Hjörleifur Guttormsson | 6. október 2022 |
Hið íslenska þjóðvinafélag minnir á sig Það var vel til fundið hjá stjórn Hins íslenska þjóðvinafélags að efna til málþings í tengslum við 150 ára afmæli félagsins sem stofnað var við lok Alþingis 1871. Fór það fram laugardaginn 1. október í hugmyndahúsinu Grósku í Vatnsmýri. Forseti félagsins er nú Guðrún Kvaran hjá Árnastofnun sem flutti ávarp í upphafi, en síðan setti Birgir Ármannsson forseti Alþingis málþingið og undirstrikaði með því upphafleg tengsl félagsins við þingmenn og Alþingi þess tíma. Yfirskrift þessarar afmælisráðstefnu var „Bjartsýnisspá fyrir árið 2071“ og í samræmi við það rýndu 6 fyrirlesarar fram á veg, hver með sínum hætti. Öll voru erindi þeirra áhugaverð og ættu vel heima sem vegarnesi í Andvara, tímariti HÍÞ sem komið hefur út nær árvisst frá árinu 1884 að telja. Hugmynd Þingeyinga Fyrir tilkomu stjórnarskrárinnar 1874 kom Alþingi saman annaðhvert ár, auðvitað að sumarlagi, að jafnaði í júlí og ágústmánuði. Á árinu 1869 ræddu stuðingsmenn Jóns Sigurðssonar forseta um það sín á milli að nauðsyn bæri ril að treysta fjárhagsstöðu hans og Nýrra félagsrita með samskotum. Beittu forystumenn Suður-Þingeyinga þeir Tryggvi Gunnarsson, Einar Ásmundsson og Jón Sigurðsson á Gautlöndum sér fyrir fjársöfnun í héraði sumarið 1870 og ræddu áform um félagsstofnun til stuðnings Jóni forseta. Undir lok Alþingis 1871, síðdegis laugardaginn 19. ágúst, komu 17 þingmenn saman og gengu formlega frá stofnun Hins íslenska þjóðvinafélags, samþykktu lög þess og kusu því stjórn.. Er þetta því talinn hinn formlegi stofndagur Hins íslenska þjóðvinafélags. Var Jón Sigurðsson forseti þess frá byrjun og til dauðadags 1879. Hver þingmaður lagði fram fjárupphæð, 10 eða 20 ríkisdali í sjóð þessa nýja félags, og var gert ráð fyrir að skráðir félagsmenn greiddu síðan árgjald, þingmenn 2 ríkisdali en almennir félagar mun lægri upphæð. Félagið var að inntaki pólitískt í upphafi og hefur stundum verið kallað fyrsti stjórnmálaflokkurinn hérlendis. Var ákveðið að það hæfi útgáfu tímarits, sem hlaut nafnið Andvari, og kom fyrsta hefti þess út árið 1884. Félagið stóð fyrir myndarlegum Þingvallafundi sumarið 1873 og síðan fjölsóttri samkomu og móttöku á Þingvöllum fyrir Kristján níunda Danakonung á 1000 ára afmæli Íslandsbyggðar 1874. Hlutur kynslóðanna Í hópi stofnendanna seytján var m.a. Sigurður Gunnarsson prestur, fyrrum þjóðfundarfulltrúi og árið 1871 þingmaður Sunnmýlinga, langafi þess sem hér heldur á penna. Hann var eins og flestir Austfirðingar eindreginn stuðningsmaður Jóns forseta, þótt borið hafi nokkurn skugga á í fjárkláðamálinu margræmda áratug fyrr. Að þinginu loknu 22. ágúst þetta árið beið hans heimferð sem hann kaus sér norður um Sprengisand. Þar var hann einn á ferð með hest sinn og náttaði m.a. í Kiðagili. Honum þóttu kjósendur sínir eystra hins vegar ekki fylkja sér sem skyldi um þetta nýja félag, en þó skilaði það sér til næstu kynslóða. Þannig var faðir minn lengi umboðsmaður þess á Upphéraði á öldinni sem leið og lét ungviði á Hallormsstað hjálpa sér við framsendingu á Andvara og Almanaki til áskrifenda þar um slóðir. Hefur mátt ganga að tímariti þessu vísu, ef undanskilin eru árin 1892 og 1898, og almanakið auðvitað ómissandi leiðsögn um dagaheiti og helstu undanfarna viðburði. Áherslur málshefjenda Allir framsögumenn á málþinginu leituðust við að fylgja tilmælum skipuleggjenda um „bjartsýnisspá“ fyrir mannheim að 50 árum liðnum. Fór þó ekki hjá því að minnt væri á að umhverfismálin séu stórkostlegt áhyggjuefni. Mikil fjölgun innflytjenda kalli líka á allt önnur málstök en hingað til varðandi íslenskukennslu, framboð á námsleiðum og kynningu á meginreglum samfélagsins, meðal annars stjórnarskránni. Leggja þurfi mun ríkari áherslu en hingað til á að verja sveigjanlega samfélagsgerð og lýðræðisleg gildi. Vonandi fá sem flestir aðgang að þeim hollráðum sem framsögumenn og þátttakendur í umræðum hér veittu undir stjórn Friðriks Pálssonar. Almannasamtök eins og Hið íslenska þjóðvinafélag gegna meira hlutverki nú en áður í að treysta þær stoðir sem standa þurfa undir lýðræði og farsælli framtíð. Hjörleifur Guttormsson |