Hjörleifur Guttormsson 28. september 2020

Þörf er á róttækum viðbrögðum vegna háskalegra umhverfisbreytinga

Kórónaveiran og afleiðingar hennar er að margra mati afleiðing sívaxandi ágengni mannsins á kostnað umhverfisins. Hún og hliðstæðar veirur eiga sér rætur í öðrum lífverutegundum og tengjast umhverfi sem er undir sívaxandi álagi mannsins. Tegund okkar hefur þrefaldast að höfðatölu á einum mannsaldri og mun að líkindum fjórfaldast miðað við næstu aldamót. Höfðatalan segir þó ekki allt, meira máli skiptir síaukið ósjálfbært álag manna á umhverfið, andrúmsloftið og ósnortna náttúru. Þar ganga á undan þeir sem höfðu nóg fyrir í hagkerfi sem stöðugt heimtar meira af umhverfinu og veldur því að eignir safnast á æ færri hendur. 

Stöðugt augljósari vísbendingar.

Þrír áratugir eru liðnir frá því Sameinuðu þjóðirnar lögðu grunninn að tveimur alþjóðsáttmálum sem varða umhverfisháskann: Samningnum um loftslagsbreytingar (Convention on Climate Change) og Samningnum um verndun líffræðilegrar fjölbreytni (Convention on biological Diversity). Sá fyrrnefndi kveður á um takmarkanir á losun CO2, fyrst af öllu hjá iðnvæddum ríkjum, sá síðarnefndi varðar lífríki jarðar sem heild. – Athygli vekja nýleg ummæli Sabine Gabrysch, prófessors í loftslagsfræðum í Berlín. Í grein í Die Zeit (27. ágúst 2020) undir fyrirsögninni Mit der Natur statt gegen sie (Með náttúrunni en ekki á móti) segir hún m.a.: „Eyðilegging náttúrulegra lífkerfa leiðir af sér skjótan samdrátt í fjölbreytni tegunda og eykur hættuna á að dýr beri veirur í menn.“

Litið til baka blasir við að markmiðum hvorugs ofangreindra sáttmála hefur verið fylgt eftir af þjóðríkjunum sem staðfestu þá, Ísland meðtalið. Hvað manngerðar loftslagsbreytingar áhrærir fékkst með Parísarsamþykktinni 2015  viðurkenning alþjóðasamfélagsins á hörmulegri stöðu þeirra samhliða fyrirheitum um  viðbrögð. Bandaríki Norður-Ameríku sem langstærsti mengunarvaldurinn miðað við höfðatölu, hélt sig hins vegar til hlés í París og Trump forseti hefur allt til þessa neitað að horfast í augu við loftslagsbreytingar af mannavöldum. Samkvæmt Parísarsamkomulaginu átti að ganga frá bindandi ramma þess fyrir lok þessa árs, en það hefur dregist vegna veirufaraldursins sem nú upptekur heimsbyggðina.

Skógareldar opna augu margra

Áhrif manngerðra loftslagsbreytinga verða æ sýnilegri með hverjum degi sem líður. Bráðnun og samdráttur jökla vegna hlýnunar er auðsær og því fylgir óhjákvæmilega hækkun sjávarborðs. Meiri athygli þessa stundina vekja þó óvenju miklir og geigvænlegir skógareldar, sem vegna langvarandi þurrka ógna þéttbýli og öðrum byggðum bólum í mörgum heimshlutum. Á liðnum vetri varð Ástralía fyrir mögnuðu eldhafi í grennd aðalþéttbýlis í suðausturhluta álfunnar. Í Rússlandi hafa gífurlegri eldar einkum geisað í austanverðri Síberíu, ekki síst norðan heimskautsbaugs þar sem afleiðingarnar magnast samhliða bráðnun sífrera. Í Brasilíu ganga stjórnvöld í síauknum mæli á regnskóga Amazónsvæðisins þar sem kveikt er í skóglendum til þess síðan að taka þær til ræktunar. Þessa stundina vekja gífurlegir eldar á fjölmörgum stöðum í vesturfylkjum Bandaríkjanna mesta athygli og áhyggjur samfara mikill loftmengun. Óvenjumargir brunar í Kaliforníu hafa undanfarið kviknað af eldingum í kjölfar hita og þurrka sem raktir eru til loftslagsbreytinga. Eru þær þó enn vægar miðað við það sem spáð er næstu ár og áratugi vegna áframhaldandi losunar gróðurhúslofts. Slík mengun magnast  við það að gengið er á skóglendin sem réttilega eru nefnd lungu jarðar.

Þjóðverjar ganga á undan í ESB

Þrátt fyrir veirufaraldur eru loftslagsmálin nú ofarlega á dagskrá í Þýskalandi, meira en gerist í flestum ríkjum Evrópusambandsins utan Norðurlanda. Þar gætir m.a. áhrifa Græningja og nú styttist í þingkosningar innan árs þar sem gert er ráð fyrir að Merkel láti af störfum sem kanslari eftir óvenju langan og litríkan feril. Miklar umræður eru nú um eftirmann hennar á kanslarastóli og í flokksforystu Kristilegra og skipa loftslagsmálin nú mikinn sess. Athygli vekur eindregin afstaða sumra framámanna CDU eins og Peter Altmaiers efnahagsráðherra, fyrrum ráðuneytisstjóra kanslarans. Í tímaritinu Der Spiegel  (nr. 39, 12. sept. 2020) var Altmaier spurður, hvort menn vegna veirufaraldursins hafi ekki misst sjónar á loftslagsmálunum: „Svo mætti oft halda“, svaraði hann. „En við verðum að nota tækifærið nú til að festa í sessi ferlið til að tryggja í síðasta lagi 2050  hlutlaust samfélag í loftslagsmálum. Loftslagsbreytingarnar eru miklu stærri áskorun en veirupestin. ... Markmiðin til að ná niður losun verða að vera bindandi því að breytingarnar láta ekki bíða eftir sér.“

Æ fleiri þýskir áhrifamenn á efnahagssviðinu vilja hér fast land undir fótum, en ráða því aðeins við verkefnið að næg græn orka og grænt vetni sé í boði í stað núverandi mengunarvalda.
CDU stendur nú vel í skoðanakönnunum og næstir á eftir koma Græningjar. Ekki er talið útilokað að þessir tveir flokkar nái saman um næstu ríkisstjórn Þýskalands innan árs. Athygli vekur jafnframt framganga van der Leyen sem er nýr formaður framkvæmdastjórnar ESB, en var þar til nýlega varnarmálaráðherra í stjórn Merkel. Leyen leggur þunga áherslu á loftslagsmálin, en óvíst er hins vegar um undirtektir ýmissa annarra forystumanna innan sambandsins.

Afstaða hvers og eins skiptir máli

Núverandi ríkisstjórn Íslands hefur sett sér brýn og róttæk markmið í loftslagsmálum og á fleiri sviðum umhverfismála. Miklu skiptir að við þau stefnumið verði staðið og á þeim skerpt í ljósi nýrrar og betri vitneskju. Í baráttunni gegn veirupestinni hefur margt verið vel gert af íslenskum sérfræðingum og stjórnvöldum og sú ógn mun ganga yfir. Jafnhliða þeirri baráttu þarf að undirbúa víðtækar aðgerðir á sviði atvinnu- og umhverfismála, þar sem þess verði gætt að hvorutveggja haldist í hendur. Ljóst er t.d. að ferðaiðnaður hér sem annars staðar þarf að taka breytingum til að dregið verði úr losun frá flugi sem og öðru. Væntanlega verður góð reynsla fjölda  Íslendinga sem ferðuðust um eigið land á liðnu sumri til þess að á því verði framhald. Þau sem nú eru ung eiga mest undir að vel takist til við að bægja frá aðsteðjandi ógnum. Án lífvænlegs umhverfis á mannkynið sér enga von um bjarta framtíð.



Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim