Hjörleifur Guttormsson | 23. febrúar 2021 |
Hver er stefna stjórnmálaflokkanna í meginmálum? Á komandi hausti verður kosið til Alþingis við lok reglulegs kjörtímabils, líklegur kjördagur 25. september. Svo vill til að þingkosningar verða víðar en hérlendis í þessum sama mánuði, í Noregi til Stórþingsins 13. september og í Þýskalandi til Sambandsþingsins (Bundestag) 26. september. Fyrir áhugafólk um stjórnmál og þróun í grannlöndum okkar er þannig af nógu að taka. Flokkarnir hérlendis eru í óðaönn að undirbúa framboð, hver með sínum hætti, og tíðindi af vettvangi þeirra fylla fréttatíma. Minna fer enn sem komið er fyrir málefnaáherslum af hálfu flokkanna og formleg starfsemi þeirra hefur eflaust veikst og riðlast í skugga veirunnar. Sem áhorfandi að formlegu stjórnmálastarfi sl. 8 ár finnst mér skorta mjög á að umræða snúist um málefni og meginlínur fremur en einstaka leikendur á pólitíska sviðinu. Er þar með ekki lítið gert úr hlutverki og frammistöðu einstakra stjórnmálamanna, jafnt á þingi og í ríkisstjórnum. Farsæl ríkisstjórn á lokaspretti Undir venjulegum kringumstæðum væru stefna og störf ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur aðalumræðuefni nú undir lok kjörtímabilsins. Heildstætt mat á ferli hennar hefur þó eins og flest annað fallið í skuggann fyrir veirupestinni, sem umræða hefur snúist um nú í heilt ár. Stjórnin var mynduð við þær aðstæður haustið 2017 að við blasti annað hvort fjögurra flokka „vinstristjórn“ með afar nauman þingmeirihluta á bak við sig, „hægristjórn“ studd af 35 þingmönnum, eða langvinn stjórnarkreppa. Undirritaður taldi hins vegar strax og kosningaúrslitin lágu fyrir að þriðji kosturinn væri til staðar, þ.e. blandað þriggja flokka stjórnarmynstur frá hægri til vinstri með þátttöku VG, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks sem hefði 35 þingmenn við að styðjast. Grein mín sem birtist í Morgunblaðinu 31. október 2017 bar fyrirsögnina „Óskorað fullveldi og náttúruvernd meðal brýnustu verkefna nýs þings og ríkisstjórnar“ Þar sagði m.a.: „Að loknum kosningum fyrir ári taldi ég að mynda ætti slíka stjórn og skoðun mín er óbreytt, enda sýni viðkomandi flokkar sveigjanleika sem dygði til að koma á slíku samstarfi. Vænlegast er að slíkt samstarf væri undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur og félli þá fjármálaráðuneytið í skaut Bjarna Benediktssonar og utanríkismálin yrðu á hendi Lilju Daggar Alfreðsdóttur.“ Þetta gekk eftir, nema Lilja fékk menntamálin í sinn hlut. Mánuð tók að koma þessu samstarfi á og það hefur haldið þótt kvarnast hafi úr bakstuðningnum á Alþingi. Framan af stóð stjórnin frammi fyrir margs konar áskorunum, ekki síst að tryggja frið á vinnumarkaði. Þá raun stóðst hún farsællega. Þá sá enginn fyrir sér þá eldraun sem biði með heimsfaraldri, sem Ísland gæti átt eftir að standa af sér flestum þjóðum betur eins og staðan er nú um stundir. Stórar alþjóðlegar áskoranir Alþjóðlegum áskorunum fjölgar stöðugt. Kjarnorkuváin sem hefur vofað yfir mannkyni í heilan mannsaldur er áfram til staðar, raunar nær en áður vegna fjölgunar ríkja sem yfir slíkri tækni og vopnum ráða. Tilkoma sjálfvirkra flygilda (dróna) og nýting þeirra í hernaði hefur bæst við sem enn ný ógn, sem hleypt getur af stað styrjaldarbáli af litlu tilefni. Nýverið birtist um þetta fróðlegt viðtal, sem menn ættu að kynna sér (Ulrike Franke: Tod von oben (Dauðinn ofan frá). Die Zeit, 4. febr. 2021). Baráttan gegn kjarnorkuógninni og stöðugt magnaðri vígvæðingu ætti að vera fremsta og nærtækasta áhersluatriði á alþjóðvettvangi. Þar getur vopnlaus smáþjóð eins og við Íslendingar lagt fram annan og drýgri skerf en hingað til, m.a. með því að halda sig utan hernaðarbandalaga. Veik staða lýðræðis Í fróðlegri grein Arnars Þórs Jónssonar héraðsdómara í Morgunblaðinu 13. febrúar sl. undir fyrirsögninni Kreppa lýðsræðisins?, vekur hann athygli á að þjóðin hefur með EES-samningnum gefið frá sér mikilvæg stjórntæki í eigin málum. Arnar Þór spyr m.a.: „Getum við gengið að því vísu að Íslendingum sé betur borgið í umsjá erlendra embættismanna og yfirþjóðlegra stofnana en lýðræðislega kjörinna handhafa íslensks löggjafarvalds og ráðherra sem bera ábyrgð gagnvart þingi og þjóð? Getur örríki eins og Ísland ekki tryggt hagsmuni sína í alþjóðlegu samstarfi án þess að fórna fullveldi sínu?“ – Nú er viðurkennt að samþykkt laga um EES-samninginn á Alþingi 1993 hafi gengið gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar á þeim tíma og átt síðan þátt í þeirri fjárhagslegu spilaborg sem leiddi til hrunsins 2008. Við inngöngu Íslands í EES var því haldið fram að Ísland gæti hafnað reglum sem samrýmast ekki þjóðarhagsmunum. Þrátt fyrir þetta samþykkti Alþingi á yfirstandandi kjörtímabili, eins og einnig norska Stórþingið, þriðja orkupakka ESB og þær tilskipanir sem hann byggir á. Norsku samtökin Nei til EU töldu eins og fleiri að þurft hefði þrjá/fjórðu þingheims til að slík samþykkt stæðist ákvæði norsku stjórnarskrárinnar. Nei til EU reka nú mál fyrir hæstarétti Noregs þar að lútandi. Úrskurðar réttarins í málinu er að vænta innan tíðar. Hjörleifur Guttormsson |