Hjörleifur Guttormsson 27. desember 2022

Umhverfismálin 30 árum eftir Ríó-ráðstefnuna

Grunnurinn að alþjóðasamstarfi í umhverfismálum var lagður fyrir hálfri öld á vegum Sameinuðu þjóðanna með Stokkhólmsráðstefnunni 1972. Hún snerist einkum um mannlegt umhverfi og gífurlega mismunun í lífskjörum milli þjóðríkja. Í kjölfarið urðu til Umhverfisráð, Umhverfissjóður og Umhverfisskrifstofa Sameinuðu þjóðanna og fékk skrifstofan fast aðsetur í Nairobi í Kenya. Alþjóðasamstarf að hafréttarmálum fylgdi í kjölfarið og skilaði Hafréttarsamningi SÞ 1982, sem Ísland átti góðan þátt í að móta. Árið 1983 varð síðan til Brundtland-nefnd Sameinuðu þjóðanna sem í skýrslu sinni Sameiginleg framtíð okkar mótaði og kynnti 1987 hugmyndina um sjálfbæra þróun. Í júní 1992 var komið að Ríóráðstefnu SÞ, sem samþykkti Yfirlýsingu um umhverfi og þróun og lagði grunn að þremur alþjóðasáttmálum: 1) Um loftslagsbreytingar, 2) Um líffræðilega fjölbreytni og 3) Um aðgerðir gegn eyðimerkurmyndun. Ísland gerðist formlegur aðili að þessum samningum á árunum 1994–1997 og hefur átt fulltrúa á fundum þeirra, sem bera yfirskriftina Conferences of the Parties, skammstafað COP. Mestrar athygli hefur samningurinn um  loftslagsbreytingarnar notið með sína 27 ársfundi frá 1995 að telja, og nú nýverið samningurinn um líffræðileg fjölbreytni í lok 15. ársfundar í Kanada.

Loftslagsváin kallar á skjótar aðgerðir

Þrátt fyrir róttæk markmið Parísarsamningsins 2015 í orði hafa flest þróunarríki síðan aukið losun gróðurhúsalofts. Einnig Ísland er í þeim hópi og er með allra mestu losun CO2-ígilda á mann í Evrópu, eða um 12 tonn. Þannig jókst losun Íslands árið 2021 miðað við fyrri ár, og enn sýnist stefna í aukningu á þessu ári. Hér þarf því að verða mikill samdráttur í losun næstu árin eigi að nást markmið stjórnvalda um 55% samdrátt í losun „á beinni ábyrgð Íslands fyrir 2030 miðað við árið 2005“.
Á ársfundi COP-27 í Egyptalandi nýlega var samþykkt fyrri stefna um að stöðva hlýnun á jörðinni við 1,5-2o C meðalhita, markmið sem virðist æ fjarlægara eftir því sem árin líða. Að mati tímaritsins The Economist  5. nóv. sl. þyrfti a.m.k. þrefalt meira fjármagn frá þróuðum ríkjum en nú í þessu skyni, fyrst og fremst til nota í þeim þróunarríkjum sem mest losa. Taka muni lengri tíma en áætlað hefur verið að skipta út jarðefnaeldsneyti og því þurfi að auka aðgerðir til aðlögunar vegna síhækkandi hitastigs.

COP-15 um líffræðilega fjölbreytni

Um miðja desember sl., mánuði eftir loftslagsfundinn í Egyptalandi, kallaði ársfundur samningsins um líffræðilega fjölbreytni á athygli heimsbyggðarinnar, en væntingar um árangur voru litlar fyrirfram. Þátttaka stjórnmálamanna í þessum fundi, andstætt hinum fyrri um loftslagið (COP-27), var í algjöru lágmarki, sem undirstrikar blindu þorra stjórnmálamanna þegar kemur að heildarsamhengi í lífríkinu. Af um átta milljón lífverutegundum er um ein milljón talin í bráðri útrýmingarhættu, með keðjuverkandi afleiðingum fyrir líf á jörðinni, mannlífið meðtalið. Þessu valda fyrst og fremst manngerðar umhverfisbreytingar. Til að stöðva þetta skelfilega ferli samþykkti COP-15 ráðstefnan að vernda skuli að minnsta kosti 30% af yfirborði lands og sjávar fram til ársins 2030.
Kína hefur sl. 4 ár verið í forystu fyrir samningnum á þessu sviði og hafði fyrir hönd aðstandenda hans undirbúið tillögurnar um aðgerðir. Fyrir lokadag ráðstefnunnar virtist ekkert samkomulag í augsýn. Þá setti kínverski umhverfisráðherrann og forseti fundarins, Huang Runqiu, fram úrslitatillögu, sem var samþykkt, þó með orðalagsbreytingu sem felldi út formlega kröfu um að fyrirtæki gerðu grein fyrir hversu háð þau séu náttúrulegu umhverfi.
Fjöldi fulltrúa viðskipta- og fjármálafyrirtækja fylgdust með ráðstefnunni og fullyrt er að meðal þeirra fari skilningur vaxandi á efnahagslegum afleiðingum náttúrueyðingar.  
Samhengið milli umhverfistjóns og reksturs náttúruháðra fyrirtækja hefur verið dregið fram í þessari nýstárlegu umræðu, sem m.a. hefur leitt í ljós áætlaða árlega þörf fyrir 700 milljarða punda framlag til verndar náttúrukerfum.

Ísland vakni af værum blundi

Íslensk stjórnvöld hafa lengst af verið afar fálát þá kemur að samningnum um verndun líffræðilegrar fjölbreytni. Um þetta fjallaði Ríkisendurskoðun í skýrslu í janúar 2006 undir heitinu „Samningurinn um líffræðilega fjölbreytni – Umhverfisendurskoðun.“ Þar sagði m.a.:
  „Að öllu samanteknu telur Ríkisendurskoðun að aðild Íslands að samningnum hafi haft mjög takmörkuð áhrif á íslenska löggjöf og opinbera stefnu á sviði líffræðilegrar fjölbreytni.  ... Sérstaka athygli vekur hve takmörkuð áhersla virðist lögð á náttúrufræðilegar rannsóknir hér á landi. ... Æskilegt er að Alþingi og stjórnvöld skoði hvort tilefni kunni að vera til að fela tilteknu stjórnvaldi sérstaklega það hlutverk að fylgjast með hvernig staðið er að verndun og varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni á Íslandi.“
Því miður hygg ég að þessi varnaðarorð Ríkisendurskoðunar séu enn í fullu gildi. Um það vitnar handahóf þegar kemur að innflutningi og dreifingu erlendra lífverutegunda, m.a. til skógræktar, að ekki sé talað um dreifningu ágengra tegunda eins og lúpínu og kerfils. Það á einnig við um dæmalaust handahóf í laxeldi í lekum sjókvíum, byggt á erlendum laxastofnum sem nú eru að leggja undir sig íslenskar ár, eina af annarri.
---     
Haft var á orði um COP-15 ráðstefnuna í Kanada á dögunum, að þar hafi verið fátt stjórnmálamanna að fylgjast með, m.a. var enginn slíkur tilgreindur frá Íslandi. Þetta er dapurlegt, en endurspeglar fálæti sem ætti að heyra fortíðinni til.
Á Ríó-ráðstefnunni 1992 undirritaði Eiður Guðnason umhverfisráðherra fyrir Íslands hönd samninginn um verndun líffræðilegrar fjölbreytni. Má sjá það gerast á meðfylgjandi mynd sem ég tók í Ríó. Eiður lagði áherslu á að vera með þeim fyrstu og varð Ísland þriðja ríkið til að lýsa stuðningi við þennan alþjóðasamning. Betur að framhaldið hefði endurspeglað þann metnað þáverandi ráðherra.  



Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim