Hjörleifur Guttormsson | 8. september 2021 |
Hjörleifur Guttormsson heiðraður af NAUST
Viðurkenningin var afhent á aðalfundi samtakanna sem haldinn var á Hallormsstað, en þar fæddist Hjörleifur árið 1935. Hann lauk síðar prófi í líffræði frá háskólanum í Leipzig í Þýskalandi. Hjörleifur kom heim að loknu námi og fékk vinnu í Neskaupstað. Hann kenndi þar meðal annars um áratug áður en hann settist á þing árið 1978. Hjörleifur hefur alla tíð sýnt mikinn áhuga á náttúruvernd, kom meðal annars að undirbúningi Náttúrugripasafns í Neskaupstað og veitti því forstöðu um tíma. Hann kom einnig að stofnun Náttúruverndarsamtaka Austurlands árið 1970 og varð fyrsti formaður þeirra, embætti sem hann gegndi í áratug. Hjörleifur hefur verið atorkusamur í fræðistörfum og eftir hann liggur fjöldi greina og rita á sviði náttúru- og minjaverndar. Ber þar helst að telja árbækur Ferðafélags Íslands þar sem Hjörleifur hefur einkum skrifað um Austurland. Hann er enn að og af nýlegum verkum hans má nefna sögureit á Valþjófsstað sem vígður var fyrir rúmri viku og skrif og hugmyndavinna á Úthéraði. „Hjörleifur er enn að störfum senn orðinn 86 ára gamall og það er nánast með ólíkindum hversu afkastamikill hann er enn þar sem hann er hvorutveggja í miðju kafi við náttúru- og eða minjaverndarverkefni og öll eru þessi verk unninn í þágu samfélagana allt í kringum landið og þá ekki síst á Austurlandi með hagsmuni komandi kynslóða að leiðarljósi,“ sagði Andrés Skúlason, fráfarandi formaður NAUST við afhendinguna á laugardag. Andrés lét af störfum á fundinum og er Kristín Amalía Atladóttir nýr formaður. Dagskrá fundarins bar meðal annars keim af því að samtökin urðu 50 ára í fyrra og voru flutt fræðsluerindi af því tilefni, sem ekki náðist að gera vegna samkomutakmarkana í fyrra. |