Hjörleifur Guttormsson 15. september 2022

Skuggalegar horfur um veröld víða

Á almanakinu er komið haust, með óvenjustórum vandamálum á heimsvísu til skemmri og lengri tíma litið. Öll eru þau manngerð, tilkomin á löngum tíma vegna búskaparhátta mannsins, tegundar sem kallar sig vitiborna (Homo sapiens), en hefur valdið þeirri stöðu sem nú blasir við. Í heilan mannsaldur hefur legið fyrir, stutt af mælingum og fjölþættum rannsóknum, að sívaxandi losun gróðurhúsalofts af mannavöldum stefnir umhverfi jarðar í voða. Í ljósi þessa sameinuðust stjórnir flestra ríkja heims um Parísarsamkomulagið 2015 með heitstrengingum um gagnaðgerðir. Við þær hafa síðan verið bundnar vonir, en þær hafa enn sem komið er skilað litlu sem engu í reynd. Afleiðingar stigvaxandi hlýnunar lofthjúpsins hafa á liðnu sumri víða birst í um í 40–50 gráðu hita, staðbundinni úrkomu í áður óþekktum mæli, eins og m.a. blasir við í Pakistan, og skógareldum víða á norðurhveli jarðas.

Úkraínustríðið olía á eld

Árásarstríð Rússa gegn Úkraínu hefur nú staðið í hálft ár og enginn sér fyrir endann á þeim átökum. Hætta hefur verið yfirvofandi á stórfelldu kjarnorkuslysi vegna átaka um kjarnorkuverið í Zebrenitsa, en fyrir milligöngu alþjóðastofnunar hefur dregið úr henni í bili. Gagnsókn Úkraínuhers á síðustu vikum með stuðningi af vopnasendigum vestan að bendir til að langt sé í land að línur skýrist eða að einhvers konar samkomulag náist milli stríðandi fylkinga. Afleiðinga þessa staðbunda stríðs gætir um allan heim, í röskun á framboði á hveiti í mörgum þróunarríkjum og alveg sérstaklega í stórfelldum erfiðleikum í orkubúskap í Vestur-Evrópu eftir að lokast hefur að mestu fyrir gassölu þangað frá Rússlandi. Staðan er sérstaklega viðkvæm í Þýskalandi þar sem víðtækar ráðstafanir vegna verðhækkana á jarðgasi hafa knúið stjórnvöld til róttækra ákvarðana um orkuverð og takmarkanir á orkuframboði. Líklegt er að samdráttur og lokun á gasi um Nord Stream leiðsluna frá Rússlandi eigi eftir að seinka umskiptum í þágu vistvænna orkugjafa og leiða af sér miklar verðhækkanir á orku og afleiddum afurðum.

Útvíkkun NATÓ til austurs

Spenna í samskiptum milli Rússlands og Vesturveldanna eftir fall Sovétríkjanna 1991 hefur farið stigvaxandi og tengist ekki síst útfærslu NATÓ-aðildar á fyrrum ríkji Varsjárbandalagsins sem lagt var niður 1991. Stækkun NATÓ í austurátt gerðist í 5 skrefum á tímabilinu 1999 til 2020. Fyrstu fyrrum austantjaldsríki til að ganga í NATÓ 1999 voru Pólland, Tékkland og Ungverjaland. Árið 2004 bættist við stór hópur landa: Eystrasaltsríkin þrjú,  Rúmenía og Búlgaría svo og Slóvakía og Slóvenía. Síðar fylgdu í kjölfarið Albanía og Króatía (2009) , Montenegro (2017) og Norðurmakedónía (2020). Senn bætast nú við Svíþjóð og Finnland sem þegar hafa samþykkt aðild og aðeins formsatriði eftir í innkomu þeirra, sem beint verður rakin til innrásarinnar í Úkraínu. Er þar um að ræða þungt högg gagnvart Rússlandi og Pútín, sem allt frá öryggisráðstefnunni í Mṻnchen á árinu 2007 hefur lýst stækkun Nató í austurátt sem brot á loforði Vesturveldanna við Michael Gorbatsjoff sem forseta Sovétríkjanna 1990. Nýlega hafa verið rifjuð upp orð bandaríska sagnfræðingsins og sendiherrans George F. Kennan í New York Times 1997, sem þá sagði „að stækkun NATO væru alvarlegustu mistök í stefnu Bandaríkjanna eftir lok kalda stríðsins“. Þau myndu kynda undir þjóðrembu og hernaðarhyggju af hálfu Rússa. (Die Zeit, 4. mars 2022)

Gífurlegur straumur flóttamanna

Straumur flóttamanna frá Úkraínu er nú sá mesti í Evrópu frá lokum seinni heimsstyrjaldar, talinn í milljónum, mikill meirihluti konur og börn. Evrópusambandið hefur opnað fyrir móttöku þeirra og dvöl í þrjú ár án þess að sótt sé formlega um hæli. Stærsti hópurinn hefur eðlilega staldrað við í Póllandi, margir í von um að geta snúið aftur til heimalandsins. Þar hefur almennt verið tekið vel á móti þeim og reynt að koma börnum í skóla svo skiptir hundruðum þúsunda. Þótt tungumálin séu skyld, eru þau af mismunandi slavneskum stofnum og skiljast ekki án kunnáttu og reynslu. Eykur það í fyrstu á erfiðleika í skólastarfi. Siðir og saga þjóðanna eru líka með ólíkum hætti, fjandskapur og blóði drifnar væringjar miklar fyrr á tíð, m.a. á síðustu öld þegar vesturhluti Úkraínu heyrði undir Pólland, þar á meðal borgin Lviv. Pólverjar eru nú mjög einsleitur hópur andstætt því sem gerðist fyrr á tíð og stjórvöld þar þekkt fyrir annað en frjálslynda stefnu í samskiptum við aðra, m.a. innan Evrópusambandsins. Dragist Úkraínustríðið á langinn getur því slegið í bakseglin í samskiptum við flóttamennina.

Kína, Bandaríkin og Taivan

Önnur púðurtunna á alþjóðavísu minnti á sig nýlega þegar Nancy Pelosi forseti Bandaríkaþings heimsótti Taivan 2. ágúst síðastliðinn í fylgd með 5 þingmönnum demókrata. Þar hitti hún forseta Taivan og tók við æðsta heiðursmerki úr hans höndum. Með þessu braut hún ekki aðeins gegn eindregnum mótmælum stjórnvalda í Peking heldur einnig aðvörunum frá Joe Biden forseta Bandaríkjanna sem tjáði sig þegar fyrst fréttist af fyrirhuguðu ferðlagi hennar. Í grein í Washington Post tengdi Pelosi heimsókn sína til Taivan við stríð Rússa gegn Úkraínu. Í aldarfjórðung eftir heimsókn Newt Gingrich þá þingforseta til Taivan (1997) hafði enginn hliðstæður atburður átt sér stað. Það sýnir best hversu alvarlegt skref þingforsetinn tók, að Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna sá sig tilneyddan að gefa út sérstaka yfirlýsingu vegna ferðar hennar, þar sem hann sagði: „Við viljum ekki einhliða breytingar frá status quo af beggja hálfu. Við styðjum ekki sjálfstæði Taivan.“  Mótmæli Kínastjórnar vegna heimsóknarinnar og heræfingar í grennd Taivan á undan og eftir minna hins vegar á þá púðurtunnu sem hvenær sem er getur sprungið í þessum heimshluta.

Komandi vetur afdrifaríkur

Þau alvarlegu mál sem hér hefur verið staldrað við verða í brennidepli heimsmála á næstunni. Þau varða alla heimsbyggðina og ekki síst uppvaxandi kynslóð. Varðveisla heimfriðar og lífvænlegt umhverfi eru lykilatriði sem snerta Íslendinga eins og aðrar þjóðir. Höldum því vöku okkar og leggjumst með á árar.



Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim