Hjörleifur Guttormsson 30. mars 2020

Lærdómar af veirufaraldrinum og verkefnin sem bíða

Þessa dagana verður mörgum af eldri kynslóð hugsað til Spænsku veikinnar svonefndu sem hér geisaði fyrir röskri öld. Hún var enn á vörum margra í minni æsku. Í dagbók sína á gamlársdag 1918 ritaði faðir minn, skógarvörður á Hallormsstað, eftir að hafa getið um helstu erlenda viðburði á árinu, svo sem lok heimsstyrjaldar.: „Þá hafa  einnig mikil tíðindi gerst hér á landi. Má fyrst nefna sambandslög Íslands og Danmerkur, sem gengu í gildi 1. des, og ákveða fullveldi landsins. Svo eldgosið í Kötlu í október og fram í nóvember. Hin skæða inflúensa sem kom til Rvk. frá útlöndum í byrjun nóv. og hefur breiðst út um allt vestur- og suðvesturland og drepið fjölda af fólki. Um 240 í Reykjavík. – Ýmislegt hefur því orðið erfitt á árinu og verður það lengi að gróa um heilt. Þá má nefna hinn afskaplega grasbrest um land allt. Meiri en elstu menn hjer muna.” Í Wikipedia stendur: “Allt athafnalíf lamaðist í Reykjavík. Talið er að 484 Íslendingar hafi látist úr spænsku veikinni, þar af 258 í Reykjavík. Þann 20. nóvember voru þeir sem létust í sóttinni jarðsettir í fjöldagrafreitum. Þá var veikin tekin að réna.“  –  Í ágætri grein Magnúsar Gottfreðssonar prófessors og sérfræðings í smitsjúkdómum um Spænsku veikina í Læknablaðinu (nr. 11 2008) kemur m.a. fram„Fyrir tilstuðlan heimamanna var komið á samgöngubanni yfir Holtavörðuheiði til norðurs og ferðalög austur yfir Jökulsá á Sólheimasandi voru bönnuð, en áin var enn óbrúuð. Þessar ráðstafanir urðu til þess að veikin barst hvorki til Norður- né Austurlands, en auk þess slapp hluti Vesturlands við veikina.“ Fram kemur þar einnig að í Reykjavík sýktust af Spænsku veikinni að minnsta kosti 63% íbúa og dánarhlutfall þeirra sem veiktust var nálægt 2,6%. Var það hlutfall hérlendis þá hæst meðal ungra barna, fólks á aldrinum 20-40 ára og aldraðra. Einnig urðu barnshafandi konur illa úti.

Margt er líkt með skyldum

Í grein sinni 2008 segir Magnús Gottfreðsson einnig að rannsóknir bendi til að veirustofninn frá 1918 hafi borist frá fuglum í menn þar sem hann aðlagaðist með stökkbreytingum. Af þessum sökum sé brýnt að fylgjast náið með þróun inflúensustofna. – Kórónaveirurnar sem COVID-19 tilheyrir eru af stórri veirufjölskyldu og valda ýmsum sjúkdómum hjá mönnum og dýrum, m.a.kvefi, en aðrar geta valdið alvarlegri lungnabólgu sem dregur menn til dauða. Dæmi um fyrri sjúkdómshrinur sem vitað er að voru af völdum kórónaveiru eru SARS-veiran sem barst frá Kína á árunum 2002–2003 og MERS í Mið-Austurlöndum á árinu 2012. Þær voru minna smitandi en inflúensa, en ollu faröldrum á ákveðnum svæðum og dánartíðni þeirra sem smituðust var há. – Enn annað dæmi er Svínaflensan svonefnda af stökkbreyttum H1N1-stofni sem fór allvíða á árinu 2009, einkum vestanhafs. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin brást þá hart við og gaf út 5. stigs viðvörun og hér á landi beitti Haraldur Briem þá sóttvarnarlæknir sér fyrir mjög ákveðnum varúðarráðstöfunum. Þannig náði þessi ófögnuður sér ekki á strik hérlendis auk þess sem til voru lyf sem talið var að gagnast gætu. – Víða, einkum í Asíulöndum, hefur lengi verið hefð fyrir að leggja sér til munns afurðir allskyns villtra dýra sem hýsa mismunandi veirur. Leðurblökur eru helst skrifaðar fyrir COVID-19, en einnig koma til greina hreisturdýr, en afurðir þeirra ganga ólöglega kaupum og sölum. – Tíðni og útbreiðsla stökkbreyttra veirufaraldra hefur aukist í seinni tíð af ýmsum samþættum ástæðum. Þar vegur þyngst hnattvæðing viðskipta, miklir fólksflutningar og samþjöppun manna í stórborgum.  

Mannkyn í hnattrænni neyðarstöðu

Yfirstandandi veirufaraldur opinberar brotalamir í kapítalísku efnahagskerfi sem hafa verið að magnast um langt skeið en ráðandi öfl hafa lokað augum fyrir. Þessa dagana rifja ýmsir upp aðvörunarorð framsýnna hugsuða sem fyrir áratugum bentu á kerfislægar og fjölþættar brotalamir. Dæmi um það er Kanadamaðurinn Thomas Homer-Dixon (f. 1956) sem þegar árið 2002 varaði við mörgum og margslungnum brotalömum. Í ræðu sem hann flutti við Georg Washington University undir heitinu Synchronous Failure: The real danger of the 21st Century, sagði hann m.a.: „Þau kerfi sem við nú búum við eru oft samtengd og hverju háð án þess við höfum hugmynd um það. Sameiginlegt einkenni þeirra er óstöðugleiki. ... Mannkynið er að minni hyggju í hnattrænni neyðarstöðu. Við stöndum frammi fyrir sívaxandi áhættu af samþættum brotalömum í okkar félagslegu, efnahagslegu og lífeðlisfræðilegu kerfum.“  Meðal þess sem Dixon tiltók voru fjármálakreppur, loftslagsbreytingar og nýir og óþekktir sjúkdómar. – Það vekur athygli að í núverandi ástandi reynast margir stjórnmálamenn viljugri en áður að leggja við hlustir og fylgja ráðum framsýnna vísindamanna og sérfróðra um viðbrögð við veirupestinni og þorri almennings leggst á sömu sveif. Þetta hefur nú m.a gerst í Þýskalandi þar sem samstaða náðist í fylkjunum 16 um róttækar takmarkanir á samskiptum manna til að draga úr smithættu.  Stóra spurningin er hvort slíkt hugarfar endist stundinni lengur eftir að þessi veira er gengin hjá.

Stærri áskoranir taka við

Á heildina litið eiga viðbrögðin við COVID-19 veirunni sér enga hliðstæðu. Eftir er að sjá hver eftirleikurinn verður, hvort heimsbyggðin nær saman um að draga lærdóma af reynslunni og nýta hana til lausnar öðrum og stærri viðfangsefnum eins og loftslagsvánni. Þar skiptir öllu máli að ofan á verði efnahagsstefna sem ýtir undir grænar lausnir á sem flestum sviðum til að draga úr losun gróðurhúsalofts og koma fótum undir allt aðra framleiðsluhætti og neyslu. Vel getur svo farið að ársfundi Loftslagssamningsins COP-26 verði frestað líkt og Ólympíuleikunum til að skapa þjóðum og leiðtogum þeirra andrými til að endurmeta stöðuna. Framtíðarlausnin þarf að fela í sér gerbreytta búskaparhætti frá því sem verið hefur til samræmis við burðarþol plánetu okkar og jöfnuð í stað sívaxandi misskiptingar.



Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim