Hjörleifur Guttormsson 13. september 2021

VG er lykillinn að myndun farsællar ríkisstjórnar.

Allt frá árinu 1956 hefur sá sem þetta ritar kosið 20 sinnum til Alþingis. Flestar þessara kosninga eru mér minnisstæðar, enda lykilviðburðir í stjórnmálasögunni hverju sinni. Lengst af þessu tímabili eða fram til síðustu aldamóta voru framboðin til þings fjögur eða fimm talsins, en hefur síðan farið fjölgandi og nú hafa kjósendur um tíu slík að velja, sem bjóða fram lista í öllum kjördæmum. Að ríkisstjórnum  á þessu tímabili hafa staðið 2 eða 3 stjórnmálaflokkar, en aðeins í um helmingi tilvika hefur samstarf þeirra endst í heilt kjörtímabil og þá oftast í ríkisstjórnum tveggja flokka. Núverandi þriggja flokka ríkisstjórn sker sig úr með því að endast allt til loka. Hér verður litið tólf ár til baka og spáð í samstarfshorfurnar eftir að úrslit liggja fyrir innan skamms.

Ríkisstjórnarsamstarfið 2009-2013

Samstarf Samfylkingar og Vinstri grænna í heilt kjörtímabil í kjölfar hrunsins 2008 hefur fengið afar misjafna dóma. Allir viðurkenna að um óvenjulegar aðstæður var að ræða, en mistök stjórnar Jóhönnu og Steingríms voru líka mörg og alvarleg og flokkarnir guldu fyrir þau í kosningunum 2013. Afdrifaríkust voru þá tvímælalaust svik VG við yfirlýsta stefnu sína gegn aðild að Evrópusambandinu. Samningaþófið við Brussel um slíka aðild stóð kjörtímabilið á enda og þingflokkur VG sundraðist vegna afstöðu og vinnubragða Steingríms Sigfússonar sem formanns. Inn í þetta fléttaðist Icesave-samningur stjórnvalda við Breta og Hollendinga sem hafnað var í þjóðaratkvæðagreiðslu og síðar dæmdur ómerkur af EFTA-dómstólnum, sem sýknaði Ísland af öllum kröfum ESA. Fyrirætlanir um olíuleit og olíuvinnslu á vegum Íslendinga á Jan Mayen-svæðinu kórónuðu síðan undanhald stjórnarinnar í umhverfismálum. Við þessar aðstæður sagði ég mig úr VG, sem ég hafði átt þátt í að stofna fyrir kosningarnar 1999, og hef síðan verið óflokksbundinn.  

Katrín öflugur forsætisráðherra

Katrín Jakobsdóttir hefur verið í forystusveit VG allt frá árinu 2003 og setið á Alþingi frá 2007. Hún tók við formennsku í flokknum árið 2013 og hefur þannig öðlast mikla og dýrmæta reynslu. Eftir stjórnarandstöðu VG í tíð tveggja ríkisstjórna á árunum 2013–2017 tók hún við forsætisráðuneytinu 30. nóvember 2017 og hefur skipað það með sóma og við vaxandi vinsældir síðan. Það þurfti í senn styrk og framsýni til að standa að þriggja flokka stjórn ólíkra stjórnmálaafla haustið 2017. Reynslan af samstarfinu hefur hins vegar sýnt að þetta var rétt skref og sá þó enginn fyrir þá glímu sem fólst í COVID-pestinni allt frá í mars 2020. Þar tókst stjórnini í senn að hlýða kalli sérfróðra og stilla saman strengi almennings á farsælan hátt. Formenn samstarfsflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, hafa ásamt Katrínu verið burðarásinn í þessu breiða samstarfi og styrkt stöðu sína. Það á ekki síst við um Bjarna Benediktsson, sem hefur þurft að glíma við öfl í eigin flokki sem gagnrýnt hafa samstarfið við VG.

Sundurleit stjórnarandstaða

Gegn núverandi ríkisstjórn og flokkunum sem að henni standa eru ekki færri en  sjö framboð sem bjóða fram í í öllum kjördæmum. Samfylkingin og Viðreisn eru fylgjandi aðild Íslands að Evrópusambandinu og Píratar eru opnir fyrir ESB-aðild sem ákvarðast eigi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Slík afstaða samrýmist ekki stefnu VG sem  telur hagsmunum Íslands best borgið utan Evrópusambandsins. Samstarf flokka með svo ólíka sýn til grundvallarmála verður aldrei heilsteypt og VG getur ekki endurtekið leikinn frá 2010 um umsóknaraðild að ESB. Önnur framboð í stjórnarandstöðu, fái þau þingmenn kjörna, eru ólíkleg til samstarfs um ríkisstjórn.

Afar afdrifaríkar kosningar

Alþingiskosningarnar 25. september eru óvenju mikilvægar, þar eð framundan eru risavaxin viðfangsefni sem Ísland og heimsbyggðin öll þurfa að glíma við. Fyrir utan baráttuna fyrir heimsfriði ber hæst glímuna við loftslagsvána og aðlögun  að breyttu umhverfi, ekki síst á norðurslóðum. Hér á unga fólkið og óbornir mest undir því komið að vel takist til. Ég skora því á æskufólk að taka virkan þátt í kosningabaráttunni fyrir lífvænlegu umhverfi. Nærtækasta lóð á þá vogarskál er að nota atkvæðisréttinn til stuðnings VG undir forystu Katrínar.Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim