Hjörleifur Guttormsson 18. maí 2021

105. Tillaga til þingsályktunar – flutt á Alþingi haustið 1988
um deilur Ísraels og Palestínumanna.

Flutningsmenn: Hjörleifur Guttormsson, Kristín Einarsdóttir, Páll Pétursson.

Alþingi ályktar að lýsa áhyggjum sínum yfir því ástandi sem ríkir fyrir botni Miðjarðarhafs og telur það stöðuga ógnun við heimsfriðinn.
Alþingi fordæmir síendurtekin mannréttindabrot Ísraelsstjórnar gagnvart Palestínumönnum að undanförnu og leggur áherslu á að ísraelsk stjórnvöld virði Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og 4. Genfarsáttmálann um vernd óbreyttra borgara á stríðstímum.
Alþingi styður kröfuna um að tafarlaust verði haldin alþjóðleg friðarráðstefna á vegum Sameinuðu þjóðanna með þátttöku allra deiluaðila og telur að Ísland eigi að bjóðast til að vera gestgjafi slíkrar ráðstefnu.
 Alþingi leggur áherslu á að viðurkenna beri sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar og rétt hennar til að stofna eigin ríki í samræmi við ályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna nr. 181 frá 29. nóvember 1947 um leið og viðurkenndur er tilveruréttur Ísraelsríkis innan öruggra landamæra. Jafnframt ber að viðurkenna rétt palestínskra flóttamanna til að snúa aftur til fyrri heimkynna sinna í samræmi við margítrekaðar ályktanir allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna.
Alþingi felur ríkisstjórninni að framfylgja ofangreindri stefnu og viðurkenna Frelsissamtök Palestínu, PLO, sem málsvara palestínsku þjóðarinnar.
Greinargerð.

    Ástandið á svæðunum, sem Ísraelsmenn hafa haldið herteknum í Palestínu allt frá árinu 1967, hefur farið hríðversnandi síðustu missiri. Það er óþolandi bæði fyrir Palestínumenn og Ísraelsmenn og brýtur gegn alþjóðlegum samþykktum um sjálfsákvörðunarrétt þjóða og almenn mannréttindi. Á tímabilinu frá 8. desember 1987 til 27. september 1988 drápu ísrelska hernámsliðið og ísraelskir landnemar 374 óbreytta Palestínumenn, þar af fjölda barna, unglinga og gamalmenna (sjá fylgiskjal IX).
    Ástandið í þessum heimshluta og áframhaldandi hernám Ísraelsmanna er storkun við almenningsálit og ógnun við heimfriðinn. Um leið og framferði Ísraelsstjórnar er fordæmt ber að leggja áherslu á að hið fyrsta verði kvödd saman alþjóðleg friðarráðstefna um Austurlönd nær á vegum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna með þátttöku allra deiluaðila, þar á meðal Frelsissamtaka Palestínu, PLO, og Ísraels á jafnréttisgrundvelli.
    Palestínuþjóðin er til og verður að geta ráðið sjálf málum sínum samkvæmt viðteknum alþjóðalögum. Liður í friðsamlegri lausn mála þarf að felast í því að Palestínumenn viðurkenni tilverurétt Ísraelsríkis og á sama hátt viðurkenni Ísraelsmenn rétt Palestínumanna til að stofna eigin ríki á hernumdum svæðum í Palestínu. Slík gagnkvæm viðurkenning væri í samræmi við ályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna nr. 181 frá 29. nóvember 1947 (fylgiskjal I), en með henni var tilveruréttur Ísraelsríkis staðfestur, svo og í samræmi við allar ályktanir Sameinuðu þjóðanna upp frá því.
    Þá ber að viðurkenna rétt palestínskra flóttamanna til að snúa aftur til fyrri heimkynna sinna í samræmi við Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og árlegar ályktanir allsherjarþingsins.
    Eðlilegur samningsaðili fyrir hönd palestínsku þjóðarinnar eru Frelsissamtök Palestínu, PLO. Engin önnur samtök hafa gert tilkall til að tala fyrir hennar hönd og þau njóta fylgis þorra Palestínumanna bæði á herteknu svæðunum og þeirra sem eru í útlegð. Ljóst má vera að án þátttöku PLO í friðarsamningum verður ekki tryggður varanlegur friður milli Ísraelsmanna og araba. Þótt PLO hafi fyrr á árum staðið fyrir stefnu sem margir hafa gagnrýnt er ekki hægt að hafna þeim nú sem fulltrúum palestínsku þjóðarinnar. Nægir í því sambandi að benda á að Frelsissamtök Palestínu eru í reynd viðurkennd sem einu samtökin til að koma fram fyrir hönd Palestínumanna innan Sameinuðu þjóðanna, af samtökum óháðra ríkja og af ríkjum Arababandalagsins. Því eiga íslensk stjórnvöld nú að taka upp stjórnmálaleg samskipti við Frelsissamtök Palstínu, PLO.
    Ísland var haustið 1986 gestgjafi fyrir fund leiðtoga Sovétríkjanna og Bandaríkjanna þar sem grunnur var lagður að þeim árangri í afvopnunarmálum sem síðan hefur náðst. Skipulagning þess fundar af hálfu Íslendinga fór vel úr hendi og hlaut almenna viðurkenningu. Þáverandi forsætisráðherra, Steingrímur Hermannsson, setti eftir fundinn fram hugmynd um friðarstofnun á Íslandi og sem utanríkisráðherra tók hann í fyrra málstað Palestínumanna svo að eftir var tekið. Það væri í góðu samræmi við þetta að íslensk stjórnvöld byðust nú til að taka við friðarráðstefnu um Palestínumálið.
    Íslendingar hafa áratugum saman veitt Ísraelsmönnum stuðning á alþjóðvettvangi. Sá stuðningur hefur m.a. byggst á samúð með málstað gyðinga í trausti þess að þeir gengju fram af sanngirni, minnugir eigin sögu og þjáninga. Við höfum því í senn skyldur og stöðu til þess að krefjast nú réttlætis fyrir palestínsku þjóðina sem orðið hefur þolandi ákvarðana sem Ísland ber ábyrgð á ásamt mörgum öðrum.
    Margar þjóðir og alþjóðasamtök hafa að undanförnu ályktað um Palestínumálið og fordæmt framferði Ísraelsstjórnar. Má í því sambandi minna á ályktun öryggisráðsins frá 5. janúar 1988 (fylgiskjal II) og ályktun Evrópuþingsins 10. mars 1988 (fylgiskjal III). Alþjóðasamband jafnaðarmanna gerði ályktun um Palestínumálið í janúar 1988 (fylgiskjal IV) og enn er í gildi ályktun Efnahagsbandalags Evrópu frá 13. júní 1980 (fylgiskjal V).
    Rétt er að minna á lokayfirlýsingu leiðtogafundar arabaríkjanna í Alsír 7.–8. júní 1988, en þar kom fram eindreginn stuðningur við PLO og Jassir Arafat (fylgiskjal VI).
    Í fylgiskjali VII kemur fram jákvæð afstaða Jassirs Arafats til ályktana Sameinuðu þjóðanna nr. 242 og 338 og einnig er birt frásögn af ræðu sem hann flutti á fundi Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna 19. febrúar 1988 (fylgiskjal VIII).
    Þá er að lokum birt með tillögu þessari bréf stjórnar Félagsins Ísland-Palestína til alþingismanna, dags. 28. september 1988. Þar er þess m.a. óskað að þingmenn úr öllum stjórnmálaflokkum á Alþingi taki höndum saman um að styðja baráttu palestínsku þjóðarinnar fyrir réttlæti, frelsi og friði. „Slíkt er frumforsenda fyrir farsælli þróun í Austurlöndum nær, ekki síst fyrir Ísraelsmenn sjálfa,„ segir í niðurlagi bréfsins.
    Með tillögu þessari er leitað eftir afstöðu Alþingis í mikilvægu máli sem æ fleiri hafa áhyggjur af, einnig hér á landi. Vegna aðildar Íslands á sínum tíma að ákvörðunum um stofnun Ísraelsríkis berum við hluta af ábyrgðinni á því sem þar hefur síðan gerst. Þróun mála fyrir botni Miðjarðarhafs hefur leitt til mikilla erfiðleika, styrjaldarátaka og hörmunga fyrir það fólk sem áður byggði Palestínu. Nú er það skylda Íslendinga að eiga þátt í að rétta hlut palestínsku þjóðarinnar um leið og tryggð er framtíð Ísraelsríkis.

Fylgiskjal I.
Útdráttur úr skjölum annars fundar allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna.
Ályktanir frá 16. september – 29. nóvember 1947.



Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim