Hjörleifur Guttormsson 27. október 2020

Pétur M Jónasson svipti hulunni af Mývatni og Þingvallavatni

Tíminn er afstæður, mælikvarði hvers og eins ólíkur og sveiflast frá degi til dags. Ef ekki væri klukkan og dagatalið ættum við erfitt með yfirsýn um liðna tíð. Á þetta erum við rækilega minnt á þessum COVID-tímum þar sem dregið hefur úr hraða daglegs lífs hjá mörgum. Á kvarða mannsævinnar eru 100 ár óratími, sem aðeins fáir ná að fylla upp í, og enn færri við góða og gjöfula heilsu og þrek til þátttöku í samfélaginu. Einn slíkur, Pétur M. Jónasson náttúrufræðingur, kvaddi nýverið. Hann var í vöggu þegar Spánska veikin geisaði hér 1918 en náði að lifa í heila öld og nokkrum dögum betur og skila óvenju ríkulegu ævistarfi til almenningsheilla sem vísindamaður. Ég varð þess aðnjótandi að kynnast Pétri og það voru stóru viðgangsefnin hans, Mývatn og Þingvallavatn ásamt umhverfi þeirra, sem voru tilefni tengsla og samfunda.

Aðkoma sem skipti sköpum

Aðkoma Péturs M. að vatnalífsrannsóknum við Mývatn 1971 skipti sköpum. Hann var þá að ljúka doktorsverkefni við Hafnarháskóla og gat því lagt á ný mið sem tengdust ættlandinu. Deilur höfðu þá staðið um hríð um fyrirhugaða stórvirkjun í Laxá sem og miðlunarframkvæmdir sem tengdust Mývatni til viðbótar við eldri stíflur. Náttúruverndarfólk mótmælti  og stofnað var Landeigendafélag Mývatns og Laxár til að vinna að verndun svæðisins. Þingeyingar tóku til sinna ráða og 25. ágúst 1970 var Miðkvíslarstífla sprengd. Til  að lægja öldurnar hétu yfirvöld rannsóknum og leituðu m.a. til vatnalíffræðideildar Hafnarháskóla sem óháðs aðila. Rannsóknirnar sem hófust 1971 sýndu fram á náið samhengi milli Mývatns og Laxár og leiddu vorið 1973 til samkomulags deiluaðila með aðild þáverandi ríkisstjórnar. Í framhaldi af því varð til frumvarp um verndun Mývatns og Laxár sem lögfest var vorið 1974. Náttúruverndarráð undir forystu Eysteins Jónssonar, en þar ég átti ég sæti þessi árin, studdi fast við verndaráætlunina, og í kjölfarið var stofnuð Rannsóknastöðin við Mývatn. Efnt var til vandaðrar útgáfu á ensku um rannsóknaniðurstöðurnar sem 10 höfundar stóðu að og kom ritið út 1979. (Pétur M. Jónasson, ritstj. 1979. Ecology og eutropic, subarctic Lake Mývatn and the River Laxá. Oikos 31) Svo vildi til að sá sem þetta ritar var þá iðnaðarráðherra og tók við eintaki úr hendi dr. Péturs við hátíðlega athöfn. Síðar varð til mikið rit um Mývatn á vegum Hins íslenska náttúrufræðifélags byggt á þessum og síðari rannsóknum (Náttúra Mývatns, 1991).

Rannsóknirnar á Þingvallavatni

Í kjölfar ákvarðandi niðurstöðu af rannsóknum við Mývatn sneri Eysteinn Jónsson þáverandi formaður Þingvallanefndar og Náttúruverndarráðs sér til Péturs M Jónassonar með ósk um hliðstæðar rannsóknir á Þingvallavatni. Staðan var um margt svipuð og við Mývatn, þar eð Landsvirkjun hafði byggt 27 MW Steingrímsstöð 1959 og notaði síðan Þingvallavatn til vatnsmiðlunar ofan stíflu við útrennsli í Sogið. Fylgdi miðluninni veruleg sveifla á vatnsyfirborði, sem m.a. birtist í hvítri rönd af dauðum þörungum allt í kringum vatnið og margháttuðum inngripum í vistkerfi þess, sem m.a. kom fram í rýrnandi veiði. Pétur hafði í heilan áratug forystu um víðtækar rannsóknir á Þingvallavatni og umhverfi þess og fékk til fjölda sérfróðra vísindamanna, innlend a og erlendra. Niðurstöðurnar leiddu í ljós að Þingvallvatn er einstakt í sinni röð, fátækt að köfnunarefni en óvenju gróskumikið og telur um 300 jurta- og dýrategundir, þar á meðal afbrigði sem hvergi finnast annars staðar. Í þeim hópi er heimsskautableikja af fjórum ólíkum gerðum sem þróast hafa frá lokum síðasta jökulskeiðs. Þekktust þeirra er murtan sem lifir á smákröbbum, mýflugum og lirfum. Heildstætt yfirlit um rannsóknirnar birtist í bókinni Thingvallavatn undir ritstjórn Péturs (OIKOS 1992, 436 bls.). Í nýútkomnu hefti Náttúrufræðingsins um Þingvallavatn (Nr 1, 2020) birtust okkur 12 greinar íslenskra vísindamanna sem hlut áttu að þessu mikla átaki.

Sterkar og rökstuddar aðvaranir

Pétur H. Jónasson var ekki vísindamaður í  fílabeinsturni. Um margt minnti hann mig á annan öldung: David Attenborough. Hann sat ekki á þekkingu sinni og reynslu, heldur miðlaði henni með sannfærandi hætti í ræðu og riti til annarra. Hann bjó að því að hafa alist upp sem unglingur í Miðfelli og gjörþekkti umhverfi vatnsins, náttúru og mannlíf. Þessu kynntist ég í fjölda samtala við hann og í ferðum af ýmsu tilefni, m.a. þau 12 ár sem ég átti sæti í Þingvallanefnd. Enginn á meiri þátt í því en Pétur að Þingvallaþjóðgarður og vatnið voru tekin á skrá Heimsminjaráðsins UNESCO um menningarminjar. Því fylgir ekki aðeins heiður heldur og skýrar skyldur. Í nefndu hefti Náttúrufræðingsins frá liðnu sumri varar hann sterklega við hættunni af niturmengun í Þingvallavatni frá frárennsli fjölda sumarbústaða, landbúnaði, barrskógum, ferðamönnum og umferð.  Hann segir niturmagn í vatninu hafa 25-faldast á tímabilinu 1980–2010 og ógni bæði bláma þess og tærleika. Virðingarleysi yfirvalda fyrir friðun þjóðgarðsins þótti honum afar dapurlegt um leið og hann tók undir kröfur UNESCO, m.a. um að öll barrtré verði fjarlægð úr þjóðgarðinum sem og sumarbústaðir, alls á sjötta hundrað talsins umhverfis vatnið, þar af eru enn 70 einkabústaðir í þjóðgarðinum sjálfum. Stækka þurfi þjóðgarðinn og m.a. friða Eldborgarhraunið, en þaðan koma 75% af innrennsli til vatnsins. 

Haustdýrð í þjóðgarði

Við hjón skruppum til Þingvalla snemma á góðviðrisdegi 10. október sl.. Slíkt væri ekki í frásögur færandi ef viðbrigðin frá síðustu heimsókn fyrir ári hefðu ekki reynst sláandi. Þá varð þar vart þverfótað fyrir mannmergð, en nú stóðum við ein á Hakinu við dagmál og nutum heillandi útsýnis. Haustlitir Þingvalla og Bláskógaheiðar taka flestu fram, að vísu aðeins teknir að dofna. Í hugann kemur stef úr ljóði HKL að lokinni hátíð 1930:

Sögulaus auðnin, ímynd allrar gnægðar,
andar á ný um skóginn dularbláan
og Þíngvöll. Það er aftur hún sem á hann
ósnortinn traðki þúsund ára frægðar.

Vinaskógur Vigdísar forseta sunnan Kárastaða skartaði í morgunsólinni, einvörðungu  skreyttur innlendum tegundum, sem og Lögberg og nú fölgrænir Vellirnir. Margt hefur verið vel gert í þessum þjóðgarði: Við þjónustumiðstöð og í Almannagjá, í þinghelginni og víðar. Gönguleiðin eftir Stekkjargjá að Öxarárfossi er smekklega klædd borðviði sem þolir marga fætur. Fólki fjölgaði er nær dró hádegi, ung hjón með börn og nesti, sem sóttu hingað upplifun og tilbreytingu á dögum COVID-veirunnar. – Við ókum veginn frá Leirum austur yfir Þingvallahraun og Hrafnagjá og nutum útsýnis frá þekkilegum áningarstað vestur yfir Þingvallavatn með Arnarfell og Miðfell í suðri. Þarna rifjuðum við upp kynnin af Pétri H. Jónassyni, þessum hógværa afreksmanni sem meir en nokkur annar hefur svipt hulunni af Mývatni og Þingvallavatni. Þrem dögum seinna lásum við í Morgunblaðinu um lát hans í mánaðarbyrjun. Tíminn er afstæður en minningin um vökulan eldhuga mun lifa lengi.

Rökstuddar aðvaranir Péturs um margháttaðar hættur sem steðja að Þingvallasvæðinu eru í fullu gildi.



Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim