Hjörleifur Guttormsson 8. mars 2022

Stríðsógnin er ekki ný, en skelfilegri sökum nálægðar Úkraínu

Innrás Rússa í Úkraínu og hernaðarátökin þar upptaka nú hugi manna hérlendis og víða um heim. Eftir sæmilegan frið í Evrópu frá lokum Bosníustríðsins 1995, hafa bein styrjaldarátök nær alltaf verið á fjarlægari slóðum. Þarf ekki annað en minna á Írak og Afganistan þar sem Bandaríkin og ýmsar bandalagsþjóðir þeirra voru beinir þátttakendur eins og Rússar nú um árabil í Sýrlandi með hernaðarstuðning við þarlend stjórnvöld. Hver slík hrina vopnaðra átaka hefur sinn sögulega bakgrunn og varðandi Úkraínu má rekja slóðina aldarþriðjung til baka frá falli Sovétríkjanna og lengra ef að er gáð. Hvað sem segja má um þróun mála síðan 1990 í samskiptum Rússlands og Vestur–Evrópu, blasir nú við fordæmanleg allsherjar innrás Rússa í Úkraínu, skelfilegur atburður sem draga mun á eftir sér langan slóða.   

Hervald gegn friðsamlegum samskiptum

Fólk spyr eðlilega hvað hafi fengið forráðamenn Rússlands með Pútín fremstan í flokki til að gera innrás í grannríkið Úkraínu. Engar skýringar fást sem réttlæti ofbeldið og þaðan af síður hvernig tryggja eigi friðsamlega sambúð þessara granna í kjölfar afarkosta sem kunna að nást með vopnavaldi. Áður en allsherjarinnrás var ákveðin af hálfu Rússa á Úkraínu virtist mörgum  áróðursstaða Pútíns ekki sem verst, en dæmið hefur nú algjörlega snúist við í kjölfar innrásarinnar. Afleiðingarnar eru margvíslegar og skelfilegar til skamms tíma litið, mannfall og gífurlegur straumur flóttamanna til vesturs og ómæld áhrif á viðskipti, til mikils  gagnkvæms tjóns fyrir alla hlutaðeigandi. Einnig munu átökin verða þungbær fyrir orkubúskap margra landa vegna samdráttar í jarðgasi frá Rússlandi, sem m.a. hefur verið ætlað að brúa bilið í orkuskiptum til að draga úr kolefnislosun. Enginn efast um hernaðarlega yfirburði Rússa gagnvart Úkraínu, en hvernig samskipti eiga að komast í horf á ný í milli þessara ríkja sem og í vesturátt er óráðin gáta.

Eykur á hættuna af loftslagsbreytingum

Afleiðingar hertöku Rússa á Úkraínu verða mikil og margvísleg (grein þessi skrifuð 1. mars), einnig horft til lengri tíma. Aukin hervæðing NATÓ sem nú er boðuð, m.a. í Þýskalandi þvert á fyrri stefnu, dregur í senn athygli og fjárhagslegan kraft frá glímunni við önnur stór og knýjandi vandamál sem að mannkyni steðja. Svo vill til að um leið og gífurlega kostnaðarsamar ákvarðanir um hernaðaruppbyggingu eru nú teknar, birtist sl. mánudag ný skýrsla frá loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna um afleiðingar hlýnunar af mannavöldum á samfélög og lífskjör. Skýrsla þessi er afurð af fjögurra ára starfi 270 vísindamanna frá 67 þjóðlöndum. Meðal niðurstaðna má nefna eftirfarandi:

  • Um 3,5 milljarðar manna eru nú í afar viðkvæmri stöðu gagnvart áframhaldandi loftslagsbreytingunum.
  • Tjónið sem þegar er orðið á vistkerfum jarðar er víðtækara og alvarlegra en áður var talið.
  • Fjöldi lífverutegunda er í hættu að deyja út og hverfa alfarið.
  • Meirihluti mannkyns sem býr í „þriðjaheimsríkjum“, á arktískum svæðum og í litlum eyríkjum er í mikilli og vaxandi hættu af loftslagsbreytingum.

Hernaðurinn í löndum þriðja heimsins

Það vill gleymast í fréttaflaumi dagsins að fjöldi stríða og blóðugra hernaðarátaka hefur geisað á síðustu áratugum, að ekki sé horft aftur til  heimsstyrjaldarinnar 1939-1945, sem er undirrituðum í fersku minni. Sumt af þessum átökum voru innan Sovét-svæðisins (Ungverjaland 1956, Tékkóslóvakía 1968), mörg  önnur mannskæðari og langvinnari voru háð af Vesturveldunum gagnvart þriðja heims ríkjum og þarlendum valdhöfum (Vietnam, Írak og Afganistan). Jafnvel Ísland studdi opinberlega hernað  NATÓ gegn Libíu undir einræðisstjórn Gaddafis 2011. Ótalið er hversu margar þúsundir þarlendra þá féllu og létust í kjölfar„hreinsunar“  og borgarastríðs í kjölfarið.

Friður tengdur afvopnun lykilatriði

Risavaxin opinber útgjöld fjölda ríkja til hermála eru einkenni okkar tíma. Samkvæmt óháðum rannsóknastofnunum (SIPRI 2022) eru Bandaríkin með langhæst árleg hernaðarútgjöld eða 778 milljarða dala ($), Kína í öðru sæti með 252 milljarða, Indland 73 milljarða og Rússland í 4. sæti með tæpa 62 milljarða dala. Ísland er í hópi 36 smáríkja sem hafa engan her. Í heimi þar sem stór hluti mannkyns býr við fátækt og skort ætti almenn afvopnun að vera forgangsatriði ásamt virðingu fyrir fullveldi þjóða.



Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim