Hjörleifur Guttormsson 23. mars 2021

Hættan af COVID-19 er ekki liðin hjá

Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með árangursríkum aðgerðum íslenskra stjórnvalda undanfarið gagnvart kórónuveirufaraldrinum. Þar hafa stjórnvöld byggt á faglegri ráðgjöf sóttvarnarlæknis, landlæknis og fleiri sérfróðra í samvinnu við lögregluyfirvöld. Þetta hefur skilað þeim árangri að böndum hefur verið komið á smit af veirunni hér innanlands, þótt enn sé hún að skjóta upp kollinum og þau tilvik verið rakin til fólks sem kemur erlendis frá. Bólusetning er hafin en takmarkað framboð á bóluefni hefur seinkað áætlunum stjórnvalda um að  hún nái til meirihluta landsmanna um mitt þetta ár. Góður árangur í bólusetningu er auðvitað forsenda þess að landsmenn, fólk og fyrirtæki, losni úr viðjum þessa vágests sem herjar enn af fullum þunga víða um heimsbyggðina.

Einleikur ráðherra

Flestum að óvörum gerðist það 17. – 18. mars sl. að dómsmálaráðherra breytti með samþykki ríkisstjórnarinnar gildandi reglugerð nr. 866/2017 um takmarkanir á för 3. ríkis borgara yfir ytri landamæri þannig að þau nái ekki til einstaklinga með fullnægjandi bólusetningarvottorð, einnig varðandi einstaklinga utan Schengen-svæðisins. Fyrir liggur að ekkert samráð var haft við sóttvarnalækni um þessa reglugerðarbreytingu, eins og tilskilið er í 12. grein sóttvarnarlaga sem kveður á um sóttvarnarráðstafanir vegna hættu á farsóttum innanlands. Ljóst er af málflutningi ráðherra Sjálfstæðisflokksins að þessi reglugerðarbreyting er knúin fram að kröfu leiðandi talsmanna ferðaþjónustunnar í þeirri trú að með henni verði bjargað rekstrarvanda fyrirtækja í greininni á komandi sumri. Ekki er að efa að margir útlendingar munu, vegna þess fyrrkomulags sem hér er verið að opna fyrir, kjósa að leggja leið sína til Íslands. Hitt er vandséðara hvernig tryggt verði að landamæraeftirlit og sóttvarnayfirvöld eigi að trygga að veiran í sínum ýmsu afbrigðum berist ekki inn í landið með ferðamönnum, þrátt fyrir formleg skilyrði.

Áhættan er óskynsamleg

Boðuð opnun landins fyrir ferðamannastraumi út á alþjóðleg bólusetningarskirteini er tekin þrátt fyrir augljósa seinkun á bólusetningu fólks hér innanlands fram eftir sumri. Með því er augljóslega tekin mikil áhætta á bakslagi í kjölfar veirusmits hér innanlands og ráðstafana sem grípa yrði til af þeim sökum. Fari svo væri ferðaþjónustu sem atvinnugrein síður en svo greiði gerður vegna tilheyrandi röskunar, uppsagna og lokunar. Jafnframt er verið að taka mikla áhættu að glutra niður á lokametrunum þeim góða árangri og orðstír sem land og þjóð hefur áunnið sér með markvissum aðgerðum síðustu misseri. Í þeirri stefnubreytingu sem hér er verið að taka endurspeglast hörmulegt vanmat á þeim vágesti sem COVID-19 hefur sýnt sig að vera og sem leikur enn margar þjóðir grátt.



Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim