemur - gamall temur.  Í æsku dvaldi hann í tólf sumur hjá móðurforeldrum sínum  á Miðfelli í Þingvallasveit og hefur búið að þeim tengslum síðan. Vísindarannsóknir hans beindust í fyrstu að vötnum og ám í Danmörku, en árið 1971 leituðu íslensk stjórnvöld  til hans um að hafa forystu um kerfisbundnar rannsóknir á vistkerfi og umhverfi Mývatns. Gerðist það í kjölfarið á hörðum deilum um fyrrihugaða stórvirkjun í Laxá og miðlun úr Mývatni. Tóku þátt í þeim rannsóknum margir uppvaxandi vísindamenn. Afrakstur þessa starfs var setning löggjafar (nr. 36/1974, nú 97/2004) um friðun á vatnasviði Mývatns og Laxár og samkvæmt þeim var komið á fót Náttúrurannsóknastöð sem þar hefur starfað síðan. Um það leyti sem þessum rannsóknum lauk tóku við skipulegar rannsóknir Péturs og samstarfsmanna á Þingvallavatni, sem stóðu samfellt hátt í tvo áratugi. Birtust niðurstöðurnar í mikilli bók sem Pétur ritstýrði (Ecology of oligotrophic, subarctic Thingvallavatn. OIKOS 1992, 437 bls.) Þegar sú rannsóknalota hófst var Þingvallavatn enn óspart notað sem miðlunarlón fyrir Sogsvirkjanir, en niðurstöðurnar leiddu til samkomulags við Landsvirkjun um að halda vatnsborðinu sem næst stöðugu.

Af kynnum við Pétur M Jónasson

Sá sem þetta ritar átti því láni að fagna að kynnast Pétri  og mörgum samstarfsmönnum hans á áttunda áratugnum og lengi síðar. Á árinu 1970 voru stofnuð samtök um náttúruvernd nyrðra og eystra og Halldór Laxness kvaddi árið með grein sinni Hernaðurinn gegn landinu. Ný lög voru sett um náttúruvernd vorið 1971 og endurnýjað Náttúruverndarráð tók til starfa undir forystu Eysteins Jónssonar sem þá var jafnframt formaður Þingvallanefndar. Baráttan fyrir verndun Þjórsárvera, Mývatns og Laxár og Þingvallasvæðisins fékk þá þann bakstuðning sem skilaði miklu næsta áratuginn. Á árinu 1979 birtust heildstæðar niðurstöður Mývatnsrannsókna  Péturs M og samstarfsmanna (Ecology of eutropic subarctic Lake Mývatn and the river Laxá. Oikos 32, 1979, 308 bls.). Af því tilefni bauð undirritaður sem iðnaðarráðherra til kvöldverðar í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu með Pétur í heiðurssæti. Auk margra samstarfsmanna hans var viðstaddur sendiherra Danmerkur og þrír úr stjórn Landeigendafélags Mývatns og Laxár. Stóð fagnaðurinn fram yfir miðnætti, enda þurftu Mývetningar að halda nokkrar ræður og lýsa yfir ánægju með niðurstöður. Sagðist sendiherrann ekki hafa upplifað slíka stund eins og boðið þetta kvöld.

Þingvallamál í brennidepli

Nýkomið er út sérstakt þemahefti af Náttúrufræðingnum, tímariti Hins íslenska náttúrufræðifélags (1. hefti 90. árgangs 2020). Er það tileinkað Pétri M. Jónassyni og ber  heitið Þingvallavatn. Í því birtast okkur margar og ítarlegar greinar um rannsóknir á vistfræði vatnsins og umhverfi þess, byggðar á þeim grunni sem lagður var fyrir síðustu aldamót. Þar er hlutur Péturs rakinn í ágætri grein þriggja samstarfsmanna hans (Gísli Már Gíslason, Hilmar J. Malmquist og Sigurður S. Snorrason: Vatnavistfræðingurinn og frumkvöðullinn Pétur M. Jónasson, s. 36–47). Segir þar m.a.: „Samhliða vísindastarfi og útgáfu rita hefur Pétur unnið ötullega að verndun vatnavistkerfa sem hann hefur rannsakað. Það er Pétri öðrum fremur að þakka að bæði Mývatn og Laxá og Þingvallavatn eru vernduð með sérlögum sem koma eiga í veg fyrir að vistkerfin með hinum einstöku náttúruundrum sínum spillist af völdum manna.“ – Áhuga Péturs og þrautseigri baráttu hans fyrir verndun Þingvalla kynntist ég vel þau 12 ár sem ég átti sæti við þriðja mann í Þingvallanefnd 1980–1992. Á þeim tíma tókst að ganga frá fyrsta skipulagi fyrir þjóðgarðinn sem lagði grunninn að því sem síðar náðist fram 2004 með skráningu þjóðgarðsins á heimsminjaskrá UNESCO sem menningarminjar. Í grein Péturs í þemaheftinu (Þingvallavatn og Mývatn – gróðurvinjar á flekaskilum, s. 110–115) minnir hann á, að þótt enn hafi ekki tekist að tilnefna Þingvallvatn og vatnasviðið allt á heimsminjaskrána eins og stefnt hefur verið að frá árinu 2011, njóti búsvæði bleikjugerðanna fjögurra í vatninu og þar með vatnið allt sömu verndar og svæðið innan þjóðgarðsins.   

Heildstæð sýn til náttúruverndar

Einkennandi fyrir störf Péturs M Jónassonar umfram marga vísindamenn er fylgni hans við að koma þekkingu sinni á framfæri við þá sem ábyrgð bera á hvernig við skuli brugðist. Hann var árlegur gestur á vettvangi Alþingis fram yfir aldamót og reyndi að halda mönnum við efnið þegar Þingvellir áttu í hlut. Á hundraðasta aldursári minnir hann okkur landa sína á vanrækt viðfangsefni þegar helgistaðurinn Þingvellir á í hlut. Í þemahefti Náttúrufræðingsins segir hann m.a. (s. 114–115):

  • Stöðva (verður) niturmengun Þingvallavatns.
  • Stækka þarf þjóðgarðinn og friða Eldborgahraunið ...
  • Fara þarf að kröfum UNESCO um að fjarlægja barrtré og barrlundi úr þjóðgarðinum og halda áfram uppkaupum á sumarbústöðum í einkaign....
  • Senda formlega umsókn um skráningu náttúru Þingvallasvæðisins – þar með talið vatnasviðsins – á heimsminjaskrá UNESCO.

Nú reynir á vörslumenn íslenskrar náttúru að standa við gefin fyrirheit.



Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim