Hjörleifur Guttormsson 31. maí 2021

Framtíðarhorfur vegna loftslagsbreytinga krefjast víðtækra grænna lausna

Mannkynið stendur á afdrifaríkum tímamótum. Þegar veirukófinu loks léttir blasa önnur og langtum víðtækari vandamál við. Þar er um að ræða glímuna við hlýnun andrúmsloftsins og afleiðingar hennar. Þessara áhrifa er þegar farið að gæta, en allt eru það smámunir miðað við það sem er í vændum. Síversnandi horfur í loftslagsmálum leiddu til Parísarsamkomulagsins 2015, sem var óskuldbindandi en þó afar þýðingarmikið skref. Nú standa ríki heims hvert og eitt hins vegar frammi fyrir því að láta efndir fylgja orðum. Gert er ráð fyrir að lögleiða bindandi markmið, fyrst í tveimur áföngum til ársins 2030 en gefa jafnframt út langtímamarkmið um samdrátt í losun til lengri tíma eða fram til ársins 2050. Á þetta mun brátt reyna á ársfundi aðildarríkja loftslagssamningsins (COP-26) í Glasgow fyrrihluta nóvember næstkomandi. Ísland, sem einkum vegna stóriðjuvera,  losar nú  einna mest allra Evrópuríkja af CO2 á hvert mannsbarn, segist miða sínar áætlanir við 1,5° hlýnun en ekki 2°C og færist þannig mikið í fang. Kostnaðurinn fyrstu 5 árin til að ná settu marki hefur verið metinn nálægt 50 milljörðum króna.

Alvaran á bak við talnagildin

Hlýnunin sem nú er metin á 1,1°C hækkun í meðalhita á jörðinni frá því fyrir iðnbyltingu hefur fram til þessa haft harla misjöfn áhrif eftir svæðum á jarðarkringlunni. Lönd eins og Ástralía og Kalifornía hafa þegar orðið fyrir miklum búsifjum af völdum skógarelda, annars staðar hefur aukning í úrkomu valdið tíðari flóðum og skriðuföllum og styrkur fellibylja víða margfaldast frá því sem áður var. Á norðurslóðum birtast okkur áhrifin hingað til ekki síst í bráðnun jökla sem nú er gert ráð fyrir að hverfi af mestu fyrir árið 2200. Vitað er að áhrif manngerðrar losunar verða langtum meiri í meðalhita í norðri en sunnar í álfum. Á nýafstöðnum ársfundi Arktíska ráðsins í Reykjavík kom fram í sameiginlegri ályktun að á síðustu 50 árum hafi hlýnað þrefalt hraðar á norðurheimskautssvæðinu en að meðaltali á heimsvísu, með tilheyrandi röskun á umhverfi. Hafa verður jafnframt í huga að gróðurhúsalofttegundir eins og CO2 eyðast mjög hægt í lofthjúpi jarðar. Við blasir að þótt vonandi takist að hægja á losun næstu 30 árin muni hlýnunin óhjákvæmileg hafa stórfelldar neikvæðar breytingar á lífríki í för með sér og á aðstæður til ræktunar og búsetu á stórum svæðum jarðar. Eyðimerkur færast norður á bóginn með tilheyrndi röskun. Hrörnun náttúrulegra skóglenda, ekki síst greniskóga blasir þegar við í Mið-Evrópu, og ræktun korntegunda eins og hveitis er talið að muni leggjast af á stórum svæðum. Allt lífríki á undir högg að sækja við svo hraðfara breytingar, lágplöntur, skordýr og örverur ekki undanskilin.

Borgarsamfélög í neyðarstöðu

Svo alvarlega sem horfir um landbúnað á stórum svæðum vegna loftslagsbreytinga er ástandið sem blasir við umhverfi í þéttbýli og stórborgum síst vænlegra. Hækkun sjávarborðs sem þegar gætir víða, á hvarvetna eftir að herja í sívaxandi mæli á hafnarborgir og aðrar strandbyggðir. Hækkun meðalhita mun hafa lamandi áhrif á mannlíf, ekki síst að sumarlagi í borgum í grennd hvarfbauganna líkt og birtist í smækkaðri mynd í Mið-Evrópu sumurin 2018 og 2019. Slíkar breytingar leggjast fyrst af öllu þungt á gamalt fólk og farlama. Því er jafnframt spáð að steypiregn magnist með veðurfarsbreytingum komandi ára og með tilheyrandi álagi á frárennsliskerfi í þéttbýli. Þess sjást lítil merki að skipulagsyfirvöld í okkar heimshluta séu sér meðvituð um líklegar yfirvofandi umhverfisbreytingar og þarf raunar ekki að horfa lengra en til Reykjavíkur í því samhengi.

Maðurinn sjálfum sér verstur

Þær aðstæður sem nú blasa við mannkyni eru að meginhluta afleiðing iðnvæðingar í krafti kola og olíu í 2-3 aldir ásamt með hömlulausri gróðafíkn, nýlendu- og arðránsstefnu, sem náði hæðum í skjóli nýfrjálshyggju í tíð núlifandi kynslóða. Aukin þekking á sviði náttúruvísinda skilaði sér m.a. í auknum lífslíkum manna sem leitt hefur til þreföldunar á fjölda einstaklinga á jörðinni á skeiði einnar mannsævi (1930–2020). Þekking og stýring í átt að lífvænlegum samfélagsháttum hefur hins vegar á sama tíma ekki skilað sér og fyrir það líður nú ekki aðeins mannkynið heldur og allt umhverfi jarðar. Það er rétt sem rithöfundurinn Elizabeth Kolbert leggur út af í nýlegu ritverki, að  það er maðurinn – Homo sapiens –sem  hefur reynst hættulegsta lífveran á okkar annars yndislegu plánetu.

Aldrei of  seint að vitkast

Mannkynið sem nú er á dögum á verk fyrir höndum vilji það lifa af og ætla niðjunum einhverja framtíð. Sitthvað í alþjóðlegri umræðu þessa veirudaga getur vakið vonir þótt veikar séu um aukinn skilning á þeim ófarnaði sem mannkynið hefur komið sér í. Úrskurður Þýska stjórnlagadómstólsins (Bundesverfassungsgericht) 29. apríl sl. um þýsku loftslagsverndarlögin (Klimaschutzgesetz) fól í sér ákveðin tímamót sem fleiri en Þjóðverjar mættu nokkuð af læra. Efnislega sögðu dómararnir við löggjafann: Það gengur ekki að ætla sér að vísa byrðunum af boðuðum niðurskurði CO2 samkvæmt Parísarsamkomulaginu á framtíðarkynslóðir til að hlífa þeim sem nú eru á dögum við pólitískt óþægilegum ákvörðunum. Þessi dómur féll skömmu eftir að Annalena Baerbock, fulltrúi þýskra Græningja, var stigin á svið sem kanslaraefni. Merkel fyrrum kanslari skynjaði strax pólitíska hættu fyrir CDU og brást við dómnum með því að láta skerpa strax á loftslagslöggjöfinni í anda úrskurðar dómstólsins. 

Stjórnmál, einstaklingar og almannasamtök

Nútíðin er full mótsagna sem gera almenningi erfiðara fyrir en áður að ná áttum. Framboð fjölmiðlunar í formi léttmetis, slúðurs og falsfrétta trufla vökula og gagnrýna hugsun, sem aldrei var meiri þörf fyrir en nú. Aðstæður kalla á endurmat og ný gildi til styrkingar lýðræðislegum stjórnarháttum. Samþættar grænar lausnir eru nærtækar til bjargar á þessum óvissutímum, og ónefndar hetjur ásamt vökulum almannasamtökum leggja sitt af mörkum. Framtíðin er þarna, ef við viljum sinna kalli.Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim