Hjörleifur Guttormsson | 1. nóvember 2022 |
Óvissa í alþjóðamálum og vegið að stjórnarsamstarfi hérlendis Ekki skortir á frásagnir úr stjórnmálaheiminum þessar vikurnar, bæði af efnahagsþrengingum á meginlandi Evrópu, einkum Þýskalandi, sem tengdar eru rofi í orkusamskiptum við Rússa í kjölfar Úkraínustríðsins. Einnig fjölgar efasemdum um grundvöll alþjóðaviðskipta eins og þau hafa þróast á vegum Alþjóða viðskiptastofnunarinnar WTO og þjóða á milli nú í hálfa öld. Skipta þar mestu samskipti Bandaríkjanna og Kína sem risanna á heimsmarkaði og í vopnabúnaði á Kyrrhafssvæðinu. Lýsandi um versnandi samskipti og gjörbreytt andrúmsloft er víðtæk gagnrýni á fyrirhugaða heimsókn Olafs Scholz kanslara Þýskalands til Kína innan skamms. Kemur hún í kjölfar nýafstaðins flokksþings Kommúnistaflokks Kína undir altækri forystu Xi forseta til næstu 5 ára. Vaxandi sundrung innan ESB Innan Evrópusambandsins gætir vaxandi spennu og sundrungar, sem reynt er að draga fjöður yfir með gagnrýni og fordæmingum í garð Rússa í kjölfar árásar þeirra á Úkraínu. Vaxandi verðbólga er nú aðaláhyggjuefnið í Þýskalandi og Frakklandi, sem eru óumdeild kjölfesturíki sambandsins. Í Þýskalandi hafa verðhækkanir á nauðsynjum að undanförnu slegið öll met eftirstríðsáranna, raforkuverð hækkað um fimmtung frá fyrra ári og verð á mörgum lífsnauðsynjum fylgt í kjölfarið. Þýski seðlabankastjórinn gerir ráð fyrir 7% verðbólgu á næsta ári, og ýmsar efnahagsstofnanir þarlendis spá 9% verðbólgu eða þaðan af meira. (Die Zeit, 20. okt. 22) Brestir í forystu Sjálfstæðisflokksins Framboð Guðlaugs Þ. Þórðarsonar til formennsku í Sjálfstæðisflokknum hefur komið mörgum á óvart, einnig innan hans eigin flokks. Formlegur aðdragandi slíks framboðs gat ekki skemmri verið og ólíkar málefnaáherslur innan flokksins og gagnrýni á störf Bjarna Benediktssonar sem formanns til margra ára liggja ekki á lausu. Yfirlýsingar um ónóg fylgi Sjálfstæðisflokksins undir forystu Bjarna eru í augum undirritaðs barnalegar, m.a. með vísan í verulega hærra kjörfylgi fyrir hrun. Ég hef verið óflokksbundinn í áratug, en stuðningsmaður ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur frá því hún var mynduð haustið 2017. Þar hafa formenn flokkanna þriggja verið kjölfestan, sem væri augljóslega rofin án forystu Bjarna Benediktssonar í stærsta stjórnarflokknum. Hjörleifur Guttormsson |