Hjörleifur Guttormsson 23. nóvember 2021

Nú reynir á gjörvalla heimsbyggðina

Ráðstefnan COP-26 í Glasgow sem lauk um næstliðna helgi reyndist þrátt fyrir hrakspár og óvissu ná að skila mikilvægri samþykkt allra þátttökuríkjanna 197 talsins. Þar var gengið frá lausum endum í Parísarsamþykktinni marglofuðu frá COP-21 árið 2015. Í Glasgow var samþykkt sú stefna að takmarka meðaltalshlýnun lofthjúpsins við 1,5o C í stað 2oC. Mikilvægar yfirlýsingar voru gefnar um að stöðva eyðingu skóga og vinna sérstaklega gegn losun methans. Jarðefnaeldsneyti var nú brennimerkt sem helsti skaðvaldurinn með kol í fararbroddi. Indland, sem keppir við Kína í kolanotkun, varð sér til minnkunar með því að krefjast á elleftu stundu breytinga á þeirri áherslu. Fjöldi ríkja, stórra og smárra, hafði í aðdraganda þessa fundar gefið út fyrirheit um að draga stórlega úr losun CO2 fram til ársins 2030 og ná kolefnishlutleysi fyrir eða um miðja öldina. Þar hefur Ísland sett markið við árið 2040. Loforðið um fjárhagsstuðning til þróunarríkja var ítrekað, í reynd endurgreiðsla fyrir arðrán á liðinni tíð.

Mannkyn á krossgötum

Flest ríki hafa aukið mengun lofthjúpsins í kjölfar Parísarsamþykktarinnar þannig að stefnir í hlýnun upp á 2,4oC og þaðan af meira. Viðsnúningurinn sem  þarf að verða á þessum áratug jafngildir byltingu í framleiðsluháttum, neyslu og samskiptum við móður jörð. „Pláneta okkar hangir á bláþræði“ var meðal aðvörunarorða framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, Antonio Guterres, við opnun ráðstefnunnar í Glasgow. Lausnin felst ekki aðeins í að hverfa frá notkun jarðefnaeldsneytis í tíð einnar kynslóðar, heldur verður að draga úr rányrkju á öllum sviðum. Temprun neyslu og lífshátta, að fólksfjölgun meðtalinni, er óhjákvæmileg eigi mannkynið að komast yfir þær hindranir sem við blasa. Framhald á þeirri vakningu sem orðið hefur meðal æskufólks víða um lönd er mikilvægt vegarnesti í glímunni sem allra bíður á næstunni.

Andróður án fótfestu

Þrátt fyrir augljósar staðreyndir um hvert stefnir að óbreyttu um loftslag jarðar heldur andróður gegn vísindalegum niðurstöðum áfram, knúinn af öflum sem sjá sér hag af óbreyttum orkugjöfum með jarðefnaeldsneyti. Pólitískt á hann sér sterkastar rætur meðal Repúblikana í Bandaríkjunum allt frá dögum Reagans sem forseta, til Donalds Trumps sem dró til baka aðild USA að Parísaryfirlýsingunni. Sá málflutningur hefur m.a. verið studdur af Heartland Institute sem stofnað var til 1984 með fjárstuðningi frá tóbaksframleiðendum en síðan frá olíuiðnaðinum. Í Evrópu hefur Björn Lomborg hjá Copenhagen Research Institute lengi sáð efasemdum um áhrif loftslagsbreytinga af mannavöldum, síðast í riti sínu False alarm sem út kom 2020. Þótt flestum finnist þetta hjáróma raddir án nokkurrar fótfestu, enduróma þær þó enn hér og hvar, einnig hérlendis. Nú í aðdraganda COP-26 nutu slík sjónarmið þó stuðnings fárra sem vandir eru að virðingu sinni. Dæmi um einörð sjónarmið birtust í tímaritinu The Economist um síðustu mánaðamót (30. okt.) í greinasyrpu undir fyrirsögninni Stabilising the climate. Þar segir m.a. að enginn vafi sé á að breyting á magni CO2  í andrúmsloftinu sé tilkomin af mannavöldum. Og syrpunni (bls. 24) lýkur með orðunum: „Loftslagsváin skall á okkur sem hluti af nýju efnahagskerfi heimsins. Að losna undan henni með árangri getur kallað á breytt stjórnmál á heimsvísu. Takist það ekki hefði það hörmulegar afleiðingar jafnt fyrir stjórnmálin og efnahagslífið.“

Verk að vinna hérlendis

Samkvæmt yfirliti Umhverfisstofnunar nam losun hérlendis á árinu 2020 alls 4.486 þúsund tonnum (án landnotkunar og alþjóðasamgangna) og hafði þá dregist saman um 5% frá árinu 2019. Eftir sem áður er þetta næstmesta heildarlosun á íbúa í Evrópulandi eða sem svaraði 17,5 tonnum miðað við árið 2018. Aðeins Lúxemburg var þá með hærri tölu eða 20,3 tonn á mann, en í þriðja sæti kom Eistland með 15,3 tonn. Skýringin á þessu geysiháa gildi hérlendis er ekki síst stóriðjan, þar sem geirinn iðnaðarferlar og efnanotkun er nú uppspretta tæplega helmings af losun Íslands. Losun á CO2 og PFC frá ál- og málmblendiframleiðslu (stóriðja) fellur undir viðskiptakerfi Evrópusambandsins (ETS), og reiknast því ekki sem losun í beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda. Flækir það framsetningu og hefur eðlilega sætt gagnrýni. Umhverfisráðuneytið kynnti fyrr á þessu ári áform um samdrátt í losun á ábyrgð Íslands um a.m.k. 40% fram til ársins 2030 og að Ísland verði kolefnishlutlaust árið 2040. Jafnframt hefur verið kynnt aðgerðaáætlun í 50 liðum og að hafist hafi verið  handa um röskan helming þeirra.
---
Um það leyti sem þessi grein birtist verður væntanlega kynnt til sögunnar endurnýjuð ríkisstjórn hérlendis og málefnasamningur hennar. Af mörgum verður þar ekki síst horft til fyrirhugaðra aðgerða í loftslagsmálum.



Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim