Hjörleifur Guttormsson 27. apríl 2020

Breytt og hófstillt efnahagskerfi taki við til frambúðar

Við lifum á óvenjulegum tímum. Loksins þegar það var að renna upp fyrir þorra fólks að taka yrði fyrir alvöru á hlýnun jarðar brast á drepsóttin sem nú geisar og engin mótefni hafa enn fundist gegn. Veiran sú hefur á einum ársfjórðungi breytt aðstæðum manna, jafnt einkalífi, atvinnulífi og viðskiptum. Horft til baka vekur furðu að slíkur atburður skuli hafa komið flestum í opna skjöldu aðeins öld eftir að Spænska veikin lagði um 50 milljónir manna að velli og veirusýkingar sem engin lyf voru tiltæk gegn hafa ítrekað stungið upp kollinum síðustu áratugi. Helsta skýringin er einsýni, þar sem hnattvædd viðskipti hafa orðið ráðandi í efnahagslífi og leiðandi öfl, jafnt á Vesturlöndum sem annars staðar skella skollaeyrum við öllu sem þar gæti verið til fyrirstöðu.

Kreppan er til að læra af henni

Viðbrögðin til að stemma stigu við veirufaraldrinum hafa í einu vetfangi kallað fram gjörbreyttar  aðstæður í atvinnurekstri og viðskiptum. Landamærum hefur verið lokað, framleiðsla stöðvast og  viðskipti lamast milli landa og heimshluta. Seðlabankar og ríkisstjórnir gerast ábyrgðaraðilar fyrir skyndilausnum, sem enginn getur sagt um hvert leiði eða hversu lengi verði þörf á. Kostnaður af slíkum ráðstöfunum mun skjótt vinda upp á sig. „Það skal lukka til að árið 2020 gangi ekki inn í sögubækur sem árið þar sem sveigjanleiki og frjáls markaður gaf upp öndina“ skrifar The Economist 10. apríl sl. (s.8). Rétt er að hafa í huga að veirufaraldurinn á eftir að geisa víða um heim út þetta ár eða lengur og á meðan verða hömlur á flestum sviðum, m.a. í ferðum milli landa. – Auðvitað er brýnt að  koma atvinnulífi sem víðast á réttan kjöl en áfallið og nýjan veruleika sem blasir við þarf að nota til umhugsunar og umræðu um hvernig fram skuli haldið í efnahagsstarfsemi hvers lands sem og alþjóðlega. Inn í það mat verður að taka reynsluna af veirusjúkdómum, en jafnframt og umfram allt að finna  nýjar leiðir til að ná tökum á ósjálfbæru efnahagskerfi, ekki síst í ljósi glímunnar framundan við loftslagsháskann. Þótt Ísland vegi ekki þungt á heimsvísu í því stóra dæmi verður hvert þjóðríki að axla sína ábyrgð. eitt eða í samvinnu við aðra.
Grunnfærin pólitísk umræða
Sá sem þetta skrifar telur sig í hópi þeirra sem fylgjast með samfélagsumræðu og fréttum og hefur raunar lagt við hlustir lengi, bæði hér á heimavettvangi og erlendis. Ekki vantar magnið og rásirnar sem hægt er að tengjast, en samt er það mín tilfinning að mikið skorti á að stjórnmálamenn, flokkar og hagsmunasamtök geri ljósa grein fyrir stefnu sinni og afstöðu. Hægri og vinstri ber vissulega áfram á góma en tengsl slíkra hugtaka við brýn samfélagsleg úrlausnarefni eru oft á huldu. Sjónvarp og snjallsímar gera yfirleitt út á stutt skilaboð, tími til útlistana og greiningar er liðinn. Twitter-innkoma Trumps er dæmigerð fyrir hinn nýja stíl og hentar vel fjölmiðlaumhverfinu. – Ný hugtök komast í tísku án þess merking þeirra sé skilgreind. Dæmi um það er „pópúlismi“ sem enga merkingu hefur nema þá sem skammaryrði.  Alþingi hefur með vissum hætti orðið fórnarlamb hinnar nýju orðræðu. Þar taka andsvör og fundarstjórn forseta upp sviðið í þeim mæli sem ég hygg að sé óþekkt á þingum annarra Norðurlanda. Þangað sótti forsætisnefnd Alþingis andsvaraformið sumarið 1991 í góðri trú. Hér hefur það breyst í andhverfu sína!

Piketty, auðmagn og hugmyndafræði

Andstæðan við grunnfærna umræðu birtist víða í verkum nútíma höfunda, sagnfræðinga eins og Ísraelsmannsins Yuval Noah Harari (f. 1976) og hagfræðinga á borð við Thomas Piketty (f. 1971). Tvær bækur þess síðarnefnda  Auðmagnið á 21. öldinni (Capital in the Twenty-First  Century, útg. á ensku 2014) og Auðmagn og hugmyndafræði (Capiltal and Ideology, útg. á ensku 2020) eru stórvirki sem vakið hafa heimsathygli fyrir innsæi og skarpa greiningu. Þetta eru miklir doðrantar, 700 til 1100 blaðsíður, en auðlesnar fyrir lesendur án sérfræðiþekkingar. Þótt Piketty sé hagfræðiprófessor rýnir hann af mikilli skarpskyggni í mannkynssöguna, m.a. stéttaskiptingu liðinna alda og sérréttindi yfirstéttanna. Niðurstöður hans um sívaxandi ójöfnuð í Bandaríkjunum og víðar í skjóli nýfrjálshyggju frá 1980 að telja eru nú almennt viðurkenndar. Greining hans og upplýsingar hafa verið drjúgt vegarnesti frambjóðenda demókrata í kosningabaráttunni vestra, þeirra Bernie Sanders og Elizabeth Warren. Heimafyrir í Frakklandi hefur Piketty gagnrýnt Macron forseta fyrir afslátt á sköttum milljónera, en á sama tíma niðurskurð til námsmanna og aldraðra. Í bókinni Auðmagn og hugmyndafræði segist hann vilja umorða þekkta skilgreiningu Karls Marx um stéttabaráttu sem kjarna samfélagsbaráttu, á þessa leið: Saga allra samfélaga hingað til er saga baráttu hugmynda og leitin að réttlæti. (The history of all hitherto existing societies is the history of the struggle of ideologies and the quest for justice. s. 1035). Í sérstökum kafla í síðarnefndu bókinn fjallar Piketty um stighækkandi skattlagningu á losun CO2 í glímunni við hlýnun jarðar (s. 1004). Fram kemur víða í ritum Pikettys, að hann lítur margt í þjóðarbúskap Norðurlanda jákvæðum augum og telur stjórnarskrárbundna aðild launamanna að stjórnum fyrirtækja í Þýskalandi jákvæða fyrirmynd. Framsetning Pikettys er hófsöm og vel rökstudd.

Maísólin mun senn rísa

Undangengnir vetrarmánuðir munu seint úr minni líða. Þeir lögðust yfir mikinn hluta landsins með óvenju miklu snjófargi og veðurofsa sem björgunarsveitir brugðust við af ósérhlífni. Við tók aðvífandi og áður óþekkt veirusótt með vaxandi þunga og óvissu hér sem annars staðar. Við þær óvæntu aðstæður hefur létt róðurinn aðdáunarvert teymi sérfróðra sem rataði á rétt vað og hefur náð að stilla saman strengi. Boðaðar aðgerði stjórnvalda og bærileg samstaða á Alþingi auðvelda framhaldið. Senn mun maísólin rísa. Notum vordagana til að safna kröftum andlega og líkamlega fyrir gönguna framundan. Í sumar ferðumst við um landið okkar, rifjum upp kynnin af dásemdum þess og könnum ókunna stigu.



Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim