Hjörleifur Guttormsson 1. nóvember 2022

Óvissa í alþjóðamálum og vegið að stjórnarsamstarfi hérlendis

Ekki skortir á frásagnir úr stjórnmálaheiminum þessar vikurnar, bæði af efnahagsþrengingum á meginlandi Evrópu, einkum Þýskalandi, sem tengdar eru rofi í orkusamskiptum við Rússa í kjölfar Úkraínustríðsins. Einnig fjölgar efasemdum um grundvöll alþjóðaviðskipta eins og þau hafa þróast á vegum Alþjóða viðskiptastofnunarinnar WTO og þjóða á milli nú í hálfa öld. Skipta þar mestu samskipti Bandaríkjanna og Kína sem risanna á heimsmarkaði og í vopnabúnaði á Kyrrhafssvæðinu. Lýsandi um versnandi samskipti og gjörbreytt andrúmsloft er víðtæk gagnrýni á fyrirhugaða heimsókn Olafs Scholz kanslara Þýskalands til Kína innan skamms. Kemur hún í kjölfar nýafstaðins flokksþings Kommúnistaflokks Kína undir altækri forystu Xi forseta til næstu 5 ára.

Vaxandi sundrung innan ESB

Innan Evrópusambandsins gætir vaxandi spennu og sundrungar, sem reynt er að draga fjöður yfir með gagnrýni og fordæmingum í garð Rússa í kjölfar árásar þeirra á Úkraínu. Vaxandi verðbólga er nú aðaláhyggjuefnið í Þýskalandi og Frakklandi, sem eru óumdeild kjölfesturíki sambandsins. Í Þýskalandi hafa verðhækkanir á nauðsynjum að undanförnu slegið öll met eftirstríðsáranna, raforkuverð hækkað um fimmtung frá fyrra ári og verð á mörgum lífsnauðsynjum fylgt í kjölfarið. Þýski seðlabankastjórinn gerir ráð fyrir 7% verðbólgu á næsta ári, og ýmsar efnahagsstofnanir þarlendis spá 9% verðbólgu eða þaðan af meira. (Die Zeit, 20. okt. 22)

Í Frakklandi eru efnahagshorfurnar ekki síður tvísýnar og við bætast víðtæk verkföll sem m.a. bitna á viðhaldi fjölda kjarnorkuvera sem bíða úrbóta. Frönsk stjórvöld óttast endurtekningu á víðtækum verkföllum „Gulu vestanna“ sem einkenndu fyrra kjörtímabil Macrons forseta. Þar fer fyrir Jean-Luc Mélenchon, gamall keppinautur Macrons, studdur m.a. af rithöfundinum Annie Ernaux, sem á dögunum fékk Nóbelsverðlaun í bókmenntum. Staða fylgismanna Macrons er veik í franska þinginu, þar sem enginn einhlítur meirihluti er til staðar. Því getur brugðið til beggja vona um stöðu stjórnar hans á nýbyrjuðu kjörtímabili.

Á Ítalíu, þriðja stærsta ríki innan ESB, er nýkomin til valda eindregin hægristjórn af óvenjulegum toga. Sigurvegarar þingkosninga í síðasta mánuði urðu „Bræður Ítalíu“, flokkur með nýfasískar rætur undir forystu Giorgia Meloni. Er hún í bandalagi við aðra rómaða hægriflokka undir forystu Matteo Salvini og Silvio Berlusconi, sá síðastnefndi m.a. þekktur fyrir vinfengi við Pútín.

Samfylkingin stefnir áfram að fullri ESB-aðild

Á landsfundi Samfylkingarinnar um síðustu helgi var ítrekuð sú stefna flokksins að berjast fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu. Í ályktun landsfundarins undir fyrirsögninni „Samfylkingin er Evrópuflokkur“ segir: „Samfylkingin vill efla og dýpka þessa samvinnu og stefnir að fullri aðild að Evrópusambandinu með upptöku evru að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“ Hér hefur því ekkert breyst frá fyrri stefnu flokksins. Nýkjörinn formaður, Kristrún Frostadóttir, vildi að vísu koma þeirri skoðun sinni á framfæri „að huga þurfi að fleiru“ og að hægt sé að vera í flokknum  „... án þess að þú sért sannfærð um ágæti Evrópusambandsins.“ (Fréttablaðið 29. okt. 2022) Reynt var þannig að láta líta svo út sem hér væri á ferðinni einhver stefnubreyting, en sjálf landsfundarsamþykktin talar sínu máli.

Með nú ítrekaðri Evrópustefnu sinni undirstrikar Samfylkingin það viðhorf sem lokaði um síðustu aldamót á samruna Alþýðuflokksins og Alþýðubandalagsins. Nýr flokkur, Vinstrihreyfingin grænt framboð, varð þá til og setti umhverfismálin á dagskrá sem grundvallarþátt.

Brestir í forystu Sjálfstæðisflokksins

Framboð Guðlaugs Þ. Þórðarsonar til formennsku í Sjálfstæðisflokknum hefur komið mörgum á óvart, einnig innan hans eigin flokks. Formlegur aðdragandi slíks framboðs gat ekki skemmri verið og ólíkar málefnaáherslur innan flokksins og gagnrýni á störf Bjarna Benediktssonar sem formanns til margra ára liggja ekki á lausu. Yfirlýsingar um ónóg fylgi Sjálfstæðisflokksins undir forystu Bjarna eru í augum undirritaðs barnalegar, m.a. með vísan í verulega hærra kjörfylgi fyrir hrun. Ég hef verið óflokksbundinn í áratug, en stuðningsmaður ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur frá því hún var mynduð haustið 2017. Þar hafa formenn flokkanna þriggja verið kjölfestan, sem væri augljóslega rofin án forystu Bjarna Benediktssonar í stærsta stjórnarflokknum.Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim