Hjörleifur Guttormsson 10. febrúar 2022

Mannkyn í tvísýnni glímu við eigin umhverfisáhrif

Nú er hálf öld  liðin frá því að umhverfismál komu fyrst fyrir almenningssjónir sem viðfangsefni er varðar framtíð alls mannkyns. Árið 1972 birtist mönnum rit Rómarsamtakann Limits to Growth sem brátt kom einnig út í íslenskri þýðingu undir heitinu Endimörk vaxtarins. Að samtökunum stóð hópur einstaklinga úr öllum heimsálfum, kvaddur saman af ítalska iðnjöfrinum Aurelio Peccei. Einnig kom út þetta sama ár rit svissneska verkfræðingsins Ernst Baslers sem á þýsku bar heitið Strategie des Wachstums eða Forsendur vaxtar. Þar var kynnt hugmyndin um sjálfbærni (Sustainability, á þýsku Nachhaltigkeit) sem grundvöllur fyrir farsælli framtíð.  Á þessu sama ári, 1972, efndu Sameinuðu þjóðirnar til fyrstu stóru ráðstefnunnar um manninn og umhverfi hans í Stokkhólmi  undir kjörorðinu Only one earth. Þar var deilt um veigamikil atriði en þó grunnur lagður að því starfi Sameinuðu þjóðanna sem skilaði á Ríó-ráðstefnunni 20 árum síðar stóru alþjóðasamningunum um loftslag og lífríki.

Margföldun mannfjöldans

Ein af stórum breytum síðustu 100 árin er gífurleg aukning mannfjölda. Um er að ræða fjórföldun á þessum tíma, frá 2,5 upp í um 8 milljarða þegar á yfirstandandi ári. Þótt fátækasti hluti þjóða heims búi við hungurmörk leggur hann sitt til um viðkomu. Stærsti þátturinn til að ná sæmilegu jafnvægi í fólksfjölda er tvímælalaust að bæta hvarvetna réttarstöðu kvenna þannig að konur öðlist vald yfir eigin líkama og fjölskyldustærð. Þrátt fyrir réttarbætur víða ganga þær umbætur alltof hægt og því gera spár um þróun fólksfjölda ráð fyrir að hann vaxi amk. upp í 11 milljarða í lok þessarar aldar sem eykur óhjákvæmilega á þann vanda sem við er að fást.

Ógnin af hlýnun loftslags

Umræðan á síðasta ári  um loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna er mönnum væntanlega í fersku minni.  Þar náðist ákveðinn áfangi á 26. ársfundi samningsaðila í nóvember sl. í Glasgow.  Til upprifjunar má nefna að sameiginleg meginniðurstaða þeirra 197 ríkja sem þar áttu hlut að máli var að leitast skuli við að takmarka meðaltalshlýnun við 1,5oC og að ná kolefnishlutleysi sem víðast fyrir eða um miðja öldina. Ísland hefur sett sér slíkt markmið ekki síðar en árið 2040. Hjá hverju aðildarríki og alþjóðlega verður horft til þess hvernig til tekst frá ári til árs sem og um þá aðstoð við þróunrríki sem fyrirheit eru gefin um. Veirufaraldurinn sl. tvö ár hefur vissulega skyggt á alþjóðaumræðu um vandann af völdum hlýnunar, en hann minnir hins vegar stöðugt á sig með æ voveiflegri hætti.
Eðlilega hafa skuggalegar horfur og óvissa mest áhrif á þá sem nú eru að vaxa úr grasi. Framganga Gretu Thunberg hefur vakið alheimsathygli og hreyfingin Fridays for future minnir reglulega á hvað í húfi er. Upplýsingar sem Fréttablaðið hafði 1. febrúar sl. eftir Kristjáni Vigfússyni, sérfræðingi við Viðskiptadeild  Háskólans í Reykjavík, um kvíða ungs fólks vegna loftslagsmálanna eiga ekki að koma á óvart og þær styðjast við alþjóðlegar kannanir. Hann benti þar réttilega á að stjórnvöld verði hér að bregðast við með auknum krafti og segir: „Við erum kannski að tala um stærsta markaðsbrest sem mannkynið hefur staðið frammi fyrir. Hið kapítalíska hagkerfi  ræður ekki við verkefnið. Það er þörf á aukinni miðstýringu. Ríkið þarf að stíga fastar inn og setja sérstaklega fyrirtækjum fastari skorður.“  

Hraðfara fækkun tegunda

Samningur Sameinuðu þjóðanna um lífræðilega fjölbreytni frá 1992 hefur verið nokkuð í skugga út af áhyggjunum vegna þróunar loftslagsmála. Þessi samningur fær nú hins vegar æ meiri athygli, ekki síst í ljósi fækkunar og útdauða fjölmargra tegunda lífvera. Af um 8 milljónum lífverutegunda, dýra og plantna, er nú um ein milljón talin í útrýmingarhættu vegna áhrifa manna á umhverfi jarðar. Hátt í 200 ríki eru aðilar að þessum  samningi, sem Ísland gerðist formlegur aðili að og lögfesti árið 1994. Lengi vel var ákvæðum hans hins vegar lítill gaumur gefinn hérlendis. Árið 2010 samþykktu aðildarríki samningsins heimsmarkmið um net verndaðra svæða og um viðkvæm vistkerfi sem mikilvæg eru fyrir líffræðilega fjölbreytni. Nýlega voru síðan á 15. ráðstefnu aðildarríkja þessa samnings (COP-15) sett fram 21 áhersluatriði til að keppa að á næstu árum; verða þau væntanlega til umræðu í Genf í næsta mánuði og til staðfestingar aðildarrríkja á framhaldsfundi í Kína síðar á þessu ári. Þessar áherslur varða m.a. víðtækar friðlýsingar á sjó og landi og baráttu gegn dreifingu framandi innfluttra tegunda, sem alaskalúpína er þekktast dæmi um hérlendis. Fulltrúar fjögurra ráðuneyta hafa unnið að undirbúningi á afstöðu og framlagi Íslands til þessara tillagna. Hefur m.a. verið kallað eftir mati Náttúrufræðistofnunar og Hafrannsóknastofnunar á stöðu og þróun lífríkis á landi og sjó við Ísland með hliðsjón af samningnum. Að þessari vinnu þarf að gefa aukinn gaum.

Umhverfisvernd og stjórnmálastefnur

Saga síðasta mannsaldurs sýnir okkur að ráðandi öfl í flestum ríkjum heims hafa ekki reynst læs á það umhverfi sem máli skiptir fyrir framtíð og velferð mannkyns sem hluta af lífríki jarðar. Hugmyndin um manninn sem herra jarðarinnar, æðri öðrum lífverum, hefur reynst svikult vegarnesti. Auðsöfnun á kostnað umhverfis og almannahags hefur leitt Homo sapiens í þá blindgötu sem hann nú er staddur í. Þetta blasti við sjáandi einstaklingum fyrir 50 árum og nú er ekki seinna vænna að ná áttum.



Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim