Hjörleifur Guttormsson | 25. október 2021 |
COP-26, norðurslóðir og framtíð mannkyns Í lok þessa mánaðar hefst í Glasgow í Skotlandi 26. fundur aðildarríkja að loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna (COP = Conference of the Parties) sem staðfestur var á Ríó-ráðstefnunni 1992. Eflaust er þetta þýðingarmesti alþjóðafundur sem haldinn hefur verið og því eðlilegt að með honum sé fylgst í öllum heimshornum. Verkefni hans byggir á Parísarsamþykktinni um loftslagsmál frá COP–21 fundinum í desember 2015. Flest ríki heims hafa gerst aðilar að þessari samþykkt með það að markmiði að stöðva loftslagshlýnun, aðallega vegna losunar CO2, við 1,5–2oC að hámarki miðað við meðaltal á jörðinni. Ráðstefnan á m.a. að innsigla bindandi samþykktir aðildarríkjanna hvers og eins um niðurskurð í losun árið 2030 og að útiloka slíka losun umfram bindingu (net zero) um miðja þessa öld. Einnig þarf þar að staðfesta stuðning við þróunarríki til að auðvelda þeim að ná þessu markmiði Akureyri sem miðstöð norðurslóðamálefna Það hefur lengi verið ljóst í hvað stefndi með loftslag jarðar vegna mengunar gróðurhúslofts. Ábendingar um þetta 1974 í riti mínu Vistkreppa eða náttúruvernd (Mál og menning, sjá s. 29) byggðu á mælingum á Hawaii um 12 ára skeið, 1958–1970. Þær vísbendingar gengu að fullu eftir og forspá vísindamanna leiddi til samþykktar loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í Ríó 1992, sem Ísland staðfesti. Hringborð norðursins og þáttur Grænlands Hringborð norðursins – Arctic Circle ráðstefnan – var haldin hér í áttunda sinn frá 2013 að telja, aðeins í fyrrahaust féll hún niður vegna Covid. Það var afrek að koma henni á laggir á ný við óvissar kringumstæður og fylla Silfurberg í Hörpu og aðra sali hússins með sérfundum í þrjá daga. Þáttur Ólafs Ragnars í þessu fundahaldi hér og víðar umhverfis norðurheimsskautið er óumdeildur og sýnir hvers einbeittur vilji einstaklings er megnugur. Það hefur fært manni margan fróðleik að sækja þessar Arctic circle ráðstefnur hérlendis frá upphafi og fylgjast þar með vaxandi undiröldu loftslagsmálanna. Í þetta sinn vantaði Rússa og Kínverja vegna tæknihindrana veirunnar, en raddir úr öðrum heimshornum voru fjölþættar. Sérstaka athygli að þessu sinni vakti þátttaka Grænlendinga með afar athyglisverðum áherslum nýrrar ríkisstjórnar þarlendis. Þessi fámenni granni okkar vekur nú ekki síst athygli heimsins vegna frétta um risavaxna bráðnandi ísþekju. Sjálfbær orkustefna – ekki sæstrengur Það er tilviljun háð hvað fréttnæmt þykir af samkomum eins og Hringborði norðursins. Svo fór að margt athyglisvert féll í skuggann að þessu sinni vegna ummæla Ólafs Ragnars í Silfri Sjónvarpsins um hugsanlegan sæstreng til raforkuflutnings frá Grænlandi um Ísland og til meginlands Evrópu. Hugmyndin um slíkan sæstreng frá Íslandi var til umræðu fyrir skemmstu, m.a. á Alþingi vegna tengsla við svonefndan 3. orkupakka ESB. Alþingi samþykkti þá að fyrir slíkri framkvæmd þyrfti sérstaka samþykkt þingsins en aðrir töldu að slík ákvörðun stæðist ekki stjórnarskrá. Óháð formi er ágreiningur um hvort yfirleitt eigi að hugsa til slíkrar framkvæmdar og sæstrengur til raforkuflutnings hefur ekki verið á dagskrá ríkisstjórna hér undanfarið. Ég var undrandi á málflutningi Ólafs um þetta efni og tel að engar skynsamlegar forsendur séu til að stefna að slíkri framkvæmd. Því þóttu mér athyglisverð viðbrögð nýs orkumálastjóra, Höllu Hrundar Logadóttur, við spurningum Sjónvarpsins 19. okt. sl. um viðhorf hennar til hugmynda um útflutning raforku með streng, þar sem hún benti á önnur og langtum nærtækari verkefni hér innanlands. Hagvaxtarmódelið verður að endurskoða Það hefur lengi blasað við að ríkjandi efnahagskerfi er sá mótor sem mestu veldur um ósjálfbæran vöxt og árekstra mannkyns við umhverfi sitt. Því er brýnt að breyta í senn viðmiðunum og takti í efnahagsstarfseminni sem dragi úr sóun og hvetji til umskipta með minni losun gróðurhúsalofts. Ísland er nú með einna mesta orkusóun í hópi vel stæðra þjóða og því bíður hér afar stórt viðfangsefni. Við höfum ásamt grannþjóðum heitið því að draga saman losun um 55% á nýbyrjuðum áratug. Til þess að það megi takast þarf í senn að skipta út olíutengdum orkugjöfum á öllum sviðum og jafnframt að draga úr óþarfa neyslu og sóun sem einkenna lífshætti meðal þorra fólks. Leiðtogar þjóða heims eru þessa dagana að undirbúa á COP–26 vegferð sem skipta mun sköpum um framtíð afkomenda okkar og alls mannkyns. Hjörleifur Guttormsson |