Hjörleifur Guttormsson | 23. júlí 2022 |
Manngerð umhverfisröskun er ógnvaldurinn Hitametin sem féllu í liðinni viku í Vestur-Evrópu og á Bretlandeyjum eru enn ein áminningin um þann háska sem yfir okkur vofir. Meðaltalshlýnunin frá byrjun iðnbyltingar á 19. öld nemur nú um 1,1 gráðu og yfirlýst keppikefli alþjóðasamfélagsins er að stöðva hana við 1,5–2ja gráðu hækkun sem fyrst eða innan fárra áratuga. Þetta er ósk miðuð við heimsmeðaltal í lofthita, en sem gæti reynst þrefalt hærra á norðurslóðum. Þessi vá hefur blasað við sjáendum í heilan mannsaldur, en aðeins 6 ár eru frá því þorri ríkja heims viðurkenndi á Parísarráðstefnunni 2015 að hún væri yfirvofandi og hana yrði að stöðva. Enn er verið að bæta á þennan eld dag hvern, einnig af okkur Íslendingum, þótt við eigum að vera í óskastöðu til að bregðast öðru vísi við. Flest ríki taka í orði undir það markmið að ná þurfi jafnvægi í losun gróðurhúsalofts fyrir miðja öldina. Þótt það takist eiga mörg hitametin áður eftir að falla og sjávarborð að hækka til muna vegna hlýnunar og bráðnunar jökla. Þetta er það syndaflóð sem mannkynið nú stendur frammi fyrir, voði sem aðeins verður unnt að bægja frá með samstilltum aðgerðum. COP-ráðstefnur í Egyptalandi og Kanada Þrjátíu ár eru nú liðin frá Ríó-ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna 1992, þar sem samþykktir voru tveir alþjóðasamningar, annar um verndun loftslags, hinn um viðgang lífríkis jarðar. Loftslagssamningurinn hefur síðan vakið mesta athygli og umfjöllun alþjóðasamfélagsins, enda er staða loftslagsbreytinga mælanleg með beinum og ótvíræðum hætti. Hinn Ríó-samningurinn um verndun líffræðilegrar fjölbreytni, er ekki síður mikilvægur og afdrifaríkur, en ekki er eins einfalt að fylgjast með og spá í þá þróun sem hann á að vakta. Þó er ótvírætt að að háskinn sem stafar af áhrifum mannsins á lífríkið er síst minni en vegna manngerðrar hlýnunar. Framundan er í nóvember næstkomandi 27. árlega loftslagsráðstefnan (COP 27) í Sharm el-Sheikh í Egyptalandi undir forsæti Egypta og Þjóðverja. Nýafstaðinn er í Þýskalandi undirbúningsfundur hennar vegna. Hliðstæður fundur um líffræðilega fjölbreytni, sá 15. í röðinni, verður svo í Montreal í Kanada í desember. Kjarninn í undirbúningi beggja er að leggja að þjóðum heims, sem flestar eru aðilar að báðum þessum samningum, að standa við stór orð og fyrirheit. Hitamet í síðustu viku með þúsundum dauðsfalla og skógareldum eru áminning um þá ógn sem að steðjar. Ógnvænlegar tölur Síðustu sjö ár frá 2014 til 2021 eru þau heitustu sem skráð hafa verið. Árið 2021 leiddi til mestu áhrifa hingað til vegna gróðurhúslofts, hækkunar sjávarborðs og hlýnunar og súrnun sjávar. Hlýnun hefur stöðugt verið að færa sig lengra niður í hafdjúpin. Sjórinn tekur til sín 23% af árlegri losun gróðurhúslofts, sem leiðir til súrnunar heimshafanna og ógnar í senn lífverum og vistkerfum með margvíslegum afleiðingum. Með vaxandi súrnun hafsins dregur úr upptöku þess á gróðurhúsalofti. Sýrustig (pH-gildi) í yfirborði heimshafanna er nú það lægsta sem verið hefur í a.m.k. 26 þúsund ár. Jafnframt hefur meðalhækkun sjávarborðs numið 4,5 mm árlega síðustu átta ár, yfir tvöfalt meira en um síðustu aldamót, fyrst og fremst vegna bráðnunar jökla. Jöklar þeir sem fylgst er með til viðmiðunar víða um heim hafa þynnst að meðaltali um 33,5 metra frá árinu 1950, aðallega eftir 1980. Lofthiti mældist mestur á árinu 2021 54,4 gráður í Dauðadal Kaliforníu og 48,8 gráður á Sikiley. Geysileg flóð urðu í fyrra í Kína og í Ahrdalnum í Þýskalandi þar sem 133 týndu lífi. Annars staðar ógnuðu þurrkar lífsafkomu milljóna, m.a. í austanverðri Afríku. (Heimild: WTO, Genf) Mannfjölgunin hefur mest áhrif Mannfjöldi á jörðinni fer fyrir lok þessa árs yfir 8 milljarða og er það ferfalt meira en var árið 1927 þegar íbúafjöldi jarðar náði í fyrsta sinn 2 milljörðum. Um næstu aldamót gera spár ráð fyrir um 11 milljörðum manna alls á jörðunni. Það er þessi ótrúlega öra fjölgun sem langmestu veldur um fyrirsjáanlega aukningu gróðurhúsalofts. Svokallaður heimsmælir (Worldometer) sýnir losum gróðurhúsalofts á mann í þjóðríkjum jarðar og meðaltalið er um 5 tonn á ári, almennt langtum meira í vel stæðum ríkjum en fákækum. Til samanburðar er áætlað að með því að spara sér kaup á meðalstórri bifreið drægi það aðeins úr losun sem nemur 2,4 tonnum árlega, sem er langtum minna en flestir halda. Flug landa á milli er áætlað að valdi að meðaltali losun upp á 1,6 tonn/mann á ári, og endurvinnsla á úrgangi hvers einstaklings dregur aðeins úr losun gróðurhúsalofts um 0,2 tonn. (Heimild: UN climate change, 9. mars 2022) Ísland losar einna mest Evrópuríkja Losun gróðurhúsalofts á hvert mannsbarn á Íslandi er meðal þess hæsta sem gerist í Evrópu. Nam hún um 13,5 kílótonnum af CO2-ígildum árið 2020, sem er langtum meiri losun á mann en á hinum Norðurlöndunum. Skýrist þetta að nokkru af losun frá stóriðju hérlendis, en meginhluti hennar fellur hins vegar undir svonefnt ETS-kerfi og telst þannig ekki til skuldbindinga á beinni ábyrgð Íslands. Samkvæmt Kyótóbókuninni losaði Ísland árið 2020 um 10% umfram úthlutaðar losunarheimildir og getur þurft að gjalda fyrir það síðar. Landnotkun og skógrækt eru hér stærstu losunarflokkarnir.– Nú er byrjað svonefnt Parísartímabil og er Ísland og Noregur þar saman með Evrópusambandinu og hafa sett sér það markmið að minnka losun um 40% árið 2030 miðað við upphafsár loftslagssamningsins 1990. Regluverk þetta nær ekki til losunar frá alþjóðlegri flugstarfsemi, þar sem Ísland myndi skora hátt miðað við fólksfjölda. Möguleikar Íslands til að skila sínu í samdrætti gróðurhúsalofts verða þrátt fyrir núverandi stöðu að teljast góðir vegna endurnýjanlegra orkulinda. En til þess að skila árangri þarf hins vegar staðfestu stjórnvalda og upplýst almenningsálit./p> Hjörleifur Guttormsson |