Hjörleifur Guttormsson 31. ágúst 2021

Ávarp við opun sögusviðs á Valþjófsstað 15. ágúst 2021

Kæru Fljótsdælingar og aðrir viðstaddir.

Hugmynd mín um kynningu á sögu og umhverfi Valþjófsstaðar er nokkurra ára gömul. Fyrir Þjóðminjasafnið og fleiri hafði ég tekið að mér að skrifa um sögu kirkjustaða hér eystra þar sem nú standa friðaðar kirkjur 100 ára eða eldri. Valþjófsstaður kom þar ekki við sögu, enda kirkjan hér byggð 1966 og eldri kirkjur horfnar.
Mér hefur reyndar lengi þótt Valþjófsstaður dálítið útundan og ekki sá sómi sýndur sem hæfir einum sögufrægasta stað hér austanlands.

Mynd þess Valþjófsstaðar sem hér var lengst af í fortíðinni er harla óskýr fyrir gesti og gangandi . Núverandi kirkja er fjarri þeim stað þar sem flestir forverar hennar stóðu og síðasti prestbústaðurinn er tæpast lengur í sjónmáli héðan.

Gamli „staðurinn“ með kirkju og skála við fjallsrætur minnir ekki lengur á forna frægð og kirkjugarður sem honum tengdist á túninu hér upp af er orðinn bithagi og ósýnilegur með öllu.

Fyrstu minningar mínar um þennan stað eru frá sumrinu 1946. Ég fór þá frá Hallormsstað 10 ára gamall sem hestasveinn með föður mínum Guttormi Pálssyni skógarverði sem var að skoða skógarleifar hér í inndölum. Tók ferðin eina viku. Þá var hér prestur Marinó Kristinsson (1942–1960), futtur í nýbyggðan prestbústað og timburkirkjan frá 1888 stóð hér enn í kirkjugarðinum þar sem fyrst var byrjað að jarðsetja árið 1906. Ferðin með föður mínum um dalinn og reið á hestum yfir Jökulsá á Álavaði er mér ógleymanleg, ekki síst ferð inn í Kleifarskóg og einnig viðkoma hjá Gunnari skáldi og Francisku á Skriðuklaustri sem og dvöl í Hamborg sem nú er horfin.

Á árunum eftir 1950 lá svo leið mín á hverju sumri á samkomur í Végarði, fyrst á árabát yfir Lagarfljót frá Hallormsstað yfir í Brekku og þaðan gangandi drjúgan spöl á dansleikinn í gamla Végarði.

En snúum okkur nú að sögusviðinu:

Vinna við undirbúning þess hefur staðið frá ársbyrjun 2018, en þá sótti ég árangurslaust um styrk úr Fornleifasjóði til rannsóknar á  útlínum kirkjugarðsins forna. Það fór á sömu leið ári seinna en í samráði við Steinunni J Kristjánsdóttur fornleifasfræðing komst ég í samband við jarðsjárteymi, Ómar Valsson og Indriða Skarphéðinsson, sem könnuðu kirkjugarðsstæðið vorið 2019. Útlínur garðsins sáust vel í jarðsjánni en hvorki grafir eða legsteinar.

Í samráði við Guðmund Rafn Sigurðsson framkvæmdastjóra Kirkjugarðaráðs var ákveðið á fyrrihluta árs 2019 að útbúa hér sögusvið með upplýsingum um umhverfi og þróun kirkjustaðarins svo langt sem heimildir ná. Kynnti ég Gunnþórunni Ingólfsdóttur þáverandi sveitarstjóra og sóknarnefnd Valþjófsstaðar hugmyndina og sótti vorið 2019 formlega um styrk til Fljótsdalshrepps til að kosta umgjörð sögusviðsins. Barst mér fljótlega jákvætt svar frá hreppsnefndinni um styrkveitingu.
Sama vor, 2019, samþykkti stjórn Kirkjugarðasjóðs að kosta sjálfa skiltagerðina og hef ég síðan átt marga fundi með starfsmönnum sjóðsins, þeim Guðmundi Rafni Sigurðssyni framkvæmastjóra og Sigurgeir Skúlasyni sem annast hefur um gerð skiltanna. Sjálfur gerði ég tillögur um texta og myndefni. Jafnframt var sviðinu valinn þessi staður hér norðan við kirkjuna. Guðmundur Rafn gerði tillögu að útiliti og fyrirkomulagi svæðisins og réði Birgi Axelsson garðyrkjumeistara til að sjá um uppbyggingu þess. Sýnist okkur að vel hafi tekist til með umgjörðina.

Snemma í þessu ferli fékk ég þá hugmynd að koma fyrir innan sögusviðsins legsteinum frá tíð gamla kirkjugarðsins sem lagður var formlega niður á árunum 1906-1907. Þar er miðlægur legsteinn úr blágrýti, settur yfir Guttorm Vigfússon „stúdent“ bónda á Arnheiðarstöðum og eiginkonur hans, en Guttormur lést árið 1856. Guttormur stúdent var stórt nafn hér í sveit á sinni tíð og um skeið alþingismaður og annar þjóðfundarfulltrúi Norðmýlinga 1851. Sonarsonur hans var Guttormur J. Guttormsson skáld og bóndi í Kanada, fæddur þar 1878 þrem árum eftir að foreldrar hans Jón Guttormsson (1841–1896)  og Pálína Ketilsdóttir (1849–1886) fluttust til Vesturheims. Í einu heimsókn Guttorms skálds til Íslands sumarið 1938 rakst hann á legstein afa síns í vanhirðu hér utan garðs á Valþjófsstað, og að hans ráði var legsteinninn fluttur í skrúðgarð á Arnheiðarstöðum.

Að höfðu samráði við Eirík Kjerúlf  bónda á Arnheiðarstöðum og sóknarnefndina, sem hann á sæti í, var ákveðið að flytja legsteininn hingað, en áður var hann yfirfarinn hjá Steinkompaníinu í Reykjavík, fyrst og fremst til að skýra áletrunina. Hluta af kostnaði við þá aðgerð greiddu nokkir af ætt Þormara frá Geitagerði og höfðu frumkvæði um þá fjársöfnun hjónin Gunnlaugur Sigurðsson háskólakennari og Ragnheiður Þormar. Sóknarnefndarmennirnir Eiríkur Kjerúlf og Friðrik Ingólfsson önnuðust á eigin kostnað flutning til og frá Egilsstöðum.

Hin grafarmerkin tvö sem voru í reiðuleysi hér á staðnum, eru járnkrossinn yfir tvær mægður héðan frá Valþjófsstað og óvenjulegur legsteinn yfir Sæbjörn bónda á Hrafnkelsstöðum, sem lést 1896.

Að baki stuttorðum textum sem lesa má á skiltunum liggur mikið grúsk mitt í heimildum frá fyrri tíð, sem ekki verður rakið hér, en ég fékk marga til að lesa efnið yfir áður en gengið var frá þessum stuttu textum ásamt myndefni, sem sótt var einkum til Þjóðminjasafnsins og Ljómyndasafns Austurlands á Egilsstöðum, auk fáeinna nýlegra ljósmynda. Sérfróðir hönnuðir, þeir Guðmundur Ó Ingvarsson og Smári Þórhallsson teiknuðu uppdrætti á skiltin að minni beiðni. – Eins og áður sagði sá Sigurgeir Skúlason hjá Kirkjugarðasjóði um sjálfa skiltagerðina af mikilli fagmennsku.
Fróðleikur á skiltunum er úr ýmsum áttum. Sumt er tengt stafkirkjunni sem hér stóð í meira en 5 aldir og skurðverki hurðarinnar fornu sem kennd er við þennan stað. Bent er hér m.a. á rit um stafkirkjuna á þýsku upp á nær 400 blaðsíður. – Annað merkisverk sem vísað er til er þýðing Hjörleifs Þórðarsonar á Passíusálmum Hallgríms yfir á latínu og sem Hjörleifur prestur fékk útgefna í Kaupmannahöfn 1785, ári fyrir andlát sitt.

Að lokum vil ég óska Fljótsdælingum og öðrum Austfirðingum, sem og landsmönnum öllum til hamingju með þetta sögusvið og þakka öllum sem stuðlað hafa að gerð þess hjartanlega fyrir samstarfið.

Hjörleifur GuttormssonHjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim