Hjörleifur Guttormsson 28. desember 2020

Um ofanflóðin á Seyðisfirði

Skriðuföllin á Seyðisfirði nú um miðjan desember voru hörmulegur atburður, þótt svo vel hafi atvikast að enginn fórst í þeim. Tjón á húseignum er hins vegar tilfinnanlegt og verður seint að fullu bætt. Ég samhryggist Seyðfirðingum og öðrum vegna þessa atburðar, sem skilur eftir sig sár sem lengi munu minna á sig, þótt reynt verði sem kostur er að fá þau til að gróa. Húseignirnar sem flóðin tóku með sér og löskuðu eða eyðilögðu voru hluti af sögulegu og aldargömlu húsasafni Seyðifjarðar, einstök menningarverðmæti sem mynduðu fágæta heild. Margt stendur að vísu eftir óraskað en sárið er tilfinnanlegt, fyrir utan eignatjón margra hlutaðeigandi. Einna sárast finnst mér að sjá á eftir fyrrum Vélsmiðju Seyðisfjarðar sem hýsti m.a. Tækniminjasafn Austurlands, einstaka menningarstofnun sem byggð hefur verið upp af alúð frá því á áttunda áratug liðinnar aldar. Safnið var gildur þáttur í þáverandi Safnastofnun Austurlands sem margir hlúðu að með Seyðfirðingum. Sitthvað stendur þó eftir og sárabót er að heyra að skápur með ljósmyndaefni safnsins er fundinn; vekur það vonir um að fleira komi í leitirnar á næstunni.

Sá sem þetta ritar á ríkulegar minningar um Seyðisfjörð frá öldinni sem leið, m.a. sem þingmaður Austurlands í tvo áratugi. Þangað kom ég fyrst sumarið 1941 þegar erlent herlið setti svip sinn á umhverfið. Upp úr 1970 vann ég að því með heimamönnum að leggja þar grunn að vörslu minja um fyrstu símstöð landsins frá árinu 1906, sem og um fyrstu riðstraumsrafstöð hérlendis þar sem er Fjarðarselsvirkjun frá árinu 1913. Um svipað leyti átti Safnastofnun Austurlands hlut að því með bæjarstjórn að fá Hörð Ágústsson arkitekt og listamann til að gera allsherjar húsakönnun á Seyðisfirði og skilaði hann niðurstöðum sínum í júní 1976. Að þeim minjum hefur síðan verið hlúð af fjölda einstaklinga og bæjarfélaginu. Ég er þess fullviss að heimamenn með aðstoð stjórnvalda gera sitt til að bæta sem kostur er það tjón sem orðið er á menningarverðmætum og ásýnd Seyðisfjarðar.

Hjörleifur Guttormsson

------------------------------------------

Fróðleiksefni um snjóflóð og skriðuföll á Seyðisfirði

(Úr  Árbók Ferðafélags Íslands 2005, s. 216, eftir Hjörleif Guttormsson)

Snjóflóð og skriðuföll á Seyðisfirði
Landfræðilegar aðstæður valda því að á Seyðisfirði er í senn mikil hætta á skriðuföllum og snjóflóðum. 13. janúar 1882 féllu krapaflóð úr mörgum giljum í Bjólfi á mismunandi tíma dags. Snjóflóð féll úr Hlaupgjá, sluppu úr því tveir ómeiddir en Hótel Ísland laskaðist. Seinna sama dag féll flóð utar úr Bjólfi á húsið Gamla-Baldurshaga; bárust fimm á sjó út og fórust þar tvö börn. Tveimur dögum síðar fannst barnslík rekið á fjöru utan við Neshjáleigu í Loðmundarfirði ásamt braki. Höfðu þá engar fréttir borist þangað af þessu slysi.  Atburður þessi varð til þess að hætt var við skólabyggingu sem byrjað var á við Héraðsveg skammt utan við Fjörð. Var samþykkt á almennum fundi á Fjarðaröldu 23. mars 1882 með 21 atkvæðum gegn 20 að hætta við að byggja á þessum stað. Var “Gamli skóli” síðan reistur við Öldugötu og tekinn í notkun haustið 1883 og stendur það hús enn. Snjóflóðið 1882 var forboði annarra og stærri tíðinda. Þremur árum síðar, 18. febrúar 1985 að morgni, féll eitt mannskæðasta snjóflóð sem vitað er um hérlendis úr Bjólfi utan við Fjarðaröldu. Umturnaði það á svipstundu 17 íbúðarhúsum þar sem bjuggu 80-90 manns og bárust 14 hús að einhverju leyti út á sjó. Alls fórust 24 en 12 slösuðust. Sigmundur Long, sem þá bjó í Fjarðarþorpi, skráði í dagbók sína þennan dag:

“18. feb. Öskudagur. ANA dimmveður með töluverðri snjókomu en litlu frosti. Í morgun klukkan átta dundu þau ódæmi hér yfir, að valla mun finnast dæmi um slíkt tjón á Íslandi af þeim orsökum með mannskaða og eignartjón, sprakk fram svokallaður Kálfabotn í efstu brúninni hér upp af, hljóp svo snjóflóðið úr öllu fjallinu inn að Jókugili (sem kallað er) og út fyrir svokallaða Hlaupagjá, svo stórkostlegt að jafnt fór yfir hryggina sem gilin og braut allt sem fyrir varð, og lenti ofan að neðri búð.”

Var breidd flóðsins neðst um 600 m. Hugsanlegt er talið að upptökin hafi verið í Bjólfstindi ofan við Brún. Annað flóð hljóp samdægurs utar úr Bjólfi í sjó fram innan við Fornastekk og snjóflóð tók þá tvö fiskihús í Selstaðavík utar með firðinum að norðan. 3. mars 1912 féllu á einum og sama degi mörg flekahlaup úr Bjólfi frá og með Jókugili út fyrir vöruskemmu Framtíðarinnar (Liverpool), mölbraut hana og fjárhús og bátar eyðilögðust. Ekki hefur orðið manntjón af völdum snjóflóða í kaupstaðnum síðan 1885 en oft munað mjóu, sérstaklega við síldarverksmiðju Hafsíldar, síðar Vestdalsmjöls, í Nautabási undir Bjólfi. Féllu ekki færri en 5 snjóflóð á mannvirki á verksmiðjusvæðinu þau ár sem verksmiðjan var í rekstri 1965-1995. Einnig hafa fallið snjóflóð á Fjarðarströnd og valdið tjóni á mannvirkjum.

Skriðuföll eru alltíð á Seyðisfirði og hafa oft valdið miklum usla, oftast í kjölfar mikilla rigninga. Frá 1882 [til 2004] hafa verið skráðir 15 aurskriðudagar við kaupstaðinn og er þekktur 31 skriðufarvegur ofan við byggðina, þar af 19 að sunnanverðu frá Strandartindi að Dagmálalæk og 12 í Bjólfi utan við Jókugil. Aðfaranótt 19. ágúst 1950 fórust fimm manns, kona og fjögur börn hennar, er skriða féll úr Þófagili á næst ysta íbúðarhúsið á Fjarðarströnd í kjölfar óhemju mikillar úrkomu. Víða féllu þá skriður í firðinum og fyllti ein þeirra þrær síldarbræðslunnar. Á síðustu árum hefur ítrekað orðið verulegt tjón af völdum skriðufalla, einkum á Búðareyri.

Á síðasta áratug (frá 1995) hafa farið fram umfangsmiklar rannsóknir á hættu af ofanflóðum í kaupstaðnum og viðbrögðum við henni. Hafa nú verið reist mikil varnarvirki vegna snjóflóða í Bjólfi.

(Heimildir: Ólafur Jónsson: Skriðuföll og snjóflóð I og II, 1957. Steinn Stefánsson: Skólasaga Seyðisfjarðar, Reykjavík 1989, s. 18-26.  Kristján Ágústsson: Snjóflóðasaga Seyðisfjarðar, Veðurstofa Íslands ÚR06, Reykjavík, mars 2002. Þorsteinn Sæmundsson og Halldór G. Pétursson: Mat á aurskriðu- og grjóthrunshættu við Seyðisfjarðarkaupstað, Veðurstofa Íslands ÚR02, Reykjavík, mars 1999. Mat á hættu vegna ofanflóða á Seyðisfirði, greinargerð með hættumatskorti. Hættumatsnefnd Seyðisfjarðarkaupstaðar, maí 2002)Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim