Hjörleifur Guttormsson | 19. apríl 2021 |
Dregur til tíðinda í þýskum stjórnmálum Mikið hefur verið um að vera í þýskum stjórnmálum á yfirstandandi kjörtímabili. Því fer senn að ljúka þar eð kosið verður til sambandsþingsins í Berlín í haust, líklega sunnudaginn 26. september. Að völdum hefur setið samstjórn Kristilegra (CDU/CSU) og Sósíaldemókrata (SPD) við heldur litlar vinsældir, jafnt á landsvísu sem og í flokkunum sem að henni standa. Angela Merkel er að kveðja sem forsætisráðherra eftir að hafa gegnt kanslaraembætti í 16 ár og lengst af notið mikils persónulegs fylgis langt út fyrir raðir eigin flokks. Baráttan um eftirmann hennar til forystu í flokki Kristilegra demókrata hefur ekki gengið þrautalaust og er engan veginn lokið. Í janúar sl. var Armin Laschet (f. 1961), forystumaður CDU í Nordrhein-Westfalen, naumlega kosinn formaður flokksins úr hópi þriggja, en formaður systurflokksins CSU í Bæjaralandi er síðan 2019 Markus Söder (f. 1967). Saman eru þingmenn þessara flokka síðan 1949 í einum og sama þingflokki (Fraktion). Á eftirstríðsárunum hefur kanslaraframbjóðandi Kristilegra langoftast verið forystumaður CDU, fyrst Adenauer og síðar Helmut Kohl og nú Angela Merkel. Tvívegis komu frambjóðendur til kanslara úr röðum Kristilegra í Bæjaralandi, Franz Josep Strauss 1980 og Edmund Stoiber 2002, en töpuðu í bæði skiptin fyrir frambjóðendum Sósíaldemókrata. Frá því um síðustu helgi (11. apríl) er sú staða uppi að ofangreindir tveir formenn kristilegu flokkanna, Laschet og Söder, lýsa sig reiðubúna sem kanslaraefni. Hvernig úr því verði skorið er enn óljóst. Traust til Kristilegra snarminnkað Kristilegu flokkarnir höfðu á dögum Vestur-Þýskalands lengst af yfirburðastöðu í fylgi með um og yfir 40% atkvæða. Undantekning var tímabilið 1969–1982 þegar leiðtogar Sósíaldemókrata þeir Willy Brandt og síðar Helmut Schmidt skipuðu kanslaraembættið í samstjórn með Frjálsum demókrötum. Eftir sameiningu þýsku ríkjanna var þáverandi formaður Sósíaldemókrata Gerhard Schröder kanslari frá 1998–2005 í samstjórn með Græningjum (Bündnis 90/Die Grünen), en síðan hefur Merkel verið í því embætti í 16 ár. Lengst af því tímabili var hún í yfirburðastöðu og það er fyrst nú undir lokin á þessum langa valdaferli að vinsældir hennar hafa dvínað, sérstaklega í glímunni við veiruna síðustu misseri. Þar hafa henni sjálfri orðið á mistök samhliða því sem forystumenn í einstökum fylkjum úr hennar eigin flokki hafa fylgt ólíkum áherslum. Þannig hefur veirusmit farið vaxandi á síðustu mánuðum og ekki tekist að tryggja samræmdar aðgerðir, m.a. með útgöngubanni að næturlagi sem gilt hefur í mörgum ríkjum á meginlandinu. Formaðurinn nýi, Laschet, sem notið hefur beint og óbeint stuðnings Merkel, hefur slegið úr og í varðandi veiruna á sama tíma og keppinautur hans Söder hefur hins vegar talað fyrir harðari stefnu. Við þetta bætast auðgunarbrot þingmanna úr röðum CDU/CSU í sölu á andlitsgrímum til veiruvarna. Það kemur því ekki á óvart að fylgi Kristilegra hefur á landsvísu farið ört minnkandi í skoðanakönnunum á sama tíma og fylgi Græningja hefur vaxið hröðum skrefum. Tilkoma hægri öfgaflokksins AfD frá og með 2013 og fylgi hans sem nú mælist um 11% hefur auðvitað einnig tekið sinn toll. Þannig mælast Kristilegir nú með aðeins 27% fylgi , nær 6% minna en fyrir fjóum árum. Bág staða krata og Die Linke Sérstaka athygli vekur lágt fylgi Sósíaldemókrata mest allt núverandi kjörtímabil. Í kosningunum 2017 fengu þeir þó 20,5% atkvæða, en hafa á síðari hluta kjörtímabilsins mælst nálægt 16%. Í samstjórn með Kristilegum hafa þeir haft ráðherra í mikilvægum málaflokkum og kanslaraefni þeirra Olaf Scholz er nú fjármálaráðherra. Hann tapaði hins vegar í kosningum um formannsstöðuna 2019 fyrir tveimur sameiginlegum en út á við lítt þekktum frambjóðendum, þeim Walter Borjans (f. 1952) og Saskia Esken (f. 1961). Undanfari þessa voru tíð formannsskipti í flokknum og óljós stefna í mörgum málaflokkum, m.a. á sviði umhverfismála. Hér er ólíku saman að jafna við fylgi flokksins um síðustu aldamót, en í kosningunum 1998 fékk SPD undir forystu Schröders 40,9% atkvæða, nær 6% meira en Kristilegir í þeim kosningum. – Vinstriflokkurinn Die Linke, upphaflega með rætur í Austur-Þýskalandi eftir sameiningu þýsku ríkjanna, hefur heldur ekki náð að halda stöðu sinni í stjórnarandstöðu frá því hún var best 11,9% árið 2009 og 9,2% 2017. Flokknum er nú aðeins spáð um 8% fylgi. Die Linke hefur lengi verið tvíátta og haldist illa á forystufólki. Þannig mælast flokkarnir tveir, SPD og Die Linke, samanlagt með tæpan fjórðung atkvæða í skoðanakönnunum nú 5 mánuðum fyrir komandi kosningar. Græningjar á blússandi ferð Eini stjórnmálaflokkurinn í Þýskalandi sem verið hefur í teljandi sókn á kjörtímabilinu eru Die Grünen eða Græningjar, sem nú virðast geta keppt við Kristilega í komandi þingkosningum. Fylgi flokksins hefur vaxið samkvæmt nýlegum könnunum úr 8,9% fyrir 4 árum í um 22% eða 2,5-faldast. Margt stuðlar eflaust að þessari þróun: Alþjóðleg viðhorf til umhverfismála þar sem loftslagsváin og háskaleg skerðing á fjölbreytni lífvera eru nú almennt orðin viðurkennd, a.m.k. í orði, sem stærstu vandamál mannkyns á næstu árum og áratugum. Stjórnarandstaða Græningja á landsmælikvarða samhliða fallandi gengi stjórnarflokkanna og brotthvarfi Angelu Merkel af sviðinu, sem hún nýtti m.a. til að afskrifa kjarnorku sem framtíðarorkugjafa, á hér einnig hlut að máli. En Græningjar hafa líka reynst farsælir sem ábyrgir þátttakendur í fylkisstjórnum, þar sem hæst ber forystu þeirra í Baden-Württemberg nú þriðja kjörtímbilið í röð frá 2011 undir leiðsögn Winfried Kretschmanns sem afar vinsæls fylkisstjóra. Flokkur Græningja hefur líka búið að vinsælum forystumönnum um árabil, en nú leiða flokkinn sameiginlega Annalena Baerbock (f. 1980) og Robert Habeck (f. 1969). Bæði eru þau afar frambærilegir forystukraftar, en einnig stendur flokkurinn fyrir stefnuskrá sem ekki er lengur úthrópuð sem fjarstæða líkt og gerðist fyrr á árum. Forysta ríkisins í fjárfestingum á sviði þróunar og nýsköpunar er þar framarlega í stefnuskránni, með lántökum að vissu marki til að knýja fram grundvallarbreytingar. Eins og pólitískir straumar nú liggja í Þýskalandi útiloka fáir að Græningjar kunni að keppa um kanslaraembættið við Kristilega að hausti. Hvort þeirra Baerbock eða Habbeck verði í því hlutverki ræðst þeirra á milli innan skamms. Hjörleifur Guttormsson |