Hjörleifur Guttormsson | 2. febrúar 2021 |
Risaveldið í vestri og norrænar smáþjóðir á óvissutímum Það hefur ekki skort á tilbreytingu nú í þorrabyrjun. Venjulega var janúarmánuður heldur sagnafár, en nú hafa streymt inn stórfréttir nánast dag hvern og bortist inn með fréttaflaumnum af kórónuveirunni sem átt hefur sviðið í heilt ár. Kosningaúrslitin í Bandaríkjunum með naumum sigri Bidens yfir Trump, þótt naumur væri, voru auðvitað stórfrétt og margir anda léttar. Vilji nýkjörins forseta til að endurnýja á elleftu stundu Start samninginn við Rússa um takmörkun á fjölda kjarnavopna í viðbragðsstöðu og þátttaka Bandaríkjanna á ný í Parísarsamkomulaginu eru fagnaðarefni. En aðdragandinn með árásinni á þinghúsið i Washington nokkrum sólarhringum fyrir kjördag opinberaði alheimi aðstæður í bandarísku samfélagi sem aðeins glöggskyggnum komu ekki á óvart. Veruleikinn sem þar blasti við sýnir hvað við er að fást fyrir nýja valdhafa og hlýtur að valda umheiminum miklum áhyggjum, ekki síst þeim sem lagt hafa allt sitt traust á Bandaríkin sem herveldi og brjóstvörn lýðræðis. Orð Ólafs Ragnars og Styrmis Að morgni sunnudagsins 17. janúar, örfáum dögum áður en úrslit réðust í forsetakosningunum vestra, var Ólafur Ragnar Grímsson fyrrum forseti gestur í viðtalsþætti Þrastar Helgasonar. Þar voru aðstæður í bandarísku samfélagi í kjölfar árásar stuðningsmanna Trumps á Capitol þinghúsið 6. janúar sl. eitt helsta umræðuefnið. Ólafur rakti þar fyrir hlustendum náin kynni sín fyrr og síðar af bandarískum þingmönnum og ráðamönnum og lagði mat á stöðu og horfur í bandarísku samfélagi. Sú mynd sem hann dró upp var í senn áhugaverð og skýr en dökk til framtíðar litið. Spurður um hvort Bandaríkin geti framvegis talist forystuþjóð lýðræðis í heiminum svaraði Ólafur m.a. þannig: „Ég hef verið þeirrar skoðunar í nokkur ár að innri vandamál Bandaríkjanna væru orðin svo djúpstæð, þessi margþætti klofningur þjóðarinnar, að það yrði ærið verkefni, í raun og veru aðalverkefni þjóðarinnar og forystusveitarinnar , ekki bara á næstu árum, heldur jafnvel næstu áratugum að reyna að græða þau sár ... hún mun eiga mjög erfitt með að gera tiltall til þess að hafa þannig forystu á heimsvísu að önnur ríki eigi að fylgja fordæmi þeirra.“ Og sem fyrrum stjórnmálafræðingur taldi hann að samfélag sem er orðið svo margklofið eins og hið bandaríska eigi mjög erfitt með að ná einhverri samstöðu. Trump hafi í raun sýnt okkur þennan veruleika sem margir fyrri forsetar hafi verið flinkir við að fela. ‒ Í Morgunblaðinu 23. janúar (bls. 26) fjallar síðan Styrmir Gunnarsson um valdaskiptin vestra og andstæður og veikleika í bandarískri samfélagsgerð sem veiki þar lýðræðislega stjórnarhætti. „Ríka fólkið í Bandaríkjunum lokar sig svo af í hverfum sem eru raunverulega lokuð, og lætur sem það viti ekki af hinum.“ Þessar áhyggjur Styrmis eru réttmætar, en sá sem þetta skrifar tekur hins vegar ekki undir þá staðhæfingu hans að „í raun og veru höfum við getað verið til sem sjálfstæð þjóð vegna þess að við höfum notið verndar Bandaríkjamanna í viðsjárverðum heimi.“ Ísland, Grænland og norðrið Ágreiningur er nú sem fyrr um ýmsa þætti í íslenskri utanríkisstefnu, sem ekki er óeðlilegt. Það á meðal annars við um samskipti og samninga við aðrar þjóðir og bandalög. En það er einnig samhljómur um ýmsa mikilvæga þætti eins og Norðurlandasamstarfið og nú einnig um Norðurmálefni eða Arktís, eins og tíðkað er að nefna það svið. Það var vel til fundið hjá Guðlaugi Þór utanríkisráðherra 2019 með stuðningi starfsbræðra sinna að fela Birni Bjarnasyni að efna í skýrslu um utanríkis- og öryggismálastefnu. Hann skilaði því verki á liðnu ári og vakti skýrslan talsverða athygli, amk á norrænum vettvangi. Nýverið bættist síðan við skýrsla utanríkisráðuneytisins um Samstarf Grænlands og Íslands á nýjum Norðurslóðum, afurð þriggja manna nefnar undir formennsku Össurar Skarphéðinssonar. Hefur nefndin unnið mikið starf á tæpum tveimur árum, safnað ókjörum upplýsinga og sett fram marga kosti um aukið samstarf þessara grannþjóða. Í viðtali við Morgunblaðið 21. janúar sl. vekur Össur athygli á fjölmörgum möguleikum landanna til aukins samstarfs samhliða því sem Grænlendingar sækja fram til sjálfstæðis frá Dönum. Hann bendir réttilega á samleið þessara nágranna á sviði sjávarútvegs og ferðaþjónustu, en jafnframt á þær fágætu jarðefnaauðlindir sem leynast í grænlenskri lögsögu, bæði á landi og í hafsbotni. Gott var að heyra það mat hans að Grænlendingar búi við stranga umhverfislöggjöf og umhverfisvitund sé þar sterk. ‒ Sá sem þetta skrifar hefur lengi haft áhuga á málefnum Norðurskautsins og flutti um þau efni ýmsar tillögur, bæði á Alþingi og í Norðurlandaráði fyrir síðustu aldamót. Einn ávöxtur af því var Stofnun Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri, sem ásamt háskólanum nyrðra mætti fá meira hlutverk og fjárráð en hingað til. Í tillögu sem ég flutti ásamt fleirum 1994 (139. mál á 118. þingi) sagði í lok greinargerðar: „Nú um skeið hafa forráðamenn þjóða í norðanverðri Evrópu litið mest í suðurátt og eru Íslendingar í þeim hópi. Mál er að horfa til fleiri átta og þar er norðrið nærtækt og örlagavaldur í lífi þjóðarinnar fyrr og síðar. Brýnt er að efla þekkingu okkar á norðurslóðum til að geta stuðlað að sjálfbærri þróun á þessu svæði sem miklu varðar um afkomu Íslendinga.“ Veiran reynir enn á þolrifin Þessa dagana líta margir til baka á heilt ár í skugga COVID19-veirunnar. Enn er þessi vágestur að koma mönnum á óvart með breytingum sem framlengt geta glímuna við hann. Flestir halda í vonina um bóluefni sem fært geti mannlíf sem fyrst í viðunandi horf á ný. Rétt er þó að hafa varann á og hlusta á aðvaranir færustu vísindamanna. Einn þeirra, Christian Drosten forstöðumaður veirustofnunarinnar við Charité í Berlín (f. 1972) segir nú fulljóst, að breska veiruafbrigðið sé allt að þriðjungi smitsæknara en upphaflega veiran. Því fylgi stóraukin smithætta sem kalli á hertar aðgerðir til varnar. Það er m.a. í ljósi þessa að flestar Evrópuþjóðir eru að grípa til enn hertra aðgerða. ‒ Við Íslendingar höfum náð aðdáanlegri sérstöðu nú um stundir með einörðum aðgerðum Þríeykisins og aðstoð Íslenskrar erfðagreiningar sem og stuðningi almennings við stefnu stjórnvalda. Ísland sem eyland skiptir hér sköpum og sú skimun á landamærum sem upp var tekin. Verum undir það búin að lengri tíma en margur heldur kunni að taka að ná hjarðónæmi með bólusetningu og fylgjum áfram ráðum þeirra sem skilað hafa þjóðinni þeirri sérstöðu sem nú vekur alheimsathygli. Hjörleifur Guttormsson |