Texti og mynd af heimasíðu Landverndar 1. júlí 2021

Hjörleifur Guttormsson – Heiðursfélagi Landverndar

Hjörleifur Guttormsson var kosinn heiðursfélagi Landverndar á aðalfundi samtakanna 12. júní 2021. 

Tillaga stjórnar að ákvörðun á aðalfundi Landverndar 2021
Aðalfundur Landverndar haldinn 12. júní 2021 samþykkir að gera Hjörleif Guttormsson að heiðursfélaga Landverndar.

Greinagerð

Í 16. gr. laga Landverndar segir að „aðalfundur getur kjörið heiðursfélaga samkvæmt tillögu frá stjórn Landverndar. Tillaga um slíkt kjör skal borin fram á aðalfundi og telst hún samþykkt ef 2/3 hlutar fundarmanna greiða henni atkvæði.“
Hjörleifur Guttormsson náttúrufræðingur og fyrrverandi ráðherra hefur í áratugi komið fram sem öflugur fulltrúi verndunar náttúru landsins og umhverfis. Þekking, elja og úthald einkenna störf hans sem fræðimanns, alþingismanns, ráðherra og náttúruverndarsinna. Hann er fremstur meðal jafningja á Íslandi í baráttu fyrir verndun umhverfis og náttúru.

Um náttúrufræðinginn og baráttumanninn Hjörleif Guttormsson.

Hjörleifur er fæddur á Hallormsstað 1935. Frá því að Hjörleifur kom heim frá háskólanámi í Þýskalandi árið 1963 hefur hann verið í forystu opinberrar umræðu um umhverfis- og náttúruvernd. Hann starfaði um tíma sem náttúrufræðingur á Austurlandi. Þar átti hann frumkvæði að því að stofna Náttúrugripasafnið í Neskaupsstað, Náttúruverndarsamtök Austurlands og árið 1972 fyrsta fólkvanginn á Íslandi, við Neskaupsstað.
Hjörleifur sat lengi í Náttúruverndarráði og var um árabil formaður nefndar sem stýrði uppbyggingu þjóðgarðsins í Skaftafelli. Í Þingvallanefnd átti hann sæti í 12 ár 1980-1992 og beitti sér þar fyrir fyrsta skipulagi um þjóðgarðinn á Þingvöllum.
Á Alþingi var Hjörleifur frumkvöðull við lagasmíð á sviði umhverfis- og náttúruverndarmála. Hann átti drjúgan þátt í gerð náttúruverndarlaga sem sett voru árið 1999 og bættu mjög stöðu náttúruverndar og styrktu almannarétt. Undir lok þingferils síns fékk hann samþykkta tillögu um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs.
Hjörleifur hefur fylgst með alþjóðlegri framvindu umhverfismála og komið hugmyndum sem þar koma fram á framfæri hér á landi. Hann sótti fyrsta þing Sameinuðu þjóðanna um umhverfismál í Stokkhólmi 1972. Hann sótti einnig ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun í Rio de Janeiro árið 1992 og um sjálfbæra þróun í Jóhannesarborg 2002.
Hjörleifur hefur hlotið fjölda viðurkenninga. Vorið 2002 hlaut hann viðurkenningu frjálsra félagasamtaka fyrir dýrmætt framlag til umhverfisverndar. Í umsögn dómnefndar sagði m.a.,,Hjörleifur hefur lagt sig fram um að kynna náttúru og umhverfi landsins. Hann hefur opnað augu almennings fyrir íslenskri náttúru og lagt sitt af mörkum til að fólk kynnist landssvæðum sem áður voru almenningi óþekkt.“
Hjörleifur hlaut 2019 minjaverndarviðurkenningu Minjastofnunar Íslands. Viðurkenningin er veitt aðila sem hefur skarað fram úr á einhvern hátt á sviði minjaverndar á Íslandi. Hann átti frumkvæðið að stofnun Safnastofnunar Austurlands árið 1972, sem voru regnhlífarsamtök safna á vegum sveitarstjórna á Austurlandi og var hann stjórnarformaður hennar fyrstu sex árin.
Hjörleifur var frumkvöðull þess árið 2004 að leita til dómsstóla vegna ágreinings um umhverfisvernd þegar hann stefndi Alcoa og umhverfis- og fjármálaráðherra vegna mats á umhverfisáhrifum álversins í Reyðarfirði og veitingu starfsleyfis.
Hann er höfundur margra bóka um umhverfismál, íslenska náttúru og sögu. Hann er m.a. höfundur átta árbóka Ferðafélags Íslands en þar var hann útnefndur heiðursfélagi árið 2017. Hann er einnig ágætur ljósmyndari og stóð árið 2006 fyrir sýningu á ljósmyndum sínum í Öskju í tilefni að sjötugsafmæli sínu. Eftir sýninguna færði hann myndirnar Lögverndarsjóði náttúru og umhverfis að gjöf til fjáröflunar.
Vegna þessa sem að framan greinir, og ekki er allt upp talið, þá telur stjórn Landverndar tímabært að Hjörleifur Guttormsson verði skipaður heiðursfélagi Landverndar og leggur því þessa tillögu fyrir aðalfund samtakanna 2021.            
Tillagan var samþykkt einróma.

 


Til baka | | Heim