Hjörleifur Guttormsson | 3. ágúst 2021 |
Loftslagsógnin vex hröðum skrefum Löngum hefur mönnum þótt þeir lifa á óvenjulegum tímum en sjaldan hefur það þó verið í líkingu við það sem mannkynið sem heild stendur nú frammi fyrir. Veiran sem nú upptekur fjölmiðlaumræðuna og hugi flestra, er hreinir smámunir miðað við þá brekku loftslagsógna sem framundan er. Aðdragandinn er langur ef grannt er skoðað: Manngerð breyting andrúmsloftsins hefur gerst allt frá upphafi iðnbyltingar, augljós þeim sem höfðu augun opin fyrir hálfri öld eða fyrr (Vistkreppa eða náttúruvernd. Mál og menning 1974, s. 26–30). Þrátt fyrir fögur fyrirheit með Parísarsamkomulaginu 2015 hefur vandinn vaxið síðan hröðum skrefum og mörg hamfaramet verið slegin. Skógareldar svíða landflæmi í öllum heimsálfum, hitamet eru hvarvetna slegin með allt að 54oC að hámarki í Norður-Ameríku, yfir 40% af yfirborði íshellu Grænlands eru að þiðna og freðmýrarnar gefa ört eftir. Sökudólgurinn er hömlulaus iðnvæðing með jarðefnaeldsneyti, alþjóðavæðing viðskipta og eyðing óbrotinnar náttúru samhliða margföldun á íbúafjölda jarðar. Þjóðverjar vakna við vondan draum Flóðin miklu með skriðuföllum og manntjóni í vestanverðu Þýskalandi fyrir fáum vikum vöktu þarlenda af vondum draumi. Í þessu háþróaðasta landi Mið-Evrópu spyrja menn sig nú stuttu fyrir kosningar hvernig í ósköpunum gat þetta gerst? Vikuritið Der Spiegel segir í forystugrein 24. júlí sl. undir fyrirsögninni „Endalok öryggis“ (Das Ende der Sicherheit): „Í veröld sem í fyrirsjáanlegri framtíð verður aldrei jafn örugg og við vorum vön, er verst að skella skollaeyrum við óörygginu. Jafnvel besta löggæsla mun ekki vernda okkur fyrir afleiðingum loftslagsbreytinganna.“ Og vikuritið Die Zeit ályktar í leiðara á forsíðu 22. júlí: „Það er enga vörn að hafa nema við breytum fyrir alvöru náttúrueyðandi efnahags- og neyslustefnu okkar. ... Við verðum að breyta lífsháttum okkar: Vínyrkju, bílaumferð, umróti og eyðingu tegunda, landbúnaði, neysluháttum, húsbyggingum og mörgu öðru.“ Loftslagsbreytingarnar og viðbrögð við þeim munu setja mark sitt á kosningabaráttu næstu vikna í Þýskalandi og enduróma jafnframt innan Evrópusambandsins. Svifasein og óviss stefnumörkun Á ársfundi loftslagssamningsins COP-26 í Glasgow mun í nóvember næstkomandi reyna á samkomulag um leikreglur varðandi losun og bindingu. Mörg ríki hafa að undanförnu gefið út yfirlýsingar um róttæka stefnu til að draga úr losun CO2 á komandi árum. Hvort þær skili sér í reynd er óvíst og háð samfélagsbreytingum eigi að takast að ná yfirlýstum markmiðum frá París 2015. Spurningin snýst ekki einvörðungu um útrýmingu kola og olíu sem orkugjafa heldur einnig og ekki síður um gjörbreytta landnotkun og umgengni við náttúruleg vistkerfi frá því sem nú er. Ágangurinn á lítt snortin vistkerfi hefur verið gegndarlaus og heldur áfram með vaxandi þunga. Dæmi um það er Amasón-skóglendið sem hefur þegar rýrnað til muna og kóralrif eru á hröðu undanhaldi og munu hverfa við hækkun meðalhita að 3oC. Röskun náttúrulegra skóglenda á meginlandi Evrópu er hörmungasaga og af henni ættum við Íslendingar að læra þegar áhersla er nú m.a. lögð á bindingu gróðurhúsalofts með skógrækt. Þar ættu náttúrulegir birkiskógar að njóta forgangs. Fátækleg umræða hérlendis Umræða hérlendis um loftslagsbreytingar hefur lengi verið afar takmörkuð, ekki síst á vettvangi stjórnmálaflokka og Alþingis. Flestir flokkar taka að vísu í orði undir að hamla þurfi gegn hlýnun andrúmsloftsins en þegar til kastanna kemur um hlut Íslands er fátt um svör hjá flestum. Sannleikurinn er sá að við Íslendingar erum með einna hæsta losun gróðurhúsalofts á mann í Evrópu og afar hægt gengur að ná henni niður. Gróðurríki landsins er víða í tötrum eftir rányrkju um aldir. Enn viðgengst ofbeit sauðfjár og hrossa á stórum svæðum og orkuyfirvöld úthluta á færibandi rannsóknaleyfum til virkjana undir 10 megavöttum að afli. Þessu tengist nýleg þátttaka Íslands á orkupakka ESB nr. 3, en með henni hafa þýðingarmiklar ákvarðanir í orkumálum verið framseldar til ESB og yfirþjóðlegra stofnana á þess vegum. Það mál varðar ekki síst náttúru- og umhverfisvernd, og allt er í óvissu um framhald og afleiðingar þeirrar stefnu. Bæta þarf náttúrufræðikennslu Náttúrufræðikennsla hefur lengi verið hornreka í íslensku skólakerfi, og endurspeglast það með áberandi hætti í málflutningi margra fullorðinna, þar á meðal kjörinna fulltrúa og sérfræðinga. Afar brýnt er að hér verði breyting á, ekki síst til að efla skilning á áhrifum loftslagsbreytinga og viðbrögðum við þeim. Þar þarf æskufólk að öðlast sem besta innsýn á grunnskólastigi, einnig með skipulegum ferðum á vegum skólanna út í íslenska náttúru. Þetta eru þær kynslóðir sem takast þurfa á við nýar og afar erfiðar áskoranir af völdum loftslagsbreytinga. Traust menntun kennara á þessu sviði er að sjálfsögðu undirstöðuatriði. Gífurleg áhrif á norðurslóðir Áhrif loftslagsbreytinga af mannavöldum verða einna mest á norðlægum slóðum, í Norður-Íshafi og löndunum umhverfis. Þannig er talið að hlýnun verði þar allt að tvöfalt meiri en annars staðar, meðalhækkun hitastigs um 3–5oC á landi og enn meira í sjó. Jöklar hérlendis munu að mestu hverfa hér á landi næstu tvær aldirnar, ef fram heldur sem horfir, og bráðnun Grænlandsjökuls og Suðurskautsjökla valda mikilli hækkun sjávarborðs. Jafnframt má búast við miklum veðurfarsbreytingum með aukinni úrkomu og stormum. Við þetta bætist súrnun sjávar með tilheyrandi áhrif á lífríki, þar á meðal fiskistofna. Þessar aðstæður gera það einboðið að við Íslendingar leggjum okkar lóð á vogaskálina til að draga sem verða má úr loftslagsvánni. Hér duga engin vettlingatök. Hjörleifur Guttormsson |