Hjörleifur Guttormsson 27. janúar 2020

Reynslan frá Neskaupstað 1974 skilaði sér seint og um síðir fyrir landið sem heild

Í kjölfar mannskæðu snjóflóðanna í Neskaupstað 20. desember 1974 setti bæjarstjórn kaupstaðarins á fót snjóflóðanefnd heimamanna sem starfaði á annað ár og skilaði af sér með ítarlegum tillögum árið 1976. Þar sagði m.a. eftirfarandi:

„Við skipulag byggðar gildi sú meginregla að byggja ekki hús til íbúðar eða atvinnureksturs á svæðum, sem talið er af sérfróðum aðilum að snjóflóð geti náð til. Verði allt land kaupstaðarins neðan við eðlileg byggðarmörk flokkað og kortlagt með tilliti til snjóflóðahættu eftir sama kerfi (rauð, blá, gul og hvít svæði) og tekið hefur verið upp víða erlendis í þessu skyni (Sviss, Noregur). Komi til álita að reisa hús á áður óbyggðum svæðum, sem snjóflóð gætu fallið á, verði það aðeins gert að vandlega athuguðu máli og að fengnum tillögum sérfróðra aðila um varnarvirki og hönnun mannvirkja. Alls ekki verði byrjað að byggja á slíkum svæðum fyrr en skipulag þeirra með tilliti til snjóflóðavarna hefur verið fullmótað og staðfest af réttum aðilum og afstaða tekin til byggingar varnarmannvirkja og fjármagn tryggt í því skyni.“

Nefndin fékk til sín sérfræðinga m.a. frá Sviss og Noregi. Hún skilaði af sér fyrstu tillögum um varnarvirki fyrir byggðina og ráðinn var sérstakur athugunarmaður vegna snjóflóðahættu. Bæjarstjórnin samþykkti niðurstöður nefndarinnar og tillögurnar voru framsendar til stjórnvalda og sérstakrar nefndar sem starfaði þá um tíma á vegum Rannsóknaráðs ríkisins.

Svifaseint kerfi og margir lokuðu augunum

Þetta er rifjað upp hér í kjölfar snjóflóðahrinunnar á Vestfjörðum nú í byrjun árs og þeirrar umræðu sem fram hefur farið um snjóflóðamál og brýnar aðgerðir. Sannleikurinn er sá að opinbera kerfið, Alþingi og skipulagsyfirvöld, tóku seint við sér og þegar mannskæð áföll dundu yfir í Súðavík og á Flateyri árið 1995 var eins og flestir væru enn á byrjunarreit, ekki síst sveitarstjórnir víða um land á þéttbýlisstöðum sem þó áttu sér langa snjóflóðasögu að baki. Það tók áratug frá áföllunum á Norðfirði að sett var, í framhaldi af þingsályktun frá Helga Seljan ofl.,  fyrsta löggjöfin nr. 28/1985 um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, og notað hugtakið ofanflóð um hvoru tveggja. Breytingartillögur við þá löggjöf komu fram á Alþingi í árslok 1994, röskum hálfum mánuði áður en ósköpin dundu yfir Súðavík 16. janúar 1995, en flóðin á Flateyri fylgdu í kjölfarið um haustið sama ár. Mér er minnisstæð þingumræðan um þessa stjórnartillögu 2. febrúar 1995, því að þá var eins og margir vöknuðu af værum blundi í kjölfar atburðanna í Súðavík. Í framhaldinu var síðan gerð endurskoðun á lögunum i heild og sett lög nr. 49/1997 sem síðan hafa gilt að stofni til með ýmsum breytingum. Það sama ár kom út hjá Veðurstofu Íslands ritið Snjóflóðasaga Neskaupstaðar eftir Svanbjörgu Helgu Haraldsdóttur og er það aðgengilegt á netinu (https://www.vedur.is/gogn/snjoflod/haettumat/ne/ne_annall.pdf). Samkvæmt lögunum fer umhverfisráðherra með yfirstjórn málaflokksins, Veðurstofan aflar gagna um snjóflóð og snjóflóðahættu, annast sérfræðiaðstoð við gerð hættumats sem sveitarstjórnir skulu hafa frumkvæði að og stýrt er af hættumatsnefnd á viðkomandi stað. Sérstakur ofanflóðasjóður í umsjá ofanflóðanefndar á síðan að sjá um fjárhagsþáttinn bæði vegna hættumats, byggingar varnarvirkja og kaupa á fasteignum. Í sjóðinn renna 0,3‰ af vátryggingarverðmæti allra brunatryggðra húseigna. Sjóðurinn, sem nú er mikið til umræðu, má greiða allt að 90% framkvæmdakostnaðar við gerð varnarvirkja og til kaupa á fasteignum í öryggisskyni.

Mikið áunnist en framkvæmdir ganga alltof hægt

Eftir miklar tafir á aðgerðum og andvaraleysi í skipulagsákvörðunum víða á hættusvæðum allt fram undir síðustu aldamót hefur mikið áunnist í þekkingu og vöktun á snjóflóðahættu, ekki síst innan Veðurstofu Íslands, varnarvirki verið reist á allmörgum stöðum og skilningur almennings á þörf aðgerða tekið stakkaskiptum. Eftir endurtekin áföll vegna snjóflóða nú nýverið er eðlilegt að gagnrýnt sé að fjársöfnun í ofanflóðasjóð til snjóflóðavarna hafi ekki  verið látin ganga til framkvæmda nema að takmörkuðu leyti. Margir eiga hér vissulega hlut að máli,  Alþingi sem fjárveitingavald, ríkisstjórnir sem flestir stjórnmálaflokkar hafa átt aðild að síðasta áratuginn og sveitarstjórnir og samtök þeirra sem ekki hafa haft uppi háværan eftirrekstur í fjölmiðlum. Það er vonandi að á þessu verði nú breyting og skipulega verði unnið að gerð varnarvirkja sem undirbúin hafa verið og annarra sem eru á undirbúningsstigi. Þótt eðlilegt sé að þéttbýl svæði hafi forgang má ekki gleyma snjóflóðahættu á umferðaræðum, skíðasvæðum og annars staðar þar sem fólki er stefnt saman. Snjóflóðahætta tengist sveiflum í veðurfari og gengur því yfir í hrinum. Þannig hagaði til um áratugi á öldinni sem leið, t.d. í meira en aldarþriðjung fyrir 1974, að engin stór mannskæð snjóflóð féllu hérlendis. Á sama hátt varð hlé á slíkum hamförum 1975-1983, en þá féllu tvö snjóflóð niður yfir þorpið á Patreksfirði og fórust í þeim fjórir. Næst féll 1994 snjóflóð í Tungudal við Ísafjörð og tók eitt mannslíf og laskaði um 40 sumarbústaði. Það var ári fyrir flóðin miklu í Súðavík og á Flateyri. Slíkar tímabundnar sveiflur mega ekki verða til þess að draga úr árvekni og fyrirbyggjandi aðgerðum, einnig með tilliti til langtímabreytinga í veðurfari. Það eru verstu aðstæður sem skapast á áratuga eða alda fresti sem mestum sköpum skipta.

Öryggi, umferð og vetraraðstæður

Rysjótt veðurfar það sem af er vetri hefur orðið mörgum dýrkeypt lexía. Ljóst er að flutningskerfi raforku er víða úrelt og alltof lengi hefur dregist að færa flutningslínur í jörð. Stóraukin umferð, m.a. vegna fjölgunar erlendra ferðamanna, birtist okkur í tíðum slysum á vegum við vetraraðstæður, að ekki sé talað um glæfraferðir á vegum ferðaþjónustuaðila inn á hálendið, eins og gerðist á Langjökli nú viku af janúar. Álag á björgunaraðila hefur margfaldast sem og á heilbrigðiskerfi sem var veikt fyrir. Ástæða er til að þessi þróun sé rædd og metin bæði af stjórnvöldum og almannasamtökum. Miklu varðar að skipulega sé horft fram á veginn af raunsæi og ábyrgð og þess gætt að taka mið af ytri aðstæðum í okkar annars frábæra landi.Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim