Hjörleifur Guttormsson 28. júní 2022

Úkraínustríðið: Tvísýnar horfur

Stríðið í Úkraínu hefur eðlilega upptekið hugi fólks og fjölmiðla eftir að hafa varað nú í fjóra mánuði, Nú er hins vegar víða farið að gæta þreytu um leið og margir spyrja: Hvernig getur þessi hildarleikur tekið enda? Framkvæmdastjóri NATÓ gerir því skóna að stríð þetta geti varað árum saman, og víst er að enginn sér fyrir um lyktir þess og eftirleikurinn mun eflaust lengi minna á sig. Yfirvofandi er stórfelld hungursneyð víða vegna skorts á hveiti og og fleiri lífsnauðsynjum, m.a. í fátæktarlöndum Afríku. Þar leggst á eitt viðskiptabann Vesturlanda gegn Rússlandi og tundurduflagirðingar Úkraínumanna til varnar úti fyrir Odessa við Svartahaf.

Úr heimi minninga

Samskipti Rússa við nágranna sína hafa löngum verið hluti af flókinni sögu og ættu því átök á þessum slóðum ekki að koma mönnum í opna skjöldu. Norðurlandabúum eru þar eðlilega efst í huga samskipti Rússa við Eystrasaltsríkin og svo vill til að undirritaður kynntist þeim með óvenjulegum hætti fyrir um aldarþriðjungi, nánar tiltekið í sumarbyrjun 1990.  Fram að þeim tíma fóru samskipti flestra Íslendinga við Sovétríkin fram um hefðbundna farvegi, m.a. gegnum sendiráðið í Moskvu; fáir aðrir en starfsmenn á flutningaskipum lögðu leið sína til borga við austanvert Eystrasalt. Frá árinu 1983 átti ég sem þingmaður sæti í utanríkismálanefnd Alþingis og í Norðurlandaráði frá 1988–1955. Þar kynntist ég m.a. finnskum þingmönnum sem helst höfðu samskipti í austurátt, m.a. við sovétlýðveldið Eistland. Í Sovétrékjunum var undir lok níunda áratugarins vaxandi gerjun á valdatíma Gorbatsjovs. Almenningur í Eystrasaltsríkjunum var vaknaður til vitundar um breytt andrúmsloft og sóknarfæri fyrir sjálfstæðishugmyndir. Mig fýsti að kynnast þessum aðstæðum af eigin raun og fékk frá finnskum þingmönnum uppgefin nöfn stjórnmálamanna í Tallinn, sem ég hafði hug á að fræðast af, sem og nafn Tönu Laak,  forstjóra eistneska    skipafélagsins sem þá sá um ferjusiglingar til Helsinki og Stokkhólms. Kona mín Kristín var með í ferðinni. Laak beið okkar við landganginn í Tallinn og bauð fram aðstoð sína. Það var komið kvöld og við hröðuðum okkur á hótel.              

Eftirminnilegur dagur

Um næsta dag, föstudaginn 22. júní 1990, leiði ég til vitnis dagbók mína, þar sem stendur:
„Risið á 9. tíma á Palace hóteli. Fréttir um landskjálfta í Íran og samþ. þýsku þinganna um sameiningu og Oder-Neisse. Eftir morgunverð hringdi Tönu Laak og greindi frá dagskrá:

  1. Fórum með honum 1015  til forseta æðstaráðs Eistlands, Arnold Rüütel. Ræddum við hann í klst. og 15 mín.
  2. Hittum í hádegi í þinghúsinu á Domberget Rein Veideman þingmann, sem er varaform. Sós. dem.
  3.  Heilsuðum á eftir forsætisráðherra, samgöngurh. og dómsmálarh.
  4. Ræddum í klst. við Indrek Toome formann utanríkismálanefndar þingsins (Supreme soviet) og áður forsætisráðherra.
  5. Skoðunarferð í 2 ½ tíma um Tallinn undir leiðsögn Toomas Sosnitski starfsmanns Eastline. Hist á eftir á hóteli. Gönguferð um gamla bæinn, sem er mikill fjársjóður.
  6. Snætt vel og til náða þreytt eftir góðan dag. 23.“

Daginn eftir tókum við járnbrautarlest til Leningrad, sem enn bar það nafn, og héldum þaðan með finnskri ferðaskrifstofu til baka heimleiðis.
       Mánudaginn 2. júlí 1990 sat ég fund utanríkismálanefndar Alþingis. Þar dreifði ég og fylgdi úr hlaði frásögn um ferðina til Eistlands, sem einnig fjölmiðlar greindu frá næstu daga. – Heimkominn sendi ég Rüütel forseta Eistlands vænan pakka af ritum um starfsemi Norðurlandaráðs og um Ísland, sem hann heimsótti 14 árum síðar, 2004, þá sem forseti lýðveldisins Eistlands.

Eystrasaltsríkin og Kaliningrad

En hverfum þá til nútíðar. Eðlilegt er að Eystrasaltsríkin  hafi áhyggjur af vaxandi spennu í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu. Öll eru þau þó í NATO, sem á að vera þeim trygging fyrir að ekki verði hróflað við landamærum þeirra eða öryggi vegna samskipta í austurátt. Spennan tengist fyrst og fremst svokallaðri Suwalki samgönguæð á landamærum Litháens og Póllands til Kaliningrad svæðisins, sem var hluti af Sovétríkjunum og nú Rússlandi samkvæmt samningi frá 12. september 1990, upphaflega með rætur í Potsdam-sáttmálanum frá 1945. Litháen gaf nýlega út tilskipun um að óheimilt verði að flytja vissar vörur um þessa landleið, og er það liður í stuðningi við málstað Úkraínu. Þessu hafa rússnesk stjórnvöld sem vænta mátti mótmælt harðlega og gæti þetta mál átt eftir að draga dilk á eftir sér. Um er að ræða vörur sem eru liður í viðskiptahömlum ESB gagnvart Rússlandi.

Hálmstrá Selenskís: Úkraína í ESB

Rússar hafa undanfarið sótt fram og náð á sitt vald stórri sneið af Austur-Úkraínu auk Krímskaga, héruðum sem þeir hafa lengi gert kröfu til og notið til þess stuðnings hluta íbúa þessara svæða. Fljótt á litið mætti ætla að það væri sú fórn sem Úkraínu væri gjört að færa til að koma á friðarsamningi við Rússland., en ekkert slíkt er til umræðu af þeirra hálfu og lái þeim hver sem vill eftir það sem á undan er gengið. Meginkrafa þeirra er nú sem fyrr að fá þungavopn til að geta staðist rússneskum hersveitum snúning, að því viðbættu að fá vilyrði ESB um að gerast umsóknarríki að bandalaginu. Fyrra atriðið endurspeglar vonina um að standast Rússaher snúning til langframa, hið síðara er hálmstrá sem van der Leyen hefur rétt að Selenskí og kostar ESB lítið. Sá fjöldi ríkja sem þegar er á boðslista sem aðildarríki að ESB og hefur verið það árum og áratugum saman, segir allt sem segja þarf um það hversu innihaldslaus slík samþykkt væri af hálfu ESB. Þar við bætist það mat margra sérróðra á viðskiptalífi Úkraínu, að leitun sé að spilltara efnahagskerfi en þarlendis.

Álit úr danska blaðinu Information

Í danska blaðið Information skrifar Jakob Skaarenborg fróðlega pistla um stríðið í Úkraínu. Hann er sagnfræðingur og landfræðingur, sem starfað hefur í aldarfjórðung sem sérfræðingur hjá rannsóknadeild danska hersins (Forsvarets efterretningstjeneste). Í grein þann 30. maí sl. segir hann að vopnasendingar til Úkraínu vestan að valdi bara fleiri dauðsföllum og eyðileggingu. „Við höfum málað okkur út í horn. Vesturveldunum mistókst að koma í veg fyrir stríðið og nú birtast afleiðingarnar í hrörnandi heimsbúskap og hungurdauða fjölda fólks.“  Sama blað hefur eftir honum i uppslætti 21. júní sl.: Vopnasendingar til Úkraínu valda bara fleiri dauðsföllum og eyðileggingu og koma í veg fyrir friðarviðræður sem leitt geti til stríðsloka. – Rússar hafa aldrei verið öflugir í upphafi stríðs, en þeir eru meistarar í að þreyta andstæðinginn og það er einmitt það sem nú er að gerast.“ segir Skarenborg.
       Í ritstjórnargrein Morgunblaðsin 21. júní sl. um Úkraínustríðið segir: „Baráttan um Úkraínu er nú á ögurstund.“  Mörgum myndi létt ef sú stund reyndist skammt undan.



Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim