Hjörleifur Guttormsson 18. janúar 2022

Áskoranir og hugleiðingar um áramót

Áramót eru að baki með viðleitni stjórnmálaforingja nær og fjær til að gera upp fortíðina og vísa fram á veg. Ekki fór hjá því að COVID-veiran með sínu nýja omíkron-afbrigði setji enn mark sitt á umræðuna, og eðlilega gætir hvarvetna þreytu eftir tveggja ára glímu við þennan vágest. Vonir studdar af sérfræðingum benda þó til að hann komi til með að láta undan nú á þriðja ári faraldursins. Sóttvarnarlæknir með sínu teymi hefur skilað ómetanlegu starfi sem notið hefur stuðnings stjórnvalda og almennings. Tilraunir til andstöðu, nú síðast gegn bólusetningu barna, hafa enga fótfestu fengið, enda byggðar á rökleysu andstætt fræðilegri þekkingu og reynslu. Veirufaraldurinn hefur skyggt  á önnur og stærri alþjóðleg vandamál mannkyns, þar sem hæst ber til lengri tíma litið loftslagsbreytingar af mannavöldum. Samkomulagið sem náðist á COP-26 ráðstefnunni í Glasgow var hins vegar mikilvægur áfangi, sem vonandi verður hægt að nýta til að hamla gegn losun CO2 og annarra gróðurhúsalofttegunda. Ýmsar blikur eru hins vegar á lofti sem teflt geta þeim áformum í tvísýnu.

Óvissan í bandarískum stjórnmálum

Nýleg upprifjun fjölmiðla um árásina á þinghúsið í Washington 6. janúar í fyrra af hörðustu liðsmönnum Trumps fyrrverandi forseta hefur minnt á mikla óvissu um framvindu mála í Bandaríkjum. Líkur benda til að Trump keppi að endurkjöri í forsetakosningum 2024 og fyrir lok þessa árs gætu Repúblikanar og stuðningsmenn hans hafa náð meirihluta í annarri hvorri eða jafnvel báðum deildum Bandaríkjaþings. Talið er að full 70% af kjósendum Repúblikana í fosetakosningunum 2020 telji enn að Trump hafi í raun farið með sigur af hólmi. Tímaritið The Economist segir í leiðara (1. janúarhefti 2022) mikla hættu og óvissu blasa við í bandarískum stjórmálum, ef fram heldur sem horfir. Fáum dylst að elli sækir að núverandi forseta, Joe Biden, en keppinauturinn Trump er aðeins fjórum árum yngri. Helsti keppinautur Bidens sem frambjóðanda Demókrata 2020 var Bernie Sanders, talinn standa nokkuð til vinstri í stjórnmálum. Eftir að hafa síðan látið lítið í sér heyra, segir hann nú að Demókratar verði að breyta um stefnu hliðhollari verkafólki, því annars stefni í stórtap flokksins í þingkosningunum í nóvember næstkomandi.

Evrópusambandið klofið í orkumálum

Í framkvæmdastjórn ESB hefur að undanförnu verið tekist á um framtíðarstefnu í orkumálum vegna loftslagsbreytinga. Meirihluti virðist þar fyrir því að viðurkenna rafmagnsframleiðslu með kjarnorku sem umhverfisvænan orkugjafa þrátt fyrir að geislavirkur úrgangur frá slíkri framleiðslu sé óleyst og varanlegt vandamál, sem enginn kýs að hafa í sínu nágrenni. Um þetta hefur mikið verið deilt um áratugi enda vandamálið blasað við vegna stórslysa í kjarnorkuverum eins og Tschjernobyl og Fukusima. Hér er á ferðinni háskaleg nærsýni og tvíhyggja af hálfu ríkja innan ESB, sem framleiða og nýta rafmagn frá kjarnorkuverum, fremst í flokki Frakkland og Finnland studd af mörgum ESB-ríkjum í austanverðri álfunni frá Póllandi suður til Balkanskaga. Í andstöðu eru m.a. Þýskaland, Austurríki og Danmörk, en Þjóðverjar eru þessi árin að loka síðustu kjarnorkuverum sínum. Deilur um þessi efni hafa staðið um nokkurt árabil í tengslum við skilgreiningu á umhverfisvænni „grænni“ fjárfestingu undir merkinu „EU Taxonomy“. Óhjákvæmilega verður þetta áfram deilumál innan ESB, þar sem raforka er ekki einangruð afurð innan landamæra hvers aðildarríkis.

Þjóðverjar veðja á vindinn.

Ný ríkisstjórn Þýskalands undir forsæti sósíaldemókratans Scholz settist að völdum 8. desember sl. Þjóðverjar kenna stjórn hans við  götuljósin: Rauð-græn-gul (Ampel regierung). Ráðherra efnahags- og  loftslagsmála í stjórninni er Robert Habeck (52ja ára) frá Græningjum, og með honum er nú fylgst af mörgum vegna boðaðra breytinga í orkumálum. Fram til 2030 eiga 80% alls rafmagns í Þýskalandi að koma frá endurnýjanlegum orkulindum, en það hlutfall er nú aðeins 42%. Stór hluti þessarar orku á að koma frá vindafli og í því skyni er áætlað að reisa árlega 1000–1500 vindmyllur, sem er margfalt meira en sést hefur hingað til. Það tók Þjóðverja 30 ár að ná núverandi hlut í endurnýjanlegri orku, en þann þátt á nú að tvöfalda á aðeins 8 árum og raunar á skemmri tíma, þar eð enn er að bætast í losun á CO2. Habeck hefur áður glímt við hliðstæð verkefni sem ráðherra orkumála í Schleswig-Holstein, en nú er allt Þýskaland undir og ekkert smáræði við að fást.

Mikilvægi virkra fjölmiðla

Þekktasti sjónvarpsfréttamaður Þýskalands, Claus Kleber, lét um áramótin af störfum fyrir aldurs sakir. Í löngu viðtali við tímaritið „Die Zeit“ 30. des. sl. sagði hann: „Mér var alltaf ljóst að erfitt yrði að kveðja starfið. En nú  reynist það mér langtum erfiðara en ég bjóst við út af vaxandi áhyggjum. Á mörgum sviðum gliðnar nú jörðin undan fótum okkar. Þættir sem við töldum sjáfsagða: Friður í Evrópu, lýðræði í Bandaríkjunum og kurteislegt pólitískt andrúmloft hér heima fyrir eru á hverfanda hveli.“
Margir geta eflaust tekið undir orð þessa eftirminnilega fréttamanns, sem margir Þjóðverjar nú sakna af skjánum.Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim