Hjörleifur Guttormsson 22. nóvember 2022

Mannkynið fjarri lausn á loftslagsháskanum

Nú er mannsaldur liðinn frá því mælingar sýndu í hvað stefndi með koltvíoxíð (CO2) innihald í andrúmslofti jarðar í kjölfar efnahagsumsvifa sem byggðu á jarðefnaeldsneyti, kolum og olíu. Sameinuðu þjóðirnar kvöddu til sérfræðinga sem lögðu grunninn að loftslagssamningi um 1990, sem samþykktur var á ráðstefnunni í Ríó de Janeiro og síðan staðfestur af flestum ríkjum heims. Fyrsti ársfundur aðildarríkja þessa samnings (COP-1) var haldinn í Bonn árið 1995 og síðan ár hvert, nú síðast í Egyptalandi þar sem COP-27 var að ljúka um síðustu helgi. Sá sem þetta skrifar gerði sér ferð á Ríó-ráðstefnuna og COP-4 í Buenos Aires árið 1998 og hefur fylgst með þróun mála samfellt síðan. Afleiðingarnar af aukningu CO2 á loftslag jarðar hafa orðið augljósari frá ári til árs, sem leiddi til Parísarsamkomulagsins sögulega á COP-20 árið 2015. Grunnur þess er að stöðva beri meðaltalshlýnun andrúmsloftsins af mannavöldum innan við 1,5 ° – 2°C. Reynslan síðan af áhrifum hlýnunar hefur fest neðri viðmiðunarmörkin í sessi sem eðlilega kröfu, en forsendurnar til að hún verði að veruleika eru óskhyggja að óbreyttu efnahagskerfi.

Í hvað stefnir með hitastigið?

Ekki þarf að eyða mörgum orðum að þeirri gjá sem nú skilur á milli óskhyggju og veruleika í umhverfismálum. Árin frá Parísarsamkomulaginu eru þau heitustu á jörðinni frá upphafi mælinga og hvergi lát á, hvort sem litið er til hita í andrúmslofti eða í heimshöfunum, þar sem súrnun fer líka stöðugt vaxandi. Meðalhiti andrúmsloftsins stefnir í 2–3 gráður síðar á öldinni, þvert á hátíðleg loforð ríkisstjórna og COP-funda síðustu ára. Afleiðingar þessarar þróunar blasa nú þegar við okkur á sjónvarpsskermum í myndum af skógareldum jafnt í Kaliforníu og Ástralíu, og í flóðum sem skola burt heilum byggðarlögum og kaffært hafa þriðjung stærðarinnar þjóðríkis eins og Pakistan nú nýverið. Þetta er að gerast við 1,18 gráðu meðalhita sem stefnir í að tvöfaldist í tíð kynslóða sem nú eru að vaxa úr grasi. Það er löngu tímabært að menn átti sig á að grundvallarbreytinga er þörf í efnahagsstarfsemi og lífsháttum einstaklinga og þjóða á heimsvísu eigi að vera von til að ná yfirlýstum markmiðum.

Breytt efnahagsstarfsemi forsenda

Undirritaður hefur lengi verið þeirrar skoðunar að breytt efnahagsstarfsemi þurfi að koma til á heimsvísu eigi að vera von um að ná jafnvægi í samskiptum manna við umhverfi jarðar. Hefðbundinn kapítalískur hagvöxtur fer ekki saman við félagslegar forsendur sem þurfa að liggja til grundvallar eigi að ríkja jafnvægi í samskiptum manna við umhverfið. Þreföldun mannfjölda á jörðinni sl. 100 ár gerir líka erfitt um vik. Almenn gagnrýni á hvert stefni í kjölfar nýafstaðsins COP-27 fundar er réttmæt, en vísar ein og sér ekki á trúverðugar lausnir.
Í nýlegu hefti þýska tímaritsins Die Zeit (nr. 46, 10. nóv. 2022) birtist athyglisverð grein eftir Jens Beckert, 55 ára félagsfræðing og forstjóra Max-Plank stofnunarinnar í Köln. Fyrirsögn hennar er: Warum reagieren wir zu langsam auf den Klimawandel?   (Hvers vegna bregðumst við of hægt við loftslagsvandanum?). Eftir að hafa lýst og gagnrýnt núverandi þróun í samhengi loftslagsbreytinga leggur Beckert áherslu á að greina félagsfræðilegar áherslur, sem knýi samfélagið til að taka meira tillit til undirstöðuþátta heilbrigðs lífs og umhverfis. Þrennt tiltekur hann sérstaklega: 1) Siðferðileg gildi í þágu heilbrigðs umhverfis sem hópar fólks þurfi að sameinist um og sem geti smitað út frá sér. 2) Þróun réttarkerfa í þágu heilbrigðrar náttúru, 3) Örvun markaða fyrir umhverfisvænar afurðir þannig að fjárfestar skynji tækifæri sem felist í slíkum fjárfestingum. – Hvað sem slíkum áherslum líði telur Beckert að erfiður róður sé framundan vegna þriggja alda inngróinna kapítalískra viðhorfa.

Þörf á öflugri umhverfisfræðslu

Reynslan sem við blasir í umhverfisumræðu hérlendis er að unga fólkið virðist upp til hópa átta sig betur en þorri eldra fólks á þeim háska sem við blasir að óbreyttu. Margir í hópi hinna eldri hafa þó stutt við náttúruverndarstarf sem skilað hefur margvíslegum árangri. Áríðandi er að gera skólakerfinu, sértaklega grunnskólum kleift að sinna betur en hingað til kennslu í náttúrufræði og samfélagsgreinum og varpa fræðilegu ljósi á þann háska sem við blasir hér og á heimsvísu. Margt í samfélagsþróun síðustu áratuga vinnur gegn árangri á umhverfissviði, auglýsingaflóð sem ýtir undir kaup á þarflausum vörum og skemmtiferðalög langt út fyrir skynsamleg mörk. Alþjóðlegur ferðaiðnaður  á ekki lítinn þátt í álagi á umhverfi jarðar, ekki síst losun frá alþjóðaflugi, þar sem engin róttæk lausn virðist í sjónmáli til að draga umtalsvert úr mengun.

Norðurslóðir í síst minni hættu

Sú var tíð að flestir hérlendis töldu umhverfi norðurslóða stafa lítil hætta af loftslagsþróun. Þannig voru í aðdraganda Ríóráðstefnunnar 1992 engir opinberir pappírar sem vísuðu á þörf umhverfisstefnu og aðgerða á norðurslóðum. Annað hefur síðan komið í ljós. Hvergi eru líkur á hækkun meðalhita meiri en í norðri, þar af leiðandi brotthvarf hafíss og bráðnun sífrera með gífurlegri losun metans. Bráðnun Grænlandsjökuls er hafin og spurningin um háskalega hækkun sjávarborðs tengist þeirri þróun. Óvíða er því meira undir en á Íslandsslóðum hvert stefnir um hlýnun loftslags á jörðinni. Við höfum því fyllstu ástæðu til árverkni og að leggjast á árar í víðtækri umhverfisvernd.



Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim