Hjörleifur Guttormsson | 1. október 2021 |
Afdrifaríkt kjörtímabil framundan Kosningaúrslitin liggja fyrir og staðfesta öruggan stuðning við áframhaldandi stjórnarsamstarf flokkanna þriggja: Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri grænna. Mikinn þátt í þessari niðurstöðu á ótvírætt farsæl forysta Katrínar Jakobsdóttur sem forsætisráðherra. Breytingar á fylgi flokka voru á heildina litið minni en prósentutölur einar bera vott um. Góð útkoma Framsóknarflokksins og Flokks fólksins var eftirleikur af hruni Miðflokksins, sem nú er nánast úr sögunni. Sjálfstæðisflokkurinn heldur sínum styrk með um fjórðung atkvæða og keppinauturinn Viðreisn bætti litlu við sig. Verulegt tap Vinstri grænna um þrjú þingsæti frá kosningunum 2017 er minna en sýnist, þar eð 2 þingmenn gengu til fylgis við stjórnarandstöðuflokka og framboð Sósíalistaflokksins nú beindist ekki síst gegn VG. Útkoma Samfylkingar í stjórnarandstöðu með aðeins 9,9% fylgi sýnir lánleysi stefnu flokksins með aðild að Evrópusambandinu sem helsta baráttumál. Endurnýjað stjórnarsamstarf Eðlilegt er stjórnarflokkarnir beri sig nú saman um niðurstöðu kosninganna, reynsluna af sögulegu fjögurra ára samstarfi og ekki síst um framtíðarhorfur, þar sem stórar áskoranir bíða, hér eins og á heimsvísu. COVID-faraldurinn setti mark sitt á seinnihluta síðasta kjörtímabils og er engan veginn úr sögunni, þótt hér hafi fengist góð viðspyrna. Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru nú stærsta áskorunin og þar bíður Íslands og alls alþjóðasamfélagsins örlagaglíma af áður óþekktri vídd. Málefnasamningur flokkanna frá liðnu kjörtímabili kallar á uppfærslu og endurmat miðað við breyttar aðstæður og þar er af mörgu að taka, bæði inn á við og í alþjóðasamstarfi. Einhver breyting á skiptingu verkefna innan stjórnarráðsins verður eflaust rædd. Ísland hefur verið aðili að samningnum um EES síðan 1994 og honum hefur fylgt innleiðsla löggjafar frá Brussel á fjölmörgum sviðum, oft án viðhlítandi greiningar af hálfu Alþingis miðað við íslenskar aðstæður. Ör nýliðun kjörinna fulltrúa um langt skeið á þátt í andvara- og þekkingarleysi af hálfu þingheims á ýmsum lagaákvæðum sem tekin eru upp í íslenska löggjöf í nafni EES. Tekið skal undir sterk aðvörunarorð Arnar Þórs Jónssonar varaþingmanns Sjálfstæðisflokksins þetta varðandi, sbr. grein hans hér í Mbl. 28. sept. sl. Á sama hátt ætti að vera sjálfgefið að endurnýjuð ríkisstjórn dragi hið fyrsta formlega til baka löngu úrelta umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Loftslagsmálin og þörf fjölþættra aðgerða Lög um loftslagsmál voru sett af Alþingi árið 2012 (nr. 70/2012) og á grundvelli þeirra var árið 2019 bætt við ákvæðum um loftslagsráð sem veita skal stjórnvöldum aðhald og ráðgjöf um stefnumarkandi ákvarðanir og markmið Íslands í loftslagsmálum. Formaður ráðsins er Halldór Þorgeirsson og varaformaður Brynhildur Davíðsdóttir prófessor skipuð af umhverfisráðherra, en aðrir fulltrúar samkvæmt tilnefningum ýmissa aðila til fjögurra ára í senn. Halldór hafði áður um langt árabil unnið á þessu sviði, m.a. sem yfirmaður stefnumörkunar hjá Loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna þar sem hann frá 2015 hélt utan um samþykktir varðandi Parísarsamninginn. Það var þannig mikill fengur að fá hann til forystu í ráðinu á þessu fyrsta skeiði þess . Ráðið setti í fyrra fram aðgerðaáætlun í 48 liðum og skilaði nú ári síðar fyrstu stöðuskýrslu og er vinna að meira en helmingi aðgerða sögð vera komin á framkvæmdastig. Með þessu ætti að vera lagður góður grunnur til aðgerða, en framhaldið er margslungið og mest komið undir stefnu stjórnvalda og þátttöku af hálfu fjölmargra hagsmunaaðila og almennings. – Árlegur alþjóðafundur aðildarríkja Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna – COP-26 – í Glasgow eftir fáeinar vikur verður afar afdrifaríkur og þar þarf ríkisstjórn Íslands að geta kynnt skynsöm og metnaðarfull áform af sinni hálfu Gróðurríki Íslands – vistvæn uppgræðsla Í áætlunum um aðgerðir af Íslands hálfu til bindingar gróðurhúslofts eru endurheimt votlendis og aukin „skógrækt“ fyrirferðarmiklar. Hið fyrrnefnda felur í sér átak til að fylla í framræsluskurði frá liðinni tíð, aðgerð sem naut mikils opinbers stuðnings á liðinni öld. Undir merkjum skógræktar er nú fetuð svipuð slóð, að verulegu leyti með gróðursetningu innfluttra tegunda og án heildstæðs mats á afleiðingum þeirrar stefnu. – Síðastliðinn þriðjudag, 28. september, birtist hér í Morgunblaðinu grein eftir tvo landsþekkta fyrrum starfsmenn Landgræðslu ríkisins undir fyrirsögninni „Er ekki löngu tímabært að stöðva gróðursetningu stafafuru hér á landi? Þeir benda réttilega á að stafafura, sitkagreni og fleiri innfluttar trjátegundir séu „farnar að sá sér af miklu afli út frá skógarreitum“ og séu augljóslega ágengar samkvæmt alþjóðlegri skilgreiningu. Þetta er sannarlega þarfleg viðvörun, sem margir hafa áður komið á framfæri og ætti í raun að gilda sem forsenda fyrir innflutningi tegunda í íslenskt gróðurríki, trjátegundir sem og aðrar. Landgræðslan stóð lengi fyrir dreifingu alaskalúpínu hérlendis sem hefur reynst vera afar ágeng planta sem þegar hefur breytt svipmóti og lífríki stórra svæða hérlendis. Það er góðra gjalda vert að ofangreindir fyrrum starfsmenn Landgræðslunnar hafa áttað sig á afleiðingum þess afdrifaríka handahófs. Nú verða stjórnvöld, umhverfisráðuneyti með stuðningi Loftslagsráðs, Náttúrufræðistofnunar og Landgræðslu, að stöðva það handahófs flan sem Skógræktin sem ríkisstofnun hefur of lengi staðið fyrir, oft þvert á alþjóðlegar viðmiðanir og reynslu. Unga fólkið, menntun og menning Sú hraðfara þróun mannlífs og umhverfis sem við nú erum vitni að snertir vissulega öll aldursstig en varðar mestu fyrir unga og óborna. Það er fólkið sem á eftir að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga og á mest undir því komið að framsýni ráði för. Staða og þróun skólakerfisins skiptir ótvírætt meira máli nú en áður og því þarf að leggja við það aukna rækt. Það sama á við um rætur okkar í íslenskri menningu og fjölþjóðlega sýn til samskipta og þróunar. Ég tel þörf á að endurmeta stöðu og styrk þessara þátta í stjórnkerfinu, hugsanlega með endurskipan núverandi ráðuneytis menntamála. Af nógu er þannig að taka fyrir flokka og þá liðsmenn sem kjósendur hafa treyst til áframhaldandi forystu og eins hina sem veita þurfa lýðræðislegt aðhald. Hjörleifur Guttormsson |