Hjörleifur Guttormsson | 13. desember2021 |
Mikilvæg stefnumótun nýrrar ríkisstjórnar Stjórmálauppgjöri haustsins hérlendis er nú lokið með endurnýjun á samstarfi flokkanna þriggja sem tryggðu sér aukinn þingmeirihluta í kosningunum 25. september. Eftir nær fjögurra ára farsæla stjórn þessara þriggja ólíku flokka stefnir í annað kjörtímabil undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur. Það skiptir máli fyrir litla þjóð að eiga völ á slíkri forystu. Þessi niðurstaða lá í loftinu löngu fyrir alþingiskosningarnar þar eð engin ný og stórvægileg ágreiningsmál höfðu komið upp milli stjórnarflokkanna, ef hálendisþjóðgarður er undanskilinn. Meirihluti með 38 þingsætum tryggir stjórninni óvenju öruggan þingstyrk ef samstaða er um málefnagrundvöll. Helstu flokkar í stjórnarandstöðu, Samfylking, Viðreisn og Píratar eru einnig ólíkir innbyrðis en stefna þeirra um aðild að Evrópusambandinu tengir þá saman. Sú stefna nýtur nú hins vegar langtum minna fylgis hérlendis en stundum áður. Viðfangsefnin sem bíða endurnýjaðrar ríkisstjórnar eru hins vegar mörg og vandasöm og þar ber hæst loftslagsmálin og aðlögun atvinnulífs og vinnumarkaðar að breyttum ytri skilyrðum. Er þá undanskilið að innan tíðar sjái fyrir endann á veirufaraldrinum. Víðtækur sáttmáli Forysta stjórnarflokkanna gerði rétt í að nýta tímann í kjölfar kosninga til að bera sig saman um víðtækar megináherslur í komandi samstarfi. Þar segir í upphafi: Stjórnarskiptin í Þýskalandi Þingkosningar fóru fram í Þýskalandi degi síðar en hérlendis sl. haust. Stjórnarmyndun í kjölfarið lauk í síðustu viku með myndun þriggja flokka stjórnar líkt og hér, en undir forystu sósíaldemókratans Olaf Scholz. Með krötum eru í stjórninni Græningjar og Frjálsir demókratar. Sögulegustu tíðindi kosninganna voru mikið tap kristilegra, sem oftast hafa haldið um stjórnartaumana í Þýskalandi eftir seinna stríð, í fyrstu um áratugi undir forystu Konrads Adenauers og undanfarin 16 ár undir leiðsögn Angelu Merkel, prestsdóttur frá Austur-Þýskalandi og fyrstu konu til að gegna slíku embætti þarlendis. Hennar verður lengi minnst fyrir stjórnkænsku, m.a. að hafa beitt sér fyrir að loka öllum kjarnorkuverum þarlendis, sem lengi hafði verið eitt helsta baráttumál Græningja. Flokkur þeirra kemur nú inn í ríkisstjórnina, m.a. með Robert Habeck sem ráðherra efnahags- og loftslagsmála og Annalena Baerbock sem utanríkisráðherra. Afar róttækar breytingar eru þar fyrirhugaðar á efnahags- og umhverfissviði, m.a. með því að útrýma kolum sem orkugjafa og innleiða vistvæna orku í staðinn næsta áratuginn. Geislavirkur úrgangur frá kjarnorkuverum Á sama tima og Þjóðverjar kveðja kjarnorku sem orkugjafa er allt annað uppi á teningnum í Frakklandi. Þar leggja kjarnorkuver til 36% orkunotkunar og Macron forseti boðar nú byggingu nýrra kjarnorkuvera, jafnvel allt að 6 talsins til að tryggja kolefnishlutleysi um miðja öldina. Mjög hægði á byggingu kjarnorkuvera eftir slysið í Harrisburg í Bandaríkjunum 1979 og enn frekar eftir Tschernobyl 1986 og Fukushima 2011. Nú fjölgar hins vegar þeim ríkjum sem hyggjast takmarka losun CO2 í framtíðinni með byggingu kjarnorkuvera, m.a. er Indland stórtækt í slíkum áætlunum. Allt eru það ótíðindi, því að þótt ekki komi CO2-losun þar við sögu er geislavirkur úrgangur frá slíkum kjarnorkuverum mikið og óleyst vandamál og sem mestu réði um ákvörðun Þjóðverja. Með stórfjölgun slíkra orkuvera er því verið að fara úr öskunni í eldinn. Varðveitum íslenska sérstöðu Við Íslendingar búum við hagstæð skilyrði þegar kemur að orkumálum, með vatnsafl og jarðvarma sem orkugjafa. Við nýtingu þeirra ber að taka ríkulegt tillit til umhverfis- og náttúruverndar og hafna öllum hugmyndum um útflutning raforku með sæstreng. Hjörleifur Guttormsson |